Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 492  —  69. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Þórdísi Ingadóttur, Kolbrúnu Benediktsdóttur frá Ákærendafélagi Íslands, Hrafnhildi Gunnarsdóttur frá ríkissaksóknara og Soffíu Dóru Jóhannsdóttur og Lilju Björk Guðmundsdóttur frá Rauða krossinum á Íslandi.
    Nefndinni barst umsögn frá Rauða krossinum á Íslandi.
    Frumvarp þetta er lagt fram sérstaklega í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands á því réttarsviði sem frumvarpið nær yfir. Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt sáttmálanum um ráðstafanir og refsingar fyrir hópmorð frá árinu 1948, samkvæmt fjórum Genfarsamningum frá árinu 1949 og einnig tveimur viðbótarbókunum við þá samninga frá árinu 1977. Um er að ræða Genfarsamning um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli, Genfarsamning um meðferð særðra, sjúkra og skipreika sjóliða á hafi, Genfarsamning um meðferð stríðsfanga og Genfarsamning um vernd almennra borgara á stríðstímum. Hins vegar er markmið þessa frumvarps það að setja nauðsynleg lagaákvæði til að tryggja að íslensk stjórnvöld geti nýtt sér fyllingarlögsögu Alþjóðlega sakamáladómstólsins og þannig rannsakað sjálf og ákært fyrir glæpi sem falla undir lögsögu dómstólsins samkvæmt Rómarsamþykkt um dómstólinn frá árinu 1998 sem fullgilt var af Íslands hálfu árið 2000.
    Við meðferð málsins var rætt um saknæmisskilyrði 2. gr. frumvarpsins um glæpi gegn mannúð. Ákvæðið er í meginatriðum byggt á 7. gr. Rómarsamþykktarinnar, þó að undanskildu skilyrðinu um ásetning, þ.e. að verknaðurinn sé framinn vitandi vits um atlöguna. Í greinargerð með frumvarpinu um þetta atriði kemur fram að ekki var talin þörf á að innleiða saknæmisskilyrðið á grundvelli þess að saknæmisregla almennra hegningarlaga eigi að duga hvað þetta varðar.
    Nefndinni var bent á að þegar verknaður er refsiverður samkvæmt almennum hegningarlögum er verknaður saknæmur ef um er að ræða ásetningsbrot nema sérstaklega sé tekið fram í lögunum að heimilt sé að refsa fyrir gáleysisbrot, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þegar um er að ræða sérrefsilög, eins og í þessu tilviki, hefur verið gagnályktað frá ákvæði 18. gr. laganna um saknæmi þannig að gáleysi dugir almennt til refsiábyrgðar. Nefndinni var þess vegna bent á að taka þyrfti allan vafa af um hvaða saknæmisskilyrði kæmu til greina þegar um væri að ræða glæpi gegn mannúð, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að verknaði verði að fremja af ásetningi. Auk þess leggur nefndin til minni háttar orðalagsbreytingu.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að í frumvarpinu væri ekki sérstaklega kveðið á um hver annaðist rannsókn eða höfðaði sakamál vegna þeirra brota sem frumvarpið kvæði á um, en af því leiðir að það verkefni yrði í höndum lögreglu. Í ljósi eðlis og alvarleika brotanna sem og mögulegs umfangs rannsókna á þessum brotum telur nefndin að betur færi á því að héraðssaksóknari annaðist jafnframt rannsókn og færi með ákæruvaldið í þessum efnum. Þar að auki telur nefndin að tryggja þurfi að rannsókn og höfðun sakamáls verði í samræmi við lögreglulög, nr. 90/1996, og lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem rannsóknar- og ákæruheimildir héraðssaksóknara hafa verið afmarkaðar við alvarlegri brot. Nefndin leggur því til breytingar á 2. mgr. 8. gr. lögreglulaga þannig að héraðssaksóknari annist rannsókn brota gegn lögum um hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Sú breyting tryggir að höfðun sakamála vegna þessara brota verði jafnframt í höndum héraðssaksóknara, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um meðferð sakamála.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðunum „þegar þeir eru framdir“ í 2. mgr. 2. gr. komi: af ásetningi.
     2.      Í stað orðanna „eru undir“ í 2. mgr. 6. gr. komi: lúta.
     3.      Við 11. gr. bætist nýr töluliður sem orðist svo: Lögreglulög, nr. 90/1996: Við 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna bætist: sem og brota gegn lögum um hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

    Steinunn Þóra Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 20. nóvember 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðmundur Andri Thorsson. Helgi Hrafn Gunnarsson. Hildur Sverrisdóttir.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.