Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 581  —  3. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti telur frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019 ekki ganga nógu langt í átt að nauðsynlegum úrbótum á skatta- og gjaldaumhverfi samfélagsins. Sums staðar er jafnvel gengið til baka frá því sem áður hefur verið.
    Gagnrýni 1. minni hluta beinist helst að nokkrum afmörkuðum þáttum sem verða raktir hér á eftir en tvö þemu einkenna frumvarpið, annars vegar áframhald bráðabirgðaákvæða sem draga úr getu samfélagsins til að gera langtímaáætlanir og hins vegar skortur á að stigin séu nauðsynleg skref til að ná langtímamarkmiðum.
    Þessi vandamál leiða af sér ástand sem ætla má að vari út árið 2019 verði frumvarpið samþykkt. Möguleikarnir á því að takast á við öldrun þjóðarinnar og loftslagsvá skerðast samhliða því sem undirbúningur fyrir vænta kulnun í hagkerfinu er svo gott sem enginn.

Víxlverkan og frítekjumark.
    Í frumvarpinu er lagt til að framlengt verði ákvæði til bráðabirgða til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris hefjist að nýju. Einnig er lögð til framlenging bráðabirgðaákvæða um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. 1. minni hluti telur að framlenging bráðabirgðaákvæða sem varða lífsviðurværi viðkvæmra hópa í samfélaginu séu til þess fallin að ýta undir óöryggi og hvetur stjórnvöld til að bæta kjör lífeyrisþega svo mannsæmandi sé fremur en að framlengja ákvæði til bráðabirgða ár eftir ár.

Framkvæmdasjóður aldraðra.
    Framkvæmdasjóði aldraðra er samkvæmt lögum ætlað að tryggja að fjármunum sé varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða. Með bráðabirgðaákvæði VII í lögum um málefni aldraðra er Framkvæmdasjóði aldraðra gefin heimild til þess að „verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða“. Bráðabirgðaákvæðið var tekið upp í lögin árið 2010 og gilti fyrst fyrir fjárlagaárið 2011. Ákvæðið hefur gilt til eins árs í senn og hefur verið endurnýjað á fjárlögum hvers árs síðan. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er fyrirhugað að það verði endurnýjað næstu fimm árin. Framkvæmdasjóði aldraðra er því heimilt að verja fé úr sjóðnum sem nemur 895.000.000 kr. árið 2019 verði bráðabirgðaákvæðið framlengt eins og lagt er til.
    Miðað við mannfjöldaspá Hagstofu Íslands mun öldruðum fjölga mikið á næstu 40 árum. Spáin gerir ráð fyrir rúmlega tvöföldun aldraðra á þeim tíma og verði þeir í lok hans um 90 þúsund manns. Eftir því sem öldruðum fjölgar má reikna með að fjárþörf sjóðsins aukist jafnt og því er nauðsynlegt að hætta greiðslu rekstrarkostnaðar vegna hjúkrunarheimila úr sjóðnum eigi hann að standa undir hlutverki sínu.

Hækkun á kolefnisgjaldi.
    Með hækkun kolefnisgjaldsins vill ríkisstjórnin senda skýr skilaboð til neytenda, atvinnurekenda og fjárfesta um að það skilar árangri og borgar sig að fjárfesta í tækjum og búnaði sem draga úr losun koltvísýrings. Það er gott og blessað en er sú hækkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir nóg til þess? Því þarf að svara og einnig þurfa stjórnvöld að sýna svart á hvítu hvernig þau ætla að bæta innviði þannig að mögulegt sé fyrir almenning, atvinnurekendur og fjárfesta að nota vistvænni tæki og búnað. Spurningin er einnig áleitin um hvort stjórnvöldum sé í raun alvara með aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum.
    Nýútgefin aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hefur nú fengið aukatitilinn: 1. útgáfa. Það er skiljanlegt því í áætluninni er ákaflega lítið um magnbundin og tímasett markmið um hversu mikið skuli draga úr losun og hvenær því skuli lokið. Í áætluninni segir m.a. að sölu á dísil- og bensínbílum skuli hætt árið 2030 en ekkert er sagt um hver staðan skuli vera árið 2025.
    Ef Ísland semur við Evrópusambandið um samdrátt í losun um 40% skal losun á fyrsta ári skuldbindingartímabils Parísarsamkomulagsins vera 40% minni en á árunum 2016, 2017 og 2018. Þar af leiðandi er afar brýnt að Íslendingar hætti að kaupa stóra og eyðslufreka bíla ef minnka á losun línulega frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og úrgangi um 40% og að orkuskiptin gangi greiðlega fyrir sig með öflugum innviðum sem virka. Miðað við núverandi heildarlosun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda þarf að draga úr losun koltvísýrings um rúmlega 120 þúsund tonn hvert einasta ár næstu 12 ár til að ná að mæta alþjóðaskuldbindingum Íslands. Bæði jákvæðir og neikvæðir efnahagslegir hvatar eru nauðsynlegir til að ná markmiðinu. Stjórnvöld virðast ekki átta sig nógu vel á þessu.

Starfsendurhæfingarsjóður.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir framlengingu á bráðabirgðaákvæði um að starfsendurhæfingarsjóður fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2019. VIRK starfsendurhæfingarsjóður hefur bent á að framlög til sjóðsins þurfi að hækka svo þau nemi 0,05% af áætluðum gjaldstofni tryggingagjalds fyrir árið 2018, eins og kveðið er á um í lögum nr. 60/2012 og þjónustusamningi milli velferðarráðuneytisins og VIRK. 1. minni hluti leggur áherslu á að stjórnvöld standi við gerða samninga.

Alþingi, 30. nóvember 2018.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Smári McCarthy.