Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 590  —  347. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um farsímasamband.


     1.      Hversu mörg þeirra svæða sem höfðu einungis NMT-farsímasamband þegar það kerfi var lagt niður árið 2010 hafa enn ekkert farsímasamband?
    Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur framkvæmt greiningu í landupplýsingakerfi stofnunarinnar. Greiningin fólst í því að kortleggja eftirfarandi:
     *      Áætlaða útbreiðslu NMT-farsímaþjónustu á landsvísu á þeim tíma er flestir sendar voru í rekstri.
     *      Samanlagða áætlaða útbreiðslu GSM-, 3G- og 4G-farsímaþjónustu á landsvísu núna óháð þjónustuveitanda.
    Hér er því ekki einvörðungu tekið mið af útbreiðslu þeirra fáu NMT-senda sem enn voru í rekstri rétt áður en slökkt var á kerfinu seinni hluta árs 2010 enda gæfi það villandi mynd.
    Viðmið til grundvallar myndum af áætlaðri útbreiðslu á svæðum:
     *      NMT-þjónusta utandyra árið 2005.
     *      Farsímaþjónusta utandyra núna.
    Rétt er að hafa í huga að allir notendur farsímakerfa geta á þessari stundu hringt í 112 óháð kerfi.
    Áréttað er jafnframt að um er að ræða spákort. PFS hafði ekki tækjabúnað til að gera slík spákort fyrir NMT á meðan það kerfi var í fullum rekstri. Því verður að túlka þessi kort sem bestu mögulegu spá með núverandi greiningarbúnaði út frá þeim gögnum sem nú liggja fyrir um NMT.
    Samanlagðar útbreiðsluþekjur á meðfylgjandi myndum sýna eftirfarandi:
    A.    Rauð svæði þar sem engin farsímaþjónusta er í boði.
    B.    Rauð svæði sem áður höfðu NMT-þjónustu en hafa enga farsímaþjónustu núna. (NMT náði ekki til grárra svæða).

Mynd A.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Mynd B.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Mynd B er myndræn framsetning á svarinu. Um er að ræða rauðlituð svæði um allt land. Snúið er þó að tala um fjölda svæða í þessu sambandi. Skýrara er að leggja fram tölulegar upplýsingar um hlutfall B-svæða fyrir allt landið og fyrir landshluta:
    Áætlað hlutfall B-svæða núna:
    Allt landið er 4%.
     *      Land undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,1%.
     *      Land yfir 200 m yfir sjávarmáli er 4%.
     *      Vesturland undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,16%.
     *      Vesturland yfir 200 m yfir sjávarmáli er 1%.
     *      Vestfirðir undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,7%.
     *      Vestfirðir yfir 200 m yfir sjávarmáli er 3%.
     *      Norðvesturland undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,02%.
     *      Norðvesturland yfir 200 m yfir sjávarmáli er 2%.
     *      Norðausturland undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,04%.
     *      Norðausturland yfir 200 m yfir sjávarmáli er 6%.
     *      Austurland undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,1%.
     *      Austurland yfir 200 m yfir sjávarmáli er 2%.
     *      Suðurland undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,1%.
     *      Suðurland yfir 200 m yfir sjávarmáli er 4%.
     *      Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes undir 200 m yfir sjávarmáli er 0,03%.
     *      Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes yfir 200 m yfir sjávarmáli er 0%.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þau svæði sem hafa ekki farsímasamband fái það og ef svo er, hvernig er tímasett áætlun ráðherra í þeim efnum?
    NMT 450 kerfið hafði ákveðna kosti. Kostirnir voru einkum þeir að notuð var 450 MHz fjarskiptatíðnin sem gefur kost á mikilli langdrægni. Það þýddi að hver sendir gat átt fjarskipti við notendabúnað í mikill fjarlægð. Kerfið var auk þess hliðrænt sem þýddi að fjarskiptamerkið gat betur „lekið“ með landslaginu þannig að ekki þurfti endilega sjónlínu við NMT-sendi til að geta átt samskipti yfir kerfið. Tiltölulega fáir stórir NMT-sendar náðu því að þekja mjög stóran hluta landsins og hafsvæðið í kring. Notendabúnaðurinn hafði einnig sitt að segja með öflugu loftneti, móttöku og sendistyrk, sem gaf kost á fjarskiptum við senda sem voru í mikill fjarlægð.
    Ókostir voru helst þeir að talgæðin voru frekar slæm, kerfið annaði ekki mikilli samtímaumferð, gaf ekki kost á teljandi gagnaflutningum og krafðist óhentugra og dýrra símtækja. Með tilkomu stafræna GSM-kerfisins komu allir þessir ókostir betur í ljós og viðskiptavinir fluttu sig hratt yfir í nýju tæknina eftir að útbreiðsla hennar jókst. Það voru helst svæði utan byggðar sem urðu sambandslítil eða jafnvel sambandslaus hvað farsímasamband varðar við lokun NMT 450 farsímakerfisins seinni hluta árs 2010.
