Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 591  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjárlaganefnd fékk fjárlög aftur til afgreiðslu eftir 2. umræðu, aðallega vegna þess að ákveðið var að bíða með að afgreiða tillögur ríkisstjórnarinnar um lánveitingu til Íslandspósts. Nefndarmenn höfðu efasemdir um að réttar forsendur væru fyrir því að ríkið hlypi undir bagga með Íslandspósti, hvort sú upphæð sem lögð var til væri í raun og veru tilkomin vegna hallareksturs vegna þeirrar alþjónustu sem Íslandspóstur sinnir. Ekki fengust viðunandi svör við því hvort svo væri.
    Í áliti meiri hlutans er farið yfir þær spurningar og svör sem nefndin sendi Íslandspósti, þar var beðið um rökstuðning fyrir lánsfjárhæðinni, hvernig ætlunin væri að nýta lánið, hvernig félagið hygðist endurgreiða það, til hvaða hagræðingaraðgerða hefði verið gripið að undanförnu og hvernig stjórnin sæi fyrir sér að hægt væri að uppfylla alþjónustukvöð póstþjónustu. Einfalda svarið er, eins og kemur fram í áliti meiri hlutans, að félagið er ekki rekstrarhæft til framtíðar og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum. 2. minni hluti telur því óhjákvæmilegt að líta svo á að ekki sé um lán að ræða heldur ríkisstyrk því þó að lánið yrði endurgreitt að fullu, sem verður að teljast ólíklegt, þá kæmi sú endurgreiðsla einungis koma niður á framtíðarrekstri sem ríkið þyrfti hvort sem er að styrkja. Ekki eru gerðar neinar kröfur til Íslandspósts fyrir lánveitingunni umfram aðgerðir sem mætti telja eðlilegt að félagið sjálft gripi til.
    Í breytingartillögu meiri hlutans er að finna ánægjulega breytingartillögu um 4 millj. kr. til umboðsmanns Alþingis til þess að hann geti sinnt svokölluðum OPCAT-verkefnum. Þetta er sama breytingartillaga og 2. minni hluti lagði fram við 2. umræðu fjárlaga en sú tillaga var þá felld. Það er ánægjulegt að sjá breytingartillöguna endurunna svona þó að auðvitað hefði verið skilvirkara að samþykkja breytingartillögu 2. minni hluta við 2. umræðu.
    Annan minni hluta langar til þess að vekja athygli á breytingartillögu meiri hlutans sem var samþykkt við 2. umræðu. Þar lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að almennar ráðstafanir til að draga úr útgjaldavexti næmu 146,6 millj. kr. í málaflokki 07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum. Það hefur borist 2. minni hluta til eyrna að þessi almenna ráðstöfun verði framkvæmd þannig að fyrrgreind upphæð dragist frá fjárlagalið 02-236 Rannsóknasjóður sem hefur þegar þurft að þola 35 millj. kr. niðurskurð í frumvarpi til fjárlaga. Niðurskurður Rannsóknasjóðsins verður þá 181,6 millj. kr., eða 7,25% lækkun. Sjóðurinn fjármagnar flestar grunnrannsóknir á Íslandi og er stökkpallur fyrir vísindamenn til að afla erlendrar fjármögnunar og undirstaða nýsköpunar. Með því að fækka þeim sem fá styrk úr þessum sjóði er höggvið stórt skarð í þá möguleika sem bjóðast í framtíðinni.
    Annar minni hluti vill hins vegar brýna það fyrir ráðherra að tilmæli meiri hluta fjárlaganefndar voru „almennar ráðstafanir til þess að draga úr útgjaldavexti“, ekki sértækar ráðstafanir. Villan er auðvitað til að byrja með sú að það er enginn útgjaldavöxtur í þessum málaflokki. Liðurinn vegna rammaáætlunar ESB um menntun er reiknaður út frá landsframleiðslu þannig að það er ekki hægt að túlka þann lið sem útgjaldavöxt. Aðeins einn annar liður innan málaflokksins hækkar á milli 2018 og frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2019 og er það Framleiðnisjóður landbúnaðarins sem hækkar um 5,8 millj. kr. Það er því rangt til að byrja með að þessi málaflokkur þurfi einhvers konar aðhaldskröfu vegna útgjaldavaxtar og því síður að það aðhald lendi á einum helsta rannsóknasjóði Íslendinga. Sjóði sem ríkisstjórnin var hvort eð er að leggja til að minnka fjárframlög til upp á 35 millj. kr. áður en meiri hluti fjárlaganefndar lagði til enn frekari lækkun.
    Fjárlaganefnd fékk til sín fjölda erinda um fjármögnun á hinum og þessum verkefnum. Það sem vekur mesta furðu eru síendurtekin erindi fyrri ára sem fjárlaganefnd hefur áður komið til móts við. Þessu fyrirkomulagi verður að ljúka. Annaðhvort eiga ráðuneyti, sem þessi erindi beinast að, að taka þessi verkefni inn á samning til sín eða gefa það hreinlega út að þessi verkefni eigi ekki að fá styrk frá ríkinu. Það er gersamlega óþolandi að það þurfi alltaf að vera einhver verkefni háð miskunn fjárlaganefndar. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að ráðuneytin geti ekki tekið við þessum verkefnum án aukins fjármagns. Það þýðir að þegar fjárlaganefnd samþykkir svona fjárveitingar þá er í raun verið að láta ráðherra fá fjármagn í önnur verkefni eða sem svigrúm til þess að mæta veikleikum í framkvæmd fjárlaga.
    Að lokum þá barst eitt svar í viðbót við upplýsingabeiðni 2. minni hluta um sundurliðun nýrra eða bundinna útgjalda og það frá dómsmálaráðuneytinu sem á hrós skilið fyrir að svara, þótt það hafi verið of seint til þess að taka tillit til þess fyrir aðra umræðu. Mörg önnur ráðuneyti svöruðu ekki.

Alþingi, 5. desember 2018.

Björn Leví Gunnarsson.