Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 527  —  262. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um aðgerðir í loftslagsmálum.


     1.      Hver hefur verið árleg framræsla og endurheimt votlendis á árunum 2013–2017 mælt í rúmmetrum og hver eru áhrif þessara aðgerða á losun gróðurhúsalofttegunda? Hver hefur verið uppgröftur úr skurðum og mokstur ofan í skurði á sama tímabili mælt í rúmmetrum? Hver eru samanlögð áhrif þessara tveggja þátta á losun gróðurhúsalofttegunda?
    Lagt er mat á framræslu votlendis í árlegri skýrslu Íslands til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (National Inventory Report), sem finna má á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Samkvæmt skýrslunni var flatarmál votlendis, sem umbreytt var í akurlendi, metið 140 ha á ári, árin 2013 til 2017. Losunarstuðull sem notaður er til þess að reikna losun vegna þessa er 31,3 t CO2-ígildi/ha/ári. Flatarmál votlendis, sem breytt var í graslendi, var metið 580 ha, 680 ha, 140 ha og 1.460 ha fyrir árin 2016, 2015, 2014 og 2013. Losunarstuðull vegna þessarar breytingar á landnotkun er 23 t CO2-ígildi/ha/ári. Landgræðsla ríkisins stóð að endurheimt um 100 ha mýrlendis samanlagt árin 2016–2017. Ekki liggja fyrir upplýsingar um rúmmetra jarðvegs sem grafinn hefur verið upp úr skurðum vegna framræslu eða mokaður í skurði vegna endurheimtar á þessu tímabili.

     2.      Hve mikil er losun gróðurhúsalofttegunda á hvern hektara, annars vegar þar sem grafinn hefur verið framræsluskurður og hins vegar þar sem um ósnortið mýrlendi er að ræða?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. eru losunarstuðlar vegna votlendis sem breytt er í akurlendi og graslendi 31,3 t CO2-ígildi/ha/ári og 23 t CO2-ígildi/ha/ári. Varðandi kolefnisbúskap ósnerts mýrlendis þá verður binding CO2 vegna uppsöfnunar kolefnis, en losun vegna útstreymis metangass og útskolunar kolefnis. Samantekið er nettólosun frá mýrlendi sem nemur 2,8 t CO2-ígildi/ha/ári. Þetta þýðir að þegar mýrlendi er breytt í akurlendi eykst losunin um 31,3 – 2,8 = 28,5 t CO2-ígildi/ha/ári. Þegar mýrlendi er breytt í graslendi eykst losunin um 23 – 2,8 = 20,2 t CO2-ígildi/ha/ári.

     3.      Hvað gerir fjármálaáætlun ráð fyrir mikilli endurheimt votlendis? Hversu mikið eykst binding gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra aðgerða sem ráðgerðar eru í fjármálaáætlun?
    Í fjármálaáætlun kemur fram útgjaldarammi á málefnasviði umhverfismála, en framlög til einstakra verkefna eru ekki útfærð. Sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu viðamikla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 10. september síðastliðinn. Ein megináhersla í áætluninni er kolefnisbinding, þar sem ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt. Um 4 milljörðum kr. verður varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Nú er í gangi vinna við að útfæra verkefni á grundvelli aukinna framlaga. Ekki er hægt að tiltaka nákvæmlega á þessu stigi hversu mikið kolefnisbinding eykst eða losun minnkar en unnið er að því að greina það.

     4.      Hversu nákvæm er skráning sveitarfélaga á framræslu votlendis og mokstri ofan í eldri skurði? Telur ráðherra mega treysta skráningunni þannig að hana sé unnt að nota í bókhaldi um bindingu gróðurhúsalofttegunda? Óskað er rökstudds svars.
    Ekki hafa legið fyrir tölur hjá sveitarfélögum um framræslu votlendis og því ekki unnt að nota slíkar upplýsingar vegna bókhalds um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Bókhaldið hefur byggst á mati Landbúnaðarháskóla Íslands. Landbúnaðarháskólinn og Landgræðsla ríkisins hafa hins vegar haldið utan um skráningu og kortlagningu endurheimtar votlendis. Að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vinnur Landbúnaðarháskólinn nú að bættu mati á umfangi framræslu undanfarinna ára með kortlagningu á skurðaþekju út frá loftmyndum.

     5.      Hve miklar árlegar heimildir hefur Ísland haft á grundvelli alþjóðlegra samninga um loftslagsmál til að auka kolefnisjöfnun fyrir tilstilli skógræktar? Hve stór hluti þessara heimilda er nýttur? Til hversu margra hektara lands af ræktuðum skógi svara þessar heimildir? Hvernig ber tölum um þessi efni saman við áform um skógrækt eins og þau liggja fyrir í gildandi fjármálaáætlun?
    Ekki hafa verið takmarkanir á að nýta bindingu með skógrækt til þess að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum og hefur Íslandi ekki verið úthlutað heimildum vegna hennar. Nettóbinding vegna skóga og skógræktar var 324.000 tonn CO2-ígildi árið 2016, eins og kemur fram í síðustu skýrslu Íslands, sem skilað er árlega til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Flatarmál skóga árið 2016 var áætlað 139.000 hektarar, þar af var náttúrlegur birkiskógur 97.000 hektarar og ræktaður skógur 42.000 hektarar. Samkvæmt reglugerð ESB um landnotkun og skógrækt, sem líklegt er að Ísland taki upp og gildi frá og með 2021, getur Ísland einnig talið árangur af skógrækt sér til tekna á tvennan hátt: 1) á móti neikvæðum aðgerðum í landnotkun (svo sem framræslu votlendis) og 2) á móti losun í öðrum geirum, en þar er þó sett þak á hversu mikið er hægt að telja fram. Það þak nemur að líkindum um 1/ 2% af losun Íslands (að frátekinni skógrækt og landgræðslu). Í fjármálaáætlun kemur fram útgjaldarammi á málefnasviði umhverfismála, en framlög til einstakra verkefna eru ekki útfærð. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kynnt var 10. september síðastliðinn er kolefnisbinding ein megináhersla, þar sem ráðist verður m.a. í umfangsmikið átak við nýskógrækt og endurheimt birkiskóga og kjarrlendis. Unnið er að útfærslu á þessu átaki með hlutaðeigandi aðilum, þar á meðal hversu miklu það getur skilað í kolefnisbindingu.