Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 611  —  439. mál.
Frumvarp til laga


um brottfall laga um helgidagafrið.

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Lög um helgidagafrið, nr. 32/1997, falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

3. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971: 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Frídagar eru sunnudagar, aðfangadagur jóla frá kl. 13, jóladagur, annar dagur jóla, gamlársdagur frá kl. 13, nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar dagur hvítasunnu, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 145. og 148. þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er hér aftur lagt fram, uppfært með tilliti til umsagna sem áður hafa borist.

Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um helgidagafrið, nr. 32/1997, falli brott. Markmið laganna er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að t.d. bingói, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar.
    Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Samsetning íbúa hefur t.d. breyst mikið hvað varðar trúarbrögð og lífsskoðanir. Þá hefur straumur ferðamanna til landsins aukist mjög, ekki síst um jól og páska. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og Ísland er markaðssett sem áfangastaður um hátíðirnar skuli flestir veitingastaðir og búðir lokuð á heilögustu dögunum. Af þeim sökum hafa kröfur um breytingar á helgidagalöggjöfinni orðið háværari undanfarin misseri, enda miklir hagsmunir í húfi. Þannig hafa forsvarsmenn í verslun og þjónustu lýst því opinberlega yfir að þeir telji að endurskoða þurfi lög um helgidagafrið og hafa þau verið kölluð barn síns tíma. Gerð er sú krafa að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum, en þó í samráði við starfsmenn og með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga um hvíldartíma og álagsgreiðslur.
    Skoðanir þessar eru ekki einangraðar við hagsmunaaðila heldur hafa þær einnig heyrst úr röðum þjóðkirkjunnar. Bent hefur verið á að lögin taki ekki mið af samfélaginu. Eins hefur verið bent á að þjóðkirkjan stundi ekki neitt eftirlit með því hvort lögunum sé fylgt og ljóst að ekki hafi verið farið eftir þeim í hvívetna. Góð samstaða virðist vera í samfélaginu um að breyta þurfi helgidagalöggjöfinni, en flutningsmenn frumvarps þessa telja einfaldast og eðlilegast að afnema hana með öllu.
    Í ljósi fyrrnefndra breytinga á samfélaginu hvað varðar trúar og lífsskoðanir fólks og ekki síður í ljósi stóraukins ferðamannastraums til landsins telja flutningsmenn lög um helgidagafrið vera úreltan lagabókstaf og að löngu sé orðið tímabært að nútímavæða fyrirkomulagið. Tilgangur laga um helgidagafrið er að tryggja að fólk sem vill stunda helgihald á sunnudögum og helgidögum fái frið til þess. Flutningsmenn telja ástæðulaust að takmarka með lögum frelsi fólks á tilteknum dögum til þess eins að annað fólk fái þá frið til að stunda helgihald. Það hlýtur að stríða gegn því frjálsa samfélagi sem við viljum hafa í hávegum. Að auki gerir stóraukinn straumur ferðamanna það að verkum að nauðsynlegra er nú en fyrr að gera breytingar á helgidagalöggjöfinni. Frítökuréttur og hvíldartími er þegar tryggður í kjarasamningum en flutningsmenn leggja til orðalagsbreytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku til að tryggja rétt til frídaga enn frekar þannig að í stað þess að helgidagar þjóðkirkjunnar séu skilgreindir sem frídagar verði umræddir dagar taldir upp í ákvæðinu sem lögbundnir frídagar,

Umsagnir frá fyrri málsmeðferð.
    Sem fyrr greinir var frumvarp þetta áður lagt fram á 145. og 148. þingi. Við framlagningu málsins á 145. þingi bárust alls átta umsagnir um málið en á 148. þingi voru þær fimm talsins. Hér verður farið stuttlega yfir þær umsagnir sem lúta að réttindum vinnufólks og lögum um 40 stunda vinnuviku.
    Alþýðusamband Íslands taldi frumvarpið ekki hafa áhrif á kjarasamninga, en lagði þó til að sá skilningur væri tekinn fram í greinargerð frumvarpsins til þess að taka af allan vafa. Í því ljósi er hér áréttað að flutningsmenn telja frumvarpið ekki heldur hafa áhrif á kjarasamninga, enda ekki tilgangur þess að breyta neinu þar að lútandi.
    Í umsögn Bandalags háskólamanna um málið á 148. þingi segir að betur þurfi að fara yfir hvaða afleiðingar brottfall laga um helgidagafrið hefði í för með sér fyrir allt launafólk í landinu en lög um 40 stunda vinnuviku ná ekki til allra launþega í landinu. Flutningsmenn árétta að í öllum þeim tilfellum þar sem vísað er í helgidaga samkvæmt lögum um helgidagafrið stæðu þau samningsákvæði óhögguð, enda þótt frumvarpið yrði að lögum, samkvæmt gildandi lögum þegar samningurinn var gerður.
    BSRB benti á við meðferð málsins á 145. þingi að hérlendis væru um 200 kjarasamningar og að innihald þeirra væri að mörgu leyti sambærilegt. Þó gæti verið að einhverjir þeirra vísi beinlínis til laga um helgidaga í ákvæðum um frídaga. Við umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar komu fram sjónarmið um að ef ágreiningur kæmi til umfjöllunar hjá dómstólum yrði alla jafna horft til þeirra laga sem giltu við gerð kjarasamninga.
    Í umsögn frá biskupsstofu kom fram að kirkjuþing 2015 tæki undir ályktun aðalfundar Prestafélags Íslands frá 12. apríl 2016 um að lögum um helgidagafrið yrði viðhaldið en þau endurskoðuð. Lagst var gegn því að lögin yrðu afnumin, m.a. á þeim forsendum að lögin vernduðu réttindi vinnufólks. Í tilefni af þessu skal tvennt áréttað. Í fyrsta lagi að markmið frumvarpsins er ekki að draga úr réttindum vinnufólks, enda leggja flutningsmenn til breytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku því til áréttingar. Í öðru lagi taka flutningsmenn undir með röddum innan verkalýðshreyfingarinnar um að það sé ekki hlutverk löggjafans að skilgreina frídaga, heldur skuli slíkt ákveðið með kjarasamningum, enda þótt slíkum kjarasamningum sé samt sem áður veitt lagastoð.