Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 563  —  335. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur og Aðalstein Sigurðsson frá Öryrkjabandalagi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Öryrkjabandalaginu og Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Með frumvarpinu er lagt til að uppbætur á lífeyri skv. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og uppbætur vegna reksturs bifreiðar skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga verði undanþegnar skatti og leiði ekki til skerðingar á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við gerð þess hafi m.a. verið haft samráð við velferðarráðuneytið og ríkisskattstjóra.
    Sambærilegt mál kom til kasta nefndarinnar á 148. löggjafarþingi (108. mál). Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um það ákvað Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp sama efnis, sbr. þingsályktun nr. 28/148, þar sem ekki þótti fyllilega ljóst hver jaðaráhrif af breytingunni kynnu að verða. Var ráðherra falið að ganga frá þeim þáttum, m.a. svo tryggt væri að uppbæturnar sem um ræddi leiddu ekki til skerðingar á tekjum þeirra sem þær þæðu og yrðu þar með í reynd marklausar. Að mati nefndarinnar eru þessi atriði tryggð með fyrirliggjandi frumvarpi.
    Í þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist um málið er framlagningu frumvarpsins fagnað og hvatt til samþykkis þess enda muni það bæta stöðu lífeyrisþega sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma. Nefndin telur ljóst að skattlagning bóta af því tagi sem hér um ræðir samræmist ekki þeim tilgangi sem stefnt er að með bótunum enda um að ræða uppbætur sem fyrst og fremst eiga að stuðla að möguleika bótaþega á þátttöku í samfélaginu. Nefndin telur að um sanngirnismál sé að ræða sem miklu máli getur skipt fyrir þá sem í hlut eiga. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 30. nóvember 2018.


Óli Björn Kárason,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Þorsteinn Víglundsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Bryndís Haraldsdóttir. Smári McCarthy.
Oddný G. Harðardóttir. Þórunn Egilsdóttir.