Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 553  —  412. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, með síðari breytingum (starfstími).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    9. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, III, svohljóðandi:
    Stofnunina skal leggja niður þegar verkefnum hennar er lokið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í lögum um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, sem sett voru eftir hrun fjármálakerfisins var mælt fyrir um stofnun og niðurlagningu Bankasýslu ríkisins. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að stofnunin skuli hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum eftir að hún er sett á fót og samkvæmt greininni „verður hún þá lögð niður“.
    Í greinargerð með þessu ákvæði laganna segir eftirfarandi: „Aðstæður þær sem nú eru uppi kalla á að sérstök stofnun verði sett á fót eins og lagt er til í frumvarpinu. Ekki er ætlunin að þetta fyrirkomulag verði til frambúðar heldur ráðgert að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefst og að eignarráð og eftirlit með eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, sem hugsanlega verða áfram á hendi ríkisins eftir þessi tímamörk, verði með hefðbundnum hætti. Til þess að leggja áherslu á þetta sjónarmið er í greininni lagt til að stofnunin verði lögð niður eigi síðar en að fimm árum liðnum.“
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður þegar endurreisn fjármálakerfisins sé lokið. Þótt liðin séu nærri tíu ár frá því að lögin um Bankasýslu ríkisins voru sett liggur fyrir að enn er stór hluti fjármálakerfisins í höndum ríkisins og í umsjón Bankasýslunnar. Þannig hefur stofnunin nú með höndum umsýslu með öllum eignarhlutum í Íslandsbanka og 98,2% eignarhluta ríkisins í Landsbankanum, auk 49,5% stofnfjár Sparisjóðs Austurlands hf.
    Bankasýslunni voru ekki aðeins falin tiltekin verkefni með lögum nr. 88/2009. Með lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012, var henni jafnframt falið veigamikið hlutverk. Samkvæmt þeim hefur stofnunin frumkvæðishlutverk við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Henni ber að undirbúa og annast sölumeðferðina fyrir hönd ríkisins, leita tilboða í eignarhluti, meta tilboð og hafa umsjón með samningaviðræðum við ráðgjafa og kaupendur auk þess að annast samningsgerð. Verkefnum stofnunarinnar er ekki lokið og því ekki grundvöllur fyrir niðurlagningu hennar enn um sinn.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Áður en umræddur fimm ára tímafrestur 9. gr. laganna rann út var sett af stað lögfræðileg skoðun innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins á því hvaða þýðingu umrætt ákvæði hefði fyrir starfsemi stofnunarinnar að honum loknum, að óbreyttum lögum. Niðurstaðan var að ekki yrði ótvírætt ráðið af lagagreininni að starfsemi Bankasýslunnar legðist sjálfkrafa af að liðnum fimm árum frá því að stofnunin tók til starfa. Til þess hefði orðalag ákvæðisins þurft að vera skýrara um að stofnunin skyldi hætta störfum og verkefni hennar þar með flytjast til ráðuneytisins eða eftir atvikum annars aðila. Ákvæði greinarinnar bæri frekar með sér að vera nokkurs konar pólitísk markmiðssetning um að umrædd stofnun yrði sett á laggirnar tímabundið en ætti ekki að vera til framtíðar. Henni bæri að vinna hratt og vel að þeim verkefnum sem henni væru falin og stjórnvöld og löggjafarvaldið skyldu á þessum tíma vinna að því að gera það mögulegt að leggja stofnunina niður þegar meginverkefnum hennar væri lokið. Á þessum tíma lá ljóst fyrir að eignarhlutir í stærstu fjármálafyrirtækjunum voru enn í eigu ríkisins og að ekki næðist að ljúka meginverkefnum stofnunarinnar fyrir umræddan tímafrest.
    Með hliðsjón af því að stofnunin hefur ekki lokið störfum eins og kveðið er á um í 9. gr. laganna, sbr. einnig ný verkefni sem henni voru falin með lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012, var það niðurstaða ráðuneytisins að stofnunina þyrfti að leggja niður með sérstökum lögum. Um leið myndi öðru stjórnvaldi, eða stjórnvöldum, verða falin lögbundin verkefni hennar.
    Þótt ekki leiki vafi á því hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að stofnunin hafi traustan lagagrundvöll, þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna, er óheppilegt að ákvæðið standi óbreytt. Þetta á sérstaklega við þegar hlutverk stofnunarinnar er skoðað í tengslum við fyrirhugaða sölu á eignarhlutum ríkisins. Mikilvægt er að túlkun á ákvæðinu eða lagagrundvöllur stofnunarinnar sé engum vafa undirorpinn þegar kemur að ráðstöfun á hlutum ríkisins í slíkum félögum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Svo ekki leiki vafi á að Bankasýsla ríkisins eigi að starfa áfram þar til verkefnum hennar er lokið er lagt til í frumvarpinu að 9. gr. laganna verði felld brott. Í stað hennar verði bætt við ákvæði til bráðabirgða um að leggja skuli stofnunina niður þegar verkefnum hennar er lokið. Ekki liggur fyrir hvenær það verður en stjórnvöld munu þurfa að leggja stofnunina formlega niður með lögum þegar að því kemur. Verði hlutverki Bankasýslunnar við sölu eða umsýslu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum breytt í framtíðinni verður það jafnframt að gerast með lögum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í samráði við Bankasýslu ríkisins.

6. Mat á áhrifum.
    Hér er um lagatæknilegt úrlausnaratriði að ræða til að skýra niðurlagningarákvæði laganna. Ekki er gert ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi sérstök áhrif enda er þar mælt fyrir um óbreytt ástand.