Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 531  —  259. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um fyrirhugaða þjóðgarðastofnun.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Kæmi til greina að mati ráðherra að fyrirhuguð þjóðgarðastofnun hefði höfuðstöðvar á landsbyggðinni og ef svo er, hvaða forsendur mundi ráðherra leggja til grundvallar slíkri ákvörðun?

    Um þessar mundir eru verkefni fyrirhugaðrar stofnunar á hendi þriggja stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins: Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Umhverfisstofnun starfar á tíu stöðum á landinu, Vatnajökulsþjóðgarður á átta stöðum og þjóðgarðurinn á Þingvöllum á tveimur stöðum. Þá er eini starfsmaður Breiðafjarðarnefndar (í hlutastarfi) staðsettur í Stykkishólmi. Meginþunginn í vinnu allra þessara stofnana vegna fjölbreyttra verkefna í náttúruvernd er utan höfuðborgarsvæðisins og sem dæmi má nefna að um 30 starfsmenn þjóðgarðsins á Þingvöllum sinna starfi sínu innan garðsins sjálfs en aðeins tveir á skrifstofu hans í Reykjavík. Eðli starfsemi nýrrar stofnunar – sem hefur verið nefnd þjóðgarðastofnun og færi með málefni náttúruverndar, þ.m.t. friðlýsingar og rekstur og umsjón friðlýstra svæða – fæli því í sér að stærstur hluti starfseminnar yrði á landsbyggðinni.
    Þau atriði sem ráðherra telur brýnt að horfa til þegar tekin verður ákvörðun um starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru tengsl stjórnenda og lykilstarfsfólks við stjórnsýsluna, mikilvægi þess að geta haldið uppi öflugu samráði við hagaðila um allt land og samlegð með annarri skyldri starfsemi. Tengsl og aðgengi stofnunar að stjórnsýslu, svo sem ráðuneytum og öðrum stofnunum, þarf að vera gott. Að miklu leyti má viðhalda slíkum tengslum á rafrænan hátt en ekki má gera lítið úr mikilvægi beinna samskipta. Stór þáttur í vinnu þess starfsfólks sem vinnur að verkefnum í náttúruvernd er að vera í virku samráði við marga hagaðila. Þeir eru staðsettir um land allt. Því eru sterk rök fyrir því að á hverju starfssvæði stofnunarinnar eða í hverjum landshluta þurfi að vera nokkuð öflug starfsstöð með getu til þess að sinna slíkum samtölum ásamt annarri þjónustu, t.d. hluta af miðlægri þjónustu stofnunarinnar. Fjölmörg dæmi sýna fram á gildi þess að til verði klasar þar sem ýmsir aðilar geti starfað hlið við hlið. Þetta geta verið aðilar í skyldum viðfangsefnum, svo sem starfsfólk annarra fagstofnana, en einnig getur verið hagur í öðru nábýli. Almennt eru íslenskar stofnanir litlar og fáir starfsmenn á hverri starfsstöð. Það eitt og sér er áskorun og því vænlegt að ná fram samlegð í rekstri lítilla, dreifðra stofnana í einhvers konar klasa. Öflugar starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru því mikilvægur grundvöllur náttúruverndar.