Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 497  —  177. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um nám sjúkraliða.


     1.      Hefur ráðherra kannað mögulegar leiðir til að styðja við nám sjúkraliða? Ef svo er, er unnið eftir aðgerðaáætlun um að efla sjúkraliðanámið, þá einkum fjarnámið, og auka kynningu á því?
    Í mennta- og menningarmálaráðuneyti er unnið að verkefni til að efla starfsmenntun á breiðum grunni þar sem horft er til allra starfsnámsbrauta sem kenndar eru í framhaldsskólum landsins. Þess er vænst að aðgerðir sem settar verða af stað skili fleiri nemendum í starfsmenntun í takt við þarfir og eftirspurn atvinnulífsins. Hluti af þeim fjármunum (23,1 millj. kr.), sem Háskólinn á Akureyri fékk í janúar 2018 til þróunar fagháskólanáms, rann til þróunar viðbótarnáms fyrir sjúkraliða og eru væntingar til þess að námið eflist á sem flesta vegu í kjölfarið.

     2.      Hefur fjármagn verið tryggt til að hrinda í framkvæmd fagnámi fyrir sjúkraliða á háskólastigi við Háskólann á Akureyri?
    Eins og kemur fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar fékk Háskólinn á Akureyri 23,1 millj. kr. til þróunarverkefna um fagháskólanám í janúar 2018 þar sem hluti framlagsins rann til þróunar viðbótarnáms fyrir sjúkraliða. Fjármagnið er hluti af sérstakri fjárveitingu til þróunar fagháskólanáms sem háskólar gátu sótt um og var þáttur í framlagi ríkisstjórnarinnar til kjarasamninga árið 2015.
    Markmið með þróun fagháskólanáms er að auka fjölbreytni í háskólanámi, bregðast við síbreytilegum atvinnumarkaði, skapa aukin tækifæri fyrir fólk á vinnumarkaði, bæta möguleika nemenda á að finna sér starf að loknu námi og stuðla að nýsköpun með hagsmuni nemenda og samfélags að leiðarljósi.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að menntun sjúkraliða og starfsreynsla verið metin inn í nám í hjúkrunarfræði?
    Sjúkraliðanám er 200 eininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði þrjú ár, eða sex annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Í námsbrautarlýsingum er þess getið að sjúkraliðanám geti verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.
    Samkvæmt 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, skulu nemendur sem hefja nám í háskóla hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Þó er háskólum heimilt að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Þá er skv. 10. gr. sömu laga háskólum einnig heimilt að meta til eininga nám sem fram fer við aðra skóla enda ábyrgjast háskólarnir sjálfir að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006. Háskólar eru sjálfstæðar stofnanir og ákveða sjálfir fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats.
    Í ljósi þess tilraunaverkefnis sem nú er farið af stað um fagháskólanám fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri verður beðið niðurstöðu verkefnisins áður en ákvörðun verður tekin um framtíðarverkefni eða áherslur sem lúta að slíku námi. Stefnt er að því að efla notkun raunfærnimats á háskólastigi en raunfærnimat snýst um að meta færni umsækjenda, t.d. færni sem skapast hefur vegna starfsreynslu umsækjanda, við inntöku í háskóla.