    Frá þeim tíma hafa farsímafélögin byggt upp GSM-kerfi (2G) sem nær nánast til landsins alls, 3G-kerfi sem fara langt með að ná útbreiðslu GSM og nú 4G og 4,5G sem nær til sífellt fleiri landsvæða. Þessi þjónusta nær núna vel út á miðin í kringum landið og veitir þannig sjómönnum nútímafjarskiptaþjónustu við störf sín. Stjórnvöld hafa kerfisbundið einkum með aðkomu fjarskiptasjóðs og Neyðarlínunnar styrkt og stuðlað að uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Þar hefur áherslan einkum verið á þjóðvegakerfið, eldfjallasvæðin á Suðurlandi og fjölsótta ferðamannastaði um allt land.
    Nútímafarsímakerfi eru orðin hrein gagnaflutningskerfi þar sem þróunin fylgir eftirspurn eftir sífellt meiri gagnaflutningshraða. 5G-tæknin er síðan handan við hornið. Almenn útbreiðsla 5G krefst mun þéttara sendanets en hingað til þar sem hver sendir dregur nokkuð eða mjög skammt en ræður á móti við mjög mikinn gagnahraða. PFS úthlutaði tíðni á 700 MHz tíðnisviðinu fyrir 5G-þjónustu en það tíðnisvið gefur möguleika á mikilli langdrægni en hefur minni afkastagetu og því eru hærri tíðnisvið hugsuð fyrir 5G til að ná upp afkastagetu fyrir háhraðagagnaflutning. Þá má nefna að 450 MHz tíðnisviðið er laust til úthlutunar sýni rekstraraðilar því áhuga til notkunar fyrir 4G- og 5G-þjónustu til aukinnar útbreiðslu. Leiða má líkur að því að á næstu árum verði GSM-kerfið lagt niður og síðar einnig 3G-kerfið. Þá losna 800 MHz og 900 MHz tíðnisviðin sem einnig bjóða upp á langdræga þjónustu fyrir 4G- og 5G-kerfin.
    Þegar horft er til framtíðar er mikil þróun í þjónustu frá lágfljúgandi gervihnöttum sem gerbreyta á næstu fimm til tíu árum landslaginu varðandi útbreiðslu háhraðagagnaflutningsþjónustu hvar sem er á landinu þaðan sem almennt sést til himins.
    Farsímasamband er ekki hluti af skilgreindri lágmarks- eða grunnþjónustu í fjarskiptum sem ríkið tryggir einstaklingum og lögaðilum. Farsímasamband er hér aðallega veitt á markaðslegum forsendum líkt og víðast hvar í heiminum. PFS hefur ráðstafað tíðniheimildum um árabil með það að markmiði að hámarka útbreiðslu í stað þess að leggja áherslu á að hámarka tekjur ríkisins við þá ráðstöfun. Útbreiðsla er þegar mjög mikil líkt og sést á mynd A. Nánar tiltekið er aðgengi 2018 að talsambandi um farsíma á landsvísu eftirfarandi:
     *      Lögheimili 99,97%.
     *      Á vegum utan þéttbýlis 95,7%.
     *      Á vegum í yfir 200 m 90,1%.
    Í fyrirliggjandi drögum þingsályktunar að stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 er að finna eftirfarandi áherslu er varðar viðfangsefnið:
     *      Farnetssamband verði tryggt, meðal annars í þéttbýli, á þjóðvegum, fjölsóttum ferðamannastöðum og við strendur landsins.
    Í samsvarandi þingsályktun um aðgerðaáætlun í fjarskiptum fyrir árin 2019–2023 er að finna eftirfarandi verkefni sem stuðla að fyrrgreindri áherslu:
     *      Uppbyggingarþörf fastaneta og sendastaða í tengslum við 5G-innviði, einkum gagnvart samgöngum og vegna örrar tækniþróunar, verði metin.
     *      Forsendur krafna um útbreiðslu farneta endurskoðaðar í ljósi meðal annars nettengdra tækja, notkunar hárra fjarskiptatíðna og þjónustu á 5G-netum.
    Nú liggur fyrir Alþingi að fjalla um og samþykkja eftir atvikum framangreinda áherslu og verkefni. Í kjölfarið verður hugað að skipulagi og undirbúningi þessara viðfangsefna í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.
    Ljóst má vera að 100% dekkun allra landsvæða er nánast ómögulegt að ná fram með hefðbundinni farsímauppbyggingu á landi.
    Rétt er að benda á að útbreiðsla Tetra-kerfisins er mjög mikil og víða meiri en almennra farsímakerfa. Víðast ef ekki allt staðar um landið er nú hægt að ná sambandi með gervihnattarsíma.
    Hins vegar er vel hægt að meta þörf fyrir bætta farsímaútbreiðslu á tilteknu svæði sem er án þjónustu nú, sbr. mynd A. Slík skoðun er reglulega í gangi og styður ríkið uppbyggingu eftir atvikum þar sem þörfin er hvað brýnust. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld leggi áfram fé af mörkum í slík verkefni ef með þarf og þá einkum með hliðsjón af brýnum öryggissjónarmiðum.