Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 623  —  302. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum (fyrirkomulag innheimtu).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eddu Símonardóttur frá tollstjóra og Elínu Ölmu Arthursdóttur, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra. Nefndinni barst einnig umsögn um málið frá ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að innheimta opinberra gjalda færist frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Með breytingunni er stefnt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í skattframkvæmd enda hagræði og einföldun fólgin í því að hafa álagningu og innheimtu opinberra gjalda á einni hendi.
    Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið kemur fram að tækifæri til hagræðingar hljótist fyrirsjáanlega af tilfærslunni. Í umsögninni segir orðrétt: „Með samfelldum ferli skattlagningar og innheimtu skapast miklir möguleikar á samþættingu verkefna og mun breytingin geta haft í för með sér margs konar samlegðaráhrif. Má þar nefna umtalsverða möguleika á samnýtingu og aukinni þróun ýmissa upplýsingatæknikerfa, sem og á breytingum og endurbótum á verkferlum, sem muni á margan hátt leiða til lægri rekstrarkostnaðar skattkerfisins í framtíðinni. Sömuleiðis mun aukin tækni og samhæfing leiða af sér skilvirkari þjónustu við viðskiptamenn ásamt því að hafa í för með sér réttari upplýsingar, og að sama skapi traustari tekjuöflun hins opinbera. Þá muni breyting þessi skapa margvísleg tækifæri fyrir starfsmenn til starfsþróunar, hvort heldur litið er til eðlis verkefna þeirra eða framkvæmdar, og muni bæði starfsmenn sjálfir og embættið í heild njóta ávinningsins af því.“
    Gildistaka frumvarpsins miðast við 1. janúar 2019. Í samráði við ríkisskattstjóra og tollstjóra hefur ráðuneytið lagt til við nefndina að gerð verði breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin komi til framkvæmda 1. maí 2019 auk þess sem tekið verði fram í ákvæðinu að búnaður og viðeigandi bankareikningar tollstjóra færist til ríkisskattstjóra við breytinguna. Nefndin fellst á þetta og leggur til breytingu þar að lútandi auk samsvarandi breytingar á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „5. mgr.“ í 3. gr. komi: 2. málsl. 5. mgr.
     2.      A-liður 46. gr. orðist svo: 4. málsl. orðast svo: Innheimtumaður ríkissjóðs skal innheimta skipulagsgjald af gjaldskyldum mannvirkjum.
     3.      48. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019 en koma til framkvæmda 1. maí 2019 og tekur ríkisskattstjóri þá við óloknum málum innheimtusviðs tollstjóra. Jafnframt færist búnaður og ráðstöfunarréttur á þeim bankareikningum sem innheimtusvið tollstjóra nýtti í tengslum við innheimtu yfir til ríkisskattstjóra.
     4.      Í stað orðanna „við gildistöku laga þessara“ í ákvæði til bráðabirgða komi: þegar lög þessi koma til framkvæmda 1. maí 2019.

    Smári McCarthy og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti.

Alþingi, 6. desember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir.