Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 609  —  300. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar (framlag í lífeyrissjóði).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Sólveigu B. Gunnarsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneytinu.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Jafnréttisstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
    Markmið frumvarpsins er, líkt og nánar er rakið í greinargerð, að draga úr áhrifum á ávinnslu lífeyrisréttinda hjá þeim einstaklingum sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði og nýta rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnumissis, Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs eða ríkissjóði vegna umönnunar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða vegna líffæragjafar. Mælir frumvarpið m.a. fyrir um hækkun á mótframlagi í lífeyrissjóði fyrir þá sem hverfa af atvinnumarkaði af framangreindum orsökum, úr 8% í 11,5%.
    Í umsögnum um málið kom fram það sjónarmið að nauðsyn væri á víðtækri endurskoðun á heildarlöggjöf um iðgjald til lífeyrissjóða og á almennum lögum um lífeyrissjóði. Nefndin beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að flýta vinnu við þá endurskoðun.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 8. desember 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásmundur Friðriksson. Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðjón S. Brjánsson. Guðmundur Ingi Kristinsson.