Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 564  —  3. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Hallgrímsson, Steinar Örn Steinarsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Matthildi Magnúsdóttur frá ríkisskattstjóra, Bergþóru Halldórsdóttur og Ásdísi Kristjánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Gunnar Val Sveinsson, Þorstein Þorgeirsson, Bergþór Karlsson og Guðmund Sigurðsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Sigríði Ingólfsdóttur og Sigurjón Unnar Sveinsson frá Öryrkjabandalagi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Forum lögmönnum f.h. DISTA ehf., Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Bílgreinasambandinu, Seðlabanka Íslands, tollstjóra og Viðskiptaráði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem hafa áhrif á tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs. Meðal aðgerða eru hækkun kolefnisgjalds um 10% sem áætlað er að skili 550 millj. kr. tekjuaukningu og 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra sem skilar 64 millj. kr. Mestum tekjuauka skilar 2,5% hækkun krónutöluskatta og gjaldskráa í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, þ.e. hækkun á olíugjaldi, almennu og sérstöku bensíngjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, bifreiðagjaldi og gjaldi af áfengi og tóbaki, sem gert er ráð fyrir að skili 1,6 milljarða kr. tekjuauka á komandi ári. Samanlagður tekjuauki af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er áætlaður 2,3 milljarðar kr.
    Á meðal atriða í frumvarpinu sem lúta að gjaldahlið ríkissjóðs er framlenging á gildistíma 14. tölul. bráðabirgðaákvæðis laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sem kveður á um að frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna skuli vera 1.315.200 kr. Ákvæðið hefði að óbreyttu fallið niður um komandi áramót og frítekjumarkið lækkað niður í 300.000 kr. og leitt til bótaskerðingar hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum með atvinnutekjur yfir mörkunum. Að óbreyttu hefðu útgjöld ríkisins lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2019 vegna þessa.

Eftirlitsgjald.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að eftirlitsgjald sem lífeyrissjóðir greiða til Fjármálaeftirlitsins lækki úr 0,0091% í 0,0084% af hreinni eign lífeyrissjóðanna í árslok. Eftirlitsgjaldið skiptist í tvennt, annars vegar fast gjald og hins vegar breytilegt. Þrátt fyrir lækkun á hlutfalli álagðs eftirlitsgjalds er ljóst að gjöld lífeyrissjóðanna hækka þar sem hrein eign þeirra hefur aukist.
    Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er bent á að endurskoða þurfi samsetningu breytilega hluta og fasta hluta eftirlitsgjaldsins til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlits með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og beinir því til ráðuneytisins að slík endurskoðun fari fram.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins til nefndarinnar er lagt til að sú breyting verði á eftirlitsgjaldi Náttúruhamfaratryggingar Íslands að stofnunin greiði fastagjald sem miðist við lágmarkseftirlitsgjald vátryggingafélaga samkvæmt lögunum. Sé það til samræmis við sjónarmið um að eftirlitsgjaldið samsvari sem best raunkostnaði við eftirlitið. Meiri hlutinn tekur í sama streng og gerir breytingartillögu í þessa veru.

Frádráttur vaxtatekna.
    Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp sem varð að lögum nr. 96/2017 (3. mál á 148. löggjafarþingi) var bent á að í 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt nr. 90/2003 væru sett takmörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila. Skv. b-lið 3. mgr. greinarinnar á ákvæðið ekki við ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Skv. 3. gr. laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017, sbr. 2. tölul. 26. gr. sömu laga, átti sú undanþága að falla brott 1. janúar 2018. Bent hafði verið á að brottfall undanþágunnar gæti komið niður á eðlilegri lánsfjármögnun innan samstæðu sem beinist ekki að því að takmarka skattgreiðslur.
    Í áliti meiri hluta fyrir 2. umræðu kom fram að unnið væri að breytingartillögu til að mæta fyrrgreindum sjónarmiðum varðandi brottfall b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt. Nefndinni barst breytingartillaga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þess efnis að heimilt yrði að yfirfæra vaxtagjöld og afföll sem ekki nýttust til frádráttar sökum takmörkunar 1. mgr. 57. gr. b á næstu fimm tekjuár. Að mati meiri hlutans nægði breytingartillagan ekki til að mæta fyrrgreindum sjónarmiðum þar eð takmörkun 1. mgr. 57. gr. b gæti eftir sem áður komið niður á lánsfjármögnun samstæðu ef vaxtagjöld og afföll eru að staðaldri umfram þau mörk sem þar voru tilgreind. Vegna þessa lagði meiri hlutinn til að brottfalli b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt yrði frestað um ár eða til 1. janúar 2019. Þannig gæfist tími til að móta tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó það kæmi niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur. Nefndin hefur verið upplýst um að vinna við frumvarp þar sem slík tillaga kemur fram sé á lokametrunum og hyggur meiri hlutinn að nefndin fjalli nánar um þetta atriði þegar að meðferð þess frumvarps kemur.

Aðrar breytingartillögur meiri hlutans.
    Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er ábending um að breyta ártölum í ákvæði til bráðabirgða XV í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl., nr. 129/1997, um að ekki skuli núvirða framlag lífeyrissjóða skv. 6. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðanna. Í samráði við ráðuneytið fellst meiri hlutinn á þessa ábendingu og leggur til viðeigandi breytingu á frumvarpinu.
    Með vísan til breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið (1. mál yfirstandandi þings, þskj. 447), sbr. b-lið 29. tölul. tillögunnar, leggur meiri hlutinn til breytingu á 21. gr. frumvarpsins til samræmis.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.

Alþingi, 30. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Þórunn Egilsdóttir.