Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 534  —  397. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppgræðslu lands og ræktun túna.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra, að gera tillögur að breytingu á lögum og/eða reglugerðum sem miði að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki sem fóður. Ráðherra greini Alþingi frá tillögum sínum eigi síðar en 1. apríl 2019.

Greinargerð.

    Jarðvegur er dýrmæt auðlind. Hann er er undirstaða fæðuframleiðslu jarðarbúa og mikilvægur í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Landgræðsla er eitt af forgangsmálunum í loftslagsstefnu Íslands. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 20180–2030 segir: „Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“ Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.
    Eyðing gróðurs og jarðvegs hefur um langa hríð verið eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi. Síðastliðin ár hefur Landgræðsla ríkisins unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá Landgræðslunni heim í héruð. Samvinnuverkefnið „Bændur græða landið“ er dæmi um slíkt framtak. Verkefnið hófst árið 1990 og eru þátttakendur þess um 600 talsins. Verkefninu er ætlað að styrkja bændur og landeigendur um land allt til landgræðslu á jörðum sínum, stöðva rof og auka möguleika á sjálfbærri nýtingu í framtíðinni. Víða hefur náðst góður árangur. Margir þátttakendur hafa bætt lönd sín, breytt ógrónu landi í nothæft beitiland og aukið þannig arðsemi þess. Miklu varðar að halda áfram að vinna markvisst að uppgræðslu lands enda er gott ræktunarland á heimsvísu af skornum skammti. Ræktunarland hérlendis er takmarkað og því mikilvægt að finna leiðir til að varðveita það til framtíðar. Í því sambandi er mikilvægt að skapa jákvæða hvata til að viðhalda ræktun í túnum sem annars færu í órækt með tilheyrandi verðmætatapi og skertum möguleikum í framtíðinni á að nýta þau til fóðurframleiðslu. Einnig er mikilvægt að bændur nýti heyfyrningar í verkefnið og þar með verði stuðlað að skynsamlegri nýtingu á lífrænu efni, í stað þess að það grotni niður heima á búunum.
    Sauðfjárbændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Dæmi um þetta er metnaðarfull aðgerðaáætlun Landssamtaka sauðfjárbænda sem kom út í október 2017. Þar kemur fram að íslensk sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027 en liður í þeirri áætlun er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Tilgangur verkefnisins er þríþættur: „Í fyrsta lagi getur það hjálpað til við markaðssetningu afurðanna að þær séu vottaðar kolefnishlutlausar. Í öðru lagi vilja bændur sýna samfélagslega ábyrgð í verki með kolefnisjöfnun sauðfjárræktarinnar. Í þriðja lagi er þetta leið til að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri á landsbyggðinni og betri rekstur búa.“
    Uppgræðsla lands og nýting túna samræmist markmiðum stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Þar er áhersla m.a. lögð á sjálfbæra þróun byggða og fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að vinna að endurheimt votlendis og bindingu í jarðvegi. Flutningsmenn telja mikilvægt að treysta þann hvata sem bændur hafa til uppgræðslu lands og að skapa jákvæða hvata til að viðhalda ræktun í túnum. Telja flutningsmenn í þessu skyni rétt að ráðherrar þeirra málaflokka sem varða landbúnað og umhverfismál kanni hvaða breytingar nauðsynlegt er að gera á lögum og regluverki til að styrkja framangreinda hvata og geri í kjölfarið tillögu að breytingum með þetta að markmiði. Eðlilegt er að verkefnið verði unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins sem kortleggi hvaða svæði henti best í landgræðslu af þessu tagi.