Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 513  —  144. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um veiðigjald.

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Fyrsti minni hluti leggur ríka áherslu á að við endurskoðun laga um veiðigjald verði fyrst og fremst horft til afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa mörg átt í erfiðleikum með að takast á við versnandi skilyrði í rekstri.
    Telur 1. minni hluti að leitast eigi við að tengja gjaldtökuna betur við afkomu þannig að til staðar verði þrepaskiptur afsláttur sem helst skili sér til lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja.
    Fyrsti minni hluti telur fyrirliggjandi frumvarp ráðherra ekki taka nægt tillit til framangreinds og lýsir yfir vonbrigðum með það. Á það við um fleiri, enda má sjá í umsögnum að gagnrýnt er hversu hart veiðigjaldið getur bitnað á þeim fyrirtækjum sem að framan greinir.
    Fram hefur komið við umfjöllun um málið í nefndinni að veiðigjaldið bitni hart á smábátaútgerð auk þess sem rekstrarskilyrði hennar hafi versnað mjög undanfarin misseri. 1. minni hluti telur að krókaaflamarksbátar og bátar sem eru minni en 30 brúttótonn eigi að lúta öðrum lögmálum en stærri útgerðir enda eru minni útgerðir mun háðari afkomusveiflum en hinar stærri. Bent var á það við meðferð málsins að krókaaflamarksútgerðir geti ekki nýtt þau veiðarfæri sem séu hagkvæmust og hentugust hverju sinni. Það er því dýrara fyrir krókaaflamarksútgerðir að veiða hvert kílógramm af afla heldur en fyrir útgerðir í aflamarkskerfi sem geta brugðist við nýjum aðstæðum með því að skipta um veiðarfæri og þannig minnkað kostnað við veiðar.
    Fyrsti minni hluti telur til bóta að reiknistofn veiðigjalds verði byggður á upplýsingum sem eru nær í tíma og að útreikningurinn verði nokkuð einfaldaður. Gjaldið taki þannig betur mið af stöðu greinarinnar þegar það verði lagt á. Sömuleiðis telur 1. minni hluti að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar um frítekjumark sé skref í rétta átt en samt sem áður bætir hún fyrst og fremst hag þeirra allra minnstu. Meðalstórar útgerðir, sem eru samkvæmt upplýsingum sem bárust nefndinni margar í Norðvesturkjördæmi, sitja enn eftir með gríðarhá veiðigjöld og erfiðan rekstur. Í breytingartillögu meiri hlutans er einnig mælt fyrir um að nytjastofnar með minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára myndi ekki stofn veiðigjalds. 1. minni hluti telur að þessi fjárhæð hefði mátt vera hærri en telur hins vegar að það sé skref í rétta átt að ákvæði af þessu tagi verði í lögunum.
    Markmið laga um stjórn fiskveiða er skv. 1. gr. þeirra m.a. að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. 1. minni hluti telur að frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé á skjön við þau markmið. 1. minni hluti bendir á að minni fyrirtæki eru einkum staðsett á landsbyggðinni. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein þjóðarinnar og í fjölmörgum byggðarlögum er hann burðarstólpi og undirstöðuatvinnuvegur. Fjöldi fólks leggur traust sitt á að rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi sé stöðugur og eru margir uggandi yfir því að undanfarið hafi útgerðir þurft að draga saman seglin vegna hárra veiðigjalda. Þeir fjármunir sem notaðir eru til að greiða veiðigjald verða ekki nýttir í annað, svo sem uppbyggingu, nauðsynlegar fjárfestingar og endurnýjun til hagsbóta fyrirtækjum og samfélagi á hverjum stað. 1. minni hluti bendir á að við umfjöllun um málið kom fram hjá mörgum aðilum að eðlilegt væri að tekjur ríkisins af veiðigjaldi rynnu að hluta til byggðarlaga og tekur 1. minni hluti undir að skoða þurfi hvernig best verði staðið að því.
    Við meðferð málsins í nefndinni komu fram upplýsingar um að tekjur þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem taka þátt í nýtingu aflamarks Byggðastofnunar lækkuðu verulega milli áranna 2016 og 2017. Samræmist þetta tölum Hagstofu Íslands um að útflutningsverðmæti sjávarafurða á sama tímabili hafi lækkað um ríflega 15%.
    Undirritaður bendir á að hann er fyrsti flutningsmaður þingmála sem tengjast efni frumvarpsins. Annars vegar er um að ræða ályktun um skilgreiningu auðlinda (55. mál) og hins vegar ályktun um auðlindir og auðlindagjöld (35. mál). Sjávarútvegur er síður en svo eina atvinnugreinin sem nýtir auðlindir landsins en er hins vegar eina atvinnugreinin sem greiðir fyrir það sérstakan skatt. Það er því réttlætis- og sanngirnismál að mótuð verði almenn stefna um auðlindir og um hvernig gjaldtöku fyrir nýtingu þeirra skuli háttað. Það að ein atvinnugrein sæti sérstakri skattheimtu fyrir auðlindanýtingu er dæmi um mismunun milli atvinnugreina sem auðvelt ætti að vera að leiðrétta. Sú aðferðafræði sem notuð er við útreikning veiðigjalds (auðlindagjalds) er flókin og ósanngjörn gagnvart þeim sem hún beinist gegn. Ef það er ákvörðun ríkisvaldsins að greiða eigi fyrir afnot af auðlindum er betra að nota einfaldari og gegnsærri aðferðir við útreikninga, t.d. að leggja álag á skattgreiðslur sem fyrirtæki inna af hendi nú þegar.
    Fyrsti minni hluti telur þau veiðigjöld sem mælt er fyrir um í frumvarpinu ekki hófleg og telur mun frekar að frumvarpið tryggi ofurskattlagningu í sessi.

Alþingi, 22. nóvember 2018.

Sigurður Páll Jónsson.