Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 515  —  318. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um rafræna skráningu á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun.


     1.      Hver hefur árangur verið af því að taka upp samræmda skráningu á lyfjagjöf vegna sjúkdóma hjá Matvælastofnun samkvæmt reglugerð nr. 303/2012, um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun?
    Tilgangur reglugerðar nr. 303/2012, um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun, er að stuðla að bættu eftirliti með heilsufari dýra og heilnæmi afurða og leggja grunn að auknum forvörnum gegn sjúkdómum í dýrum. Eftir að tekin var upp rafræn skráning á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun dýra hefur fengist yfirsýn yfir sjúkdómsgreiningar dýralækna og lyfjanotkun sem ekki var áður fyrir hendi þegar skráning var aðeins á pappír í bókhaldi bænda.

     2.      Hefur, með því að auka skráningu og eftirlit, tekist að lækka tíðni framleiðslusjúkdóma í nautgriparækt á borð við júgurbólgu og doða? Svar óskast um hlutfall kúa sem fá sjúkdómana og sundurliðað eftir árum frá upptöku skráningar.
    Þegar skráning hófst var ekki gert ráð fyrir því að skráningin ein og sér hefði í för með sér þau áhrif að tíðni sjúkdóma myndi lækka. Þegar skoðaðir eru fimm flokkar framleiðslusjúkdóma í nautgriparækt, doði, súrdoði, júgur- og spenasjúkdómar, fitulifur og frjósemisvandamál, má sjá að hlutfall þeirra hefur haldist nokkuð svipað frá upphafi skráningar.

Ár 2018 1 2017 2016 2015 2014 2013 2012 2011
Hlutfall 75% 74% 72% 73% 75% 80% 83% 82%

     3.      Hver hefur kostnaður Matvælastofnunar verið við að þróa skráningarkerfið og hver er rekstrarkostnaður á ári miðað við fast verðlag ársins 2018?
    Þróunarkostnaður við kerfið var annars vegar 4,2 millj. kr. með virðisaukaskatti árið 2009 við uppbyggingu á kerfinu og 4,1 millj. kr. með virðisaukaskatti við þróun á því eftir það. Rekstrarkostnaður á ári er um 38.000 kr. miðað við árið 2018.

1    Miðað við skráningu það sem af er árinu 2018.