Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 496  —  276. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um endurskoðun námslánakerfisins.


     1.      Hefur verið haft nægilegt samráð við námsmenn við endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og komið til móts við óskir þeirra, en í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir að ráðist verði í endurskoðun námslánakerfisins í samstarfi við námsmannahreyfingarnar?
    Hinn 21. mars í vetur sem leið var skipuð verkefnastjórn um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Formaður stjórnarinnar er Gunnar Ólafur Haraldsson, hagfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Aldís Mjöll Geirsdóttir og Ragnar Auðun Árnason sitja í stjórninni fyrir hönd námsmanna. Námsmenn hafa þannig tvo nefndarmenn af sjö og með þeim hætti er haft mikið samráð við þá eins og tilgreint er í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

     2.      Er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í samræmi við kostnað sem fylgir innleiðingu styrkjakerfis að norrænni fyrirmynd sem gefin eru fyrirheit um í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna?
    Niðurstaða um breytingu á fjárveitingum liggur ekki fyrir fyrr en vinnu verkefnastjórnarinnar er lokið og búið verður að meta mögulegan kostnað sem þær breytingar hefðu í för með sér.

     3.      Mun ráðherra leggja til að vaxtastig námslána verði hækkað og tekjutengdar afborganir afnumdar af lánakjörum lántakenda?
    Niðurstöður um vaxtastig námslána og um það hvort tekjutengdar afborganir af námslánum verða afnumdar liggja ekki fyrir fyrr en heildstætt mat hefur verið lagt á endurgreiðslubyrði námslána. Markmið með vinnu verkefnastjórnarinnar er að leggja til útfærslur á námslánakerfinu sem stuðla að jöfnum tækifærum til náms sem og jafnari og gagnsærri dreifingu á framlagi ríkisins til nemenda.