Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 512  —  390. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um jöfnun húshitunarkostnaðar.


Flm.: Berglind Häsler, Ari Trausti Guðmundsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ólafur Þór Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hefja þegar undirbúning aðgerða sem tryggja að kostnaður íbúa sem kynda með rafhitun eða notast við kynta hitaveitu verði sambærilegur og veginn meðalkostnaður húshitunar á þeim svæðum þar sem hitaveitur eru starfræktar. Ráðherra skal fyrir 1. apríl næstkomandi kynna Alþingi tillögur sínar um nauðsynlegar aðgerðir til að ná framangreindu markmiði fram ásamt mati á kostnaði þessu samfara. Miða skal við að aðgerðir verði að fullu komnar til framkvæmda árið 2021.

Greinargerð.

    Húshitunarkostnaður er hluti af rekstrarkostnaði heimila og um 7,5% af vísitölu neysluverðs má rekja til húshitunar og rafmagns. Þessum kostnaði er misjafnt skipt á Íslandi, sbr. svar ráðherra á yfirstandandi þingi (þingskjal 465 í 288. máli).
    Tæpur tíundi hluti landsmanna býr á svæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur. Í framangreindu svari ráðherra kemur fram að húshitunarkostnaður einbýlishúss í dreifbýli getur verið allt að 100–160% hærri en á þeim svæðum þar sem notast er við hitaveitur. Ef þetta er sett í samhengi við laun í landinu þá eru miðgildi heildarlauna á Íslandi 618 þús. kr. á árinu 2017 samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. 1 Miðað við laun eftir skatt má gera ráð fyrir því að íbúar í dreifbýli þurfi að vinna u.þ.b. tvær vikur á ári til þess að kynda húsið sitt en íbúi á hitaveitusvæði geti sloppið með tæpa viku. Hér er ekki tekið með í reikninginn að tekjur í dreifbýli eru lægri heldur en í þéttbýli, en þetta sýna gögn Hagstofunnar með uppgjöri ráðstöfunartekna eftir sveitarfélögum. 2
    Í fyrrgreindu svari ráðherra kemur fram að það mundi kosta ríkissjóð um 770 millj. kr. aukalega að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis þannig að hann yrði sambærilegur við meðalkostnað íbúa í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.
    Flutningsmenn tillögunnar telja eðlilegt og sjálfsagt réttlætismál að allir landsmenn búi við sömu kjör hvað varðar húshitun. Þrátt fyrir að ríkið hafi niðurgreitt húshitunarkostnað frá árinu 1983 er enn óviðunandi munur á húshitunarkostnaði. Mikill árangur hefur náðst á þessum tíma, en á árinu 1983 bjuggu enn þá um 6% þjóðarinnar við það að kynda með olíu. Flutningsmenn telja óeðlilegt að 35 árum eftir að byrjað var að jafna út húshitunarkostnað þurfi enn tíundi hluti þjóðarinnar að greiða umtalsvert hærra verð til þess eins að búa í upphituðu húsnæði og það þótt nú séu sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, jarðvarmi og raforka, alfarið nýttar í því skyni.
    Flutningsmenn telja það réttlætis-, jafnréttis- og byggðamál að stíga nú skrefið til fulls og jafna endanlega húshitunarkostnað landsmanna. Hafinn verði undirbúningur nauðsynlegra aðgerða í þessu skyni sem komi að fullu til framkvæmda á næstu tveimur árum og verði þær ráðstafanir eftir atvikum festar í lög.

1     www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/laun-2017/
2     px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__3_tekjur__1_tekjur_skattframtol/TEK01002.px/