Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 524  —  144. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um veiðigjald.

Frá Loga Einarssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur
og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.

     Varatillaga (sbr. tillögu til rökstuddrar dagskrár á þskj. 523):
     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Veiðigjald er greiðsla fyrir tímabundin afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind landsmanna. Veiðigjaldið á að tryggja þjóðinni hlutdeild í arðsemi nýtingar á hverjum tíma. Veiðigjald skal standa undir kostnaði við stjórn og eftirlit með fiskveiðum og jafna stöðu byggða vegna breytinga á atvinnuháttum.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Aflahlutdeild skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skal gera tímabundna með þeim hætti sem greinir í 2. mgr.
                  Frá og með 1. janúar 2019 skal Fiskistofa skipta aflahlutdeild handhafa í hverri og einni tegund í tuttugu jafna tímabundna hluta. Skal fyrsti hlutinn gilda í eitt ár, annar hlutinn í tvö ár og svo koll af kolli. Frá og með 1. janúar 2020 skal árlega endurúthluta til tuttugu ára þeim 5% aflahlutdeildar í hverri tegund sem þá er laus og ótímabundin.
     3.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Tekjur af veiðigjaldi skulu renna í ríkissjóð til þess að standa undir kostnaði við stjórn og eftirlit með fiskveiðum samkvæmt heimild í fjárlögum hvers árs. Það fé sem er umfram skal renna í Uppbyggingarsjóð landshlutanna.
     4.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Sá ráðherra sem fer með byggðamál skal fyrir 1. apríl 2019 leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um Uppbyggingarsjóð landshlutanna sem hefur það hlutverk að efla atvinnustarfsemi og innviði í hverjum landshluta. Frumvarpið skal undirbúa í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sjóðinn skal fjármagna með tekjum skv. 10. gr. laga þessara. Í frumvarpinu skal m.a. kveða á um stjórn og starfshætti sjóðsins og úthlutun úr honum.