Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 633  —  444. mál.
Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um stöðu eldri borgara hérlendis og erlendis.

Frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson og Halldóru Mogensen.


    Með vísan til 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu eldri borgara og samanburð við önnur Norðurlönd og meðaltal ríkja OECD. Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirtalin atriði miðað við stöðu hérlendis borið saman við önnur Norðurlönd og meðaltal ríkja OECD:
     1.      Aldursdreifing landsmanna og hlutfall lífeyrisþega af mannfjölda og hver líkleg þróun er.
     2.      Dreifing hjúskaparstöðu eldri borgara.
     3.      Eftirlaunaaldur hérlendis og erlendis flokkað eftir atvinnugreinum og atvinnuþátttaka fólks 50–67 ára annars vegar og 67 ára og eldri hins vegar.
     4.      Tekjudreifing og meðaltekjur eldri borgara, skipt eftir hjúskaparstöðu og kyni, og breytingar á tekjudreifingu undanfarin fimm ár.
     5.      Hlutfall eldri borgara sem búa við tekjur sem eru lægri en lágmarkslaun.
     6.      Tekjudreifing og eignadreifing eldri borgara í samanburði við aðra aldurshópa.
     7.      Hlutfall eldri borgara sem reiða sig eingöngu á greiðslur almannatrygginga, brotið niður á einstaka greiðsluflokka.
     8.      Hvernig lífeyristekjum eldri borgara er háttað, skipt eftir greiðsluflokkum og skerðingum.
     9.      Hversu margir eldri borgarar eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri.
     10.      Hversu margir eldri borgarar eiga rétt á heimilisuppbót, uppbót á lífeyri og maka- og umönnunarbótum.
     11.      Hlutfall ellilífeyris án skerðingar af meðallaunum verkafólks og meðallaunum í landinu.
     12.      Heildarútgjöld opinberra aðila og annarra til aldraðra sem hlutfall af landsframleiðslu, hver hlutur hins opinbera er og hvernig þróunin hefur verið síðustu tíu ár.
     13.      Hvernig félagslegri aðstoð til eldri borgara er háttað og hversu háu hlutfalli af landsframleiðslu er varið til þessa.
     14.      Hversu stór þáttur greiðslur úr lífeyrissjóðakerfi eða öðrum sparnaðarformum til eldri borgara er í samanburði við greiðslur úr almannatryggingakerfi og hver líkleg þróun er næstu 20 árin.
     15.      Hvernig skattskyldu lífeyrisgreiðslna er háttað.
     16.      Skattbyrði aldraðra og hver þróunin hefur verið síðustu tíu ár.
     17.      Hvernig tekjutengingu greiðslna úr almannatryggingakerfi er háttað.
     18.      Hver þátttaka sjúkratrygginga í lyfja- og lækniskostnaði og sjúkraþjálfun ellilífeyrisþega hefur verið undanfarin fimm ár og hver hlutur ellilífeyrisþegans er.
     19.      Hvað það kostar að hækka ellilífeyri almannatrygginga um 3%, 5%, 10%, 15%, 20%, 25% og 30%.
     20.      Fjármögnun á rekstri hjúkrunarheimila og greiðsluþátttaka íbúa þeirra.
     21.      Hvernig kostnaðargreiningu er háttað þegar gerðir eru samningar við veitendur þjónustu fyrir aldraða.
     22.      Heimahjúkrun og önnur heimaþjónusta sem er í boði hér á landi miðað við önnur samanburðarlönd – stefna til framtíðar varðandi þjónustu við aldraða í heimahúsum.
     23.      Hvernig vistun eldri borgara á heilbrigðis- og/eða hjúkrunarheimilum er háttað.
     24.      Hlutfall aldraðra sem búa langdvölum á hjúkrunarheimilum og meðaldvalartími þeirra þar.
     25.      Greiðslur eldri borgara vegna dvalar á hjúkrunarheimilum og hversu háa upphæð af lífeyristekjum sínum og öðrum tekjum íbúar greiða til hjúkrunarheimila að meðaltali.
     26.      Hversu margir aldraðir með samþykkt færni- og heilsumat bíða eftir hjúkrunarrými og hver meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými er, stysti tími og lengsti tími, og hvernig biðtími hefur breyst undanfarin 10 ár – munurinn á biðtíma þeirra sem bíða í heimahúsi miðað við biðtíma þeirra sem bíða á deildum Landspítala.
     27.      Áætlun um hvernig betur megi þjónusta aldraða sem eru metnir í þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili.
     28.      Stefna til framtíðar um heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir aldraða og fyrir sjúklinga með heilabilun sérstaklega.
     29.      Auknir möguleikar eldri borgara á því að velja sér búsetuúrræði með því að tengja fjármagn við einstakling frekar en við stofnun – kostnaðarmat.
     30.      Hversu margir sjúklingar með heilabilun bíða eftir að komast í sérhæfða dagvistun/ dagþjálfun – meðalbiðtími eftir slíkri þjónustu, stysti tími og lengsti tími.
     31.      Hugmyndir og áætlanir um hvernig koma megi betur til móts við aldraða sem búa einir og eru sjálfbjarga, en líður illa sökum kvíða, öryggisleysis og einmanaleika.
     32.      Hvort til standi að opna sérstaka geðdeild á Íslandi fyrir aldraða einstaklinga með erfið geðvandamál.
     33.      Hvernig þjónustu gagnvart heimilislausum eldri borgurum er háttað.
     34.      Hvaða aðstoð sveitarfélög veita eldri borgurum, t.d. í formi lækkunar gjalda.
     35.      Hvaða rétt ættingjar aldraðra, börn eða makar, sem minnka við sig vinnu eða hætta vinnu, eiga til að annast aldraða ættingja.

Greinargerð.

    Skýrslubeiðendur telja brýnt að aflað verði ítarlegra upplýsinga um stöðu aldraðra hérlendis í samanburði við önnur Norðurlönd og meðaltal ríkja OECD þannig að umræðan um málefni aldraðra verði ítarlegri og yfirgripsmeiri.
    Öldruðum sem hlutfalli af þjóðinni fjölgar mikið. Nú eru um 50.000 manns 65 ára og eldri. Áætlað er að árið 2066 hafi þjóðinni fjölgað um 100.000 og að þá hafi samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands (miðspá) 65 ára og eldri fjölgað um 50.000. Það verða því 125.000 einstaklingar, eða tæp 30% af þjóðinni, 65 ára og eldri eftir tæpa hálfa öld. Íslenskt samfélag gerbreytist vegna þess og það kallar á mikil verkefni af hálfu hins opinbera. Því er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að gera sér vel grein fyrir stöðu mála og tímabært er að gera slíka úttekt sem skýrslubeiðnin mælir fyrir um til að vanda umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.
    Nú eru um fjórir vinnandi einstaklingar á hvern ellilífeyrisþega en árið 2065 er talið að þeir verði tveir á hvern ellilífeyrisþega. Svipuð skýrsla og hér er beðið um var gerð af forsætisráðuneytinu fyrir um 20 árum, á 122. löggjafarþingi (255. mál), að beiðni þingflokks jafnaðarmanna. Tímabært er að endurnýja þá upplýsingaöflun en fyrrgreind skýrsla var ein vandaðasta úttekt sem þá hafði verið gerð um málefni eldri borgara.
    Skýrslubeiðninni er beint til forsætisráðherra þar sem spurt er um málaflokka sem spanna heilbrigðismál, félagsmál, ríkisfjármál og hagsýslu.
    Í skýrslubeiðninni er m.a. farið fram á að leitað sé svara um aldursdreifingu, hjúskaparstöðu, lífslíkur, eftirlaunaaldur, framlög ríkisins til aldraðra, skattbyrði, tekjutengingu, fjölda ellilífeyrisþega, biðtíma eftir þjónustu, stefnumörkun og samspil almannatryggingakerfis og lífeyrissjóða. Jafnframt er óskað upplýsinga um umfang félagslegrar aðstoðar, tekjudreifingu, rétt ættingja og fyrirkomulag við breytingar á greiðslum svo að eitthvað sé nefnt.
    Allar upplýsingar í skýrslunni eiga að beinast að samanburði við önnur Norðurlönd og meðaltal ríkja OECD og jafnframt skal leitast við að sýna þróun yfir lengra tímabil eftir því sem við verður komið. Skýrslubeiðendur eru þess fullviss að skýrslan muni gagnