Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 498  —  213. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um veiðar á langreyði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra afnema undanþágu frá samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES) vegna veiða á langreyði, til að mæta kröfum alþjóðasamfélagsins um vernd dýra í útrýmingarhættu? Ef ekki, hvers vegna ekki?

    Við fullgildingu CITES-samningsins (samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra- og plantna sem eru í útrýmingarhættu) árið 2000 gerði Ísland fyrirvara við skráningu langreyðar á viðauka I við samninginn eins og heimilt er samkvæmt honum. Ísland er því ekki bundið af skráningu langreyðar á viðauka I og getur átt viðskipti með langreyði við ríki sem gert hafa sams konar fyrirvara og þau ríki sem ekki eru aðilar að CITES-samningnum.
    Í þessu sambandi þykir rétt að benda á að listun CITES á langreyði á viðauka I við samninginn byggist ekki á vísindalegum rökum heldur pólitískum stuðningi CITES við bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við atvinnuveiðum á hval. Þannig voru samþykktar ályktanir á ríkjaráðstefnum CITES um að lista á viðauka I þær hvalategundir sem féllu undir bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við atvinnuveiðum á hval. Bann Alþjóðahvalveiðiráðsins á sér ekki heldur vísindalega stoð og gildir um alla stofna hvala, burtséð frá mjög mismunandi ástandi þeirra. Þegar Ísland gekk að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002 setti ríkið lögmætan fyrirvara gagnvart banninu og það hefur því engin áhrif á hvalveiðar Íslendinga. Í 2. gr. CITES-samningsins kemur m.a. fram að viðauki I við samninginn skuli innihalda allar tegundir sem séu í útrýmingarhættu og viðskipti hafi eða geti haft áhrif á. Þannig samræmist það ekki CITES-samningnum að hafa langreyði skráða á viðauka I og byggði Ísland fyrirvara sinn við listun langreyðar á vísindalegum rökum enda langreyður hér við land ekki í útrýmingarhættu.
    Hafrannsóknastofnun hefur í samvinnu við nágrannaríki við Norður Atlantshaf fylgst náið með stofnstærð langreyðar með reglulegum talningum allt frá árinu 1987. Ljóst var samkvæmt úttektum vísindanefndar Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) að langreyðarstofninn hér við land var ekki í útrýmingarhættu árið 2000. Síðan Ísland gekk að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið hefur vísindanefnd þess ráðs staðfest gott ástand langreyðarstofnsins hér við land með tveimur umfangsmiklum úttektum, og lauk þeirri seinni árið 2016. Það er því ljóst að stofn langreyðar við Ísland er langt frá því að teljast vera í útrýmingarhættu. Nýjustu staðfestinguna á því er að finna í nýútkomnum válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (október 2018) um íslensk spendýr þar sem langreyður flokkast sem „ekki í hættu“ (e. least concern). Á alþjóðlegum válista IUCN var langreyður áður flokkuð sem „í hættu“ (e. endangered) vegna slæmrar stöðu stofns í Suðurhöfum, en staða þess stofns hefur batnað og er langreyður því ekki lengur talin vera „í hættu“ neins staðar í heiminum samkvæmt mati IUCN.
    Langreyði hefur fjölgað jafnt og þétt samkvæmt talningum undanfarinna áratuga. Samkvæmt síðustu talningu sem framkvæmd var árið 2015 er stofninn (Mið-Norður-Atlantshafsstofn) talinn vera um 40 þúsund dýr og hefur aldrei mælst stærri. Núverandi aflamark fyrir Austur-Grænlands-Íslandssvæðið er 161 dýr á ári og var ákvarðað með varúðarsjónarmið að leiðarljósi.
    Með vísan til framangreinds og þeirrar staðreyndar að langreyðarstofninn hér við land er í góðu ástandi og fjarri því að teljast í útrýmingarhættu, er ekki talin ástæða til þess að afturkalla fyrirvara Íslands við listun CITES á langreyði á viðauka I við samninginn.