Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 526  —  395. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um að fordæma viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu.


Flm.: Álfheiður Eymarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fordæma viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu, þar á meðal handtökur á katalónskum stjórnmálamönnum.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að fordæma viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu sem fór fram í Katalóníu 1. október 2017 um sjálfstæði héraðsins.
    Hinn 6. september 2017 samþykkti héraðsþing Katalóníu löggjöf sem heimilaði atkvæðagreiðslu um sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu gagnvart Spáni. Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti löggjöfina 7. september. Atkvæðagreiðslan fór engu að síður fram 1. október 2017, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir spænskra stjórnvalda, oft ofbeldisfullar, til að koma í veg fyrir framkvæmd hennar. Niðurstaðan varð þó skýr því að 92,01% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við spurningunni sem lögð var fyrir kjósendur: „Vilt þú að Katalónía verði sjálfstætt ríki með lýðveldisstjórnarfari?“ Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsstjórnarinnar 8. nóvember 2017 á grundvelli þess að hún hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins og væri því marklaus.
    Frá því að atkvæðagreiðslan fór fram hafa verið gefnar út handtökuskipanir á hendur fjölmörgum stjórnmálamönnum í Katalóníu og hafa að minnsta kosti níu þeirra setið í fangelsi á Spáni mánuðum saman án þess að þeir hafi verið ákærðir. Meðal þeirra er fyrrverandi forseti katalónska þingsins. Enn fleiri eru í útlegð og eiga á hættu að verða handteknir ef þeir snúa til síns heima.
    Þingsályktun þessi er ekki stuðningsyfirlýsing við málstað sjálfstæðissinna í Katalóníu, heldur alvarleg áminning til spænskra stjórnvalda um að tryggja rétt manna til að bjóða sig fram til starfa í þágu kjósenda án þess að eiga á hættu að verða sviptir frelsi sínu.