Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 621  —  12. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (barnalífeyrir).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Ýri Böðvarsdóttur og Vilborgu Davíðsdóttur frá Ljónshjarta, Stellu Hallsdóttur frá embætti umboðsmanns barna, Öglu K. Smith og Gísla Oddsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Vigdísi Häsler frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Ljónshjarta, Öryrkjabandalagi Íslands, Ragnheiði Elínu Garðarsdóttur, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins og embætti umboðsmanns barna.
    Með frumvarpinu er Tryggingastofnun ríkisins veitt heimild til að ákveða sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Heimildin er takmörkuð við greiðslur vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þann hóp barna sem vegna sérstakra aðstæðna nýtur ekki framfærslu tveggja foreldra.
    Í skriflegum umsögnum til nefndarinnar kom fram það sjónarmið að gildissvið ákvæðisins líkt og það er afmarkað í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins væri rýmra en leiða mætti af greinargerð að væri markmið frumvarpsins. Nánar tiltekið segir í 2. mgr. 1. gr. að einungis sé heimilt að greiða sérstakt framlag skv. 1. mgr. vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með. Til að mynda væri heimilt að ákveða sérstakt framlag vegna barna örorkulífeyrisþega, ellilífeyrisþega og þeirra sem sæta gæsluvist eða afplána fangelsi, enda sé greiddur með þeim barnalífeyrir, þrátt fyrir að barn eigi tvö framfærsluskyld foreldri.
    Þá kom einnig fram gagnrýni á þá kröfu í 20. gr. laga um almannatryggingar að annað hvort foreldra barns eða barnið sjálft þyrfti að hafa búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn um barnalífeyri er lögð fram. Til samanburðar var m.a. bent á að í búsetuskilyrði laga um sjúkratryggingar er einungis gerð krafa um sex mánaða búsetu á Íslandi.
    Í greinargerð með frumvarpinu er miðað við að á Íslandi séu um 900 börn sem misst hafa foreldri, þá er tekið fram að einstæðir foreldrar geti sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barn, vegna sérstakra aðstæðna. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þennan hóp barna og einstæðra foreldra sem geta ekki sótt sérstök framlög til meðlagsskylds foreldris á grundvelli 60. gr. barnalaga. Nefndin tekur undir það sjónarmið að í núverandi mynd nær frumvarpið til rýmri hóps foreldra. Tryggingastofnun Íslands hefur áætlað að kostnaður við sérstök framlög samkvæmt frumvarpinu vegna þeirra 900 barna á Íslandi sem misst hafa foreldri sitt sé á bilinu 10–20 millj. kr. á ári. Nefndin leggur því til að orðalagi 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði breytt svo að ákvæðið taki einungis til tilvika þar sem einn framfærandi ber þungann af framfærslu barns. Í breytingartillögu nefndarinnar er skýrt enn fremur undir hvaða kringumstæðum heimilt er að greiða framlag skv. 1. mgr. 1. gr. Lagt er til að sérstaklega verði tekið fram að framlagið sé einungis heimilt að greiða sé annað hvort foreldra látið, barn ófeðrað eða móður njóti ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna. Orðalagið byggist á breytingu sem gerð var á 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, með lögum nr. 107/2016, þar sem heimilað var að greiða barnalífeyri í slíkum aðstæðum. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 107/2016 segir að ákvæðið geti til að mynda átt við ef faðir hefur eignast barn með aðstoð staðgöngumóður annars staðar en á Íslandi og í tilvikum þar sem einhleypum manni hefur verið veitt leyfi til ættleiðingar barns skv. 4. mgr. 2. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999. Nefndin leggur til að feður geti í sömu tilvikum átt rétt til framlags vegna sérstakra útgjalda, enda beri þeir einir þungann af framfærslu barns.
    Þá hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar að í frumvarpinu er eingöngu vísað til 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, en ekki til 20. gr. í heild. Ákvæðið tekur því ekki til barna sem eru ófeðruð, eða ef móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna, og greiddur er barnalífeyrir með á grundvelli 4. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar. Sá hópur barna er jafnframt í þeirri stöðu að einungis einn framfærandi stendur straum af öllum kostnaði vegna sérstakra útgjalda. Leggur nefndin til að í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sé vísað til 20. gr. laganna í heild sinni, svo að komið verði til móts við þennan hóp.
    Nefndin telur að miðað við efni frumvarpsins séu ekki forsendur fyrir því að endurskoða skilyrði laga um almannatryggingar um rétt til barnalífeyris við meðferð þess. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. mgr. 1. gr. orðist svo:
    Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 20. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 5. desember 2018.

Halldóra Mogensen, form. Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásmundur Friðriksson. Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðjón S. Brjánsson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Vilhjálmur Árnason.