Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 543  —  148. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Maríönnu Evu Ragnarsdóttur um nám í dýralækningum.


     1.      Hafa verið kannaðir möguleikar á því að stofna til náms í dýralækningum hér á landi í ljósi þess að erfitt hefur reynst að manna stöður með íslenskumælandi dýralæknum?
    Vinnuhópur var að störfum árið 2016 sem í sátu fulltrúar Háskóla Íslands, Tilraunastofu Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Landbúnaðarháskóla Íslands og Dýralæknafélags Íslands. Hópurinn kannaði möguleika á fornámi til BS-prófs í dýraheilbrigðisvísindum sem fengist metið sem fyrri hluti dýralæknanáms við erlenda háskóla. Lét vinnuhópurinn m.a. vinna kennsluáætlun að slíku námi sem nýtti fyrirliggjandi námskeið við Háskóla Íslands, að Keldum og við Landbúnaðarháskóla Íslands sem nemur 70% námsins, en aðrar námseiningar yrðu nýjar og sértækar.

     2.      Ef svo er, hefur verið kannað hver kostnaður við slíkt nám mundi verða?
    Í drögum frá sama vinnuhópi kemur fram hugmynd að fornámi sem lyki með BS-gráðu í dýraheilbrigðisnámi. Í drögum að kennsluáætlun er gert ráð fyrir að nýta 70% af núverandi námskeiðum, kenndum við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og að Keldum, og að 30% námseininganna yrðu sérstök ný námskeið sem stofnað yrði til vegna námsins. Með slíku fyrirkomulagi er áætlaður viðbótarkostnaður við slíkt fyrrihlutanám 25 millj. kr. samtals á ári miðað við tíu nemendur, en veruleg samlegðaráhrif eru af slíku námsskipulagi. Samhliða námsframboði þyrfti að efla rannsóknir hér á landi á sviði dýraheilbrigðisfræða, ekki er vitað til að kostnaður vegna þess hafi verið metinn sérstaklega.

     3.      Hvaða staðsetning kæmi til greina fyrir nám í dýralækningum?
    Ef af slíku námi yrði mundu einstakir áfangar námsins verða kenndir við háskóla sem hafa námsframboð sem tengist skipulagi námsins. Staðsetning eiginlegrar miðstöðvar námsins yrði ákveðin samhliða annarri vinnu sem tengist þessum hugmyndum um nám í dýralækningum.

     4.      Ef ekki er talið mögulegt að bjóða upp á fullt nám í dýralækningum, kæmi til greina að bjóða upp á hluta af slíku námi hér á landinu? Ef ekki, hvers vegna?
    Háskólar á Íslandi eru sjálfstæðar menntastofnanir samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/2006, sem ákveða námsframboð sitt innan þeirra fræðasviða og undirflokka þeirra sem viðurkenning þeirra er bundin við. Háskólar ákveða einnig fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats skv. 7. gr. þeirra sömu laga. Enginn háskóli á Íslandi hefur viðurkenningu til að bjóða upp á nám í dýralæknisfræðum eins og sakir standa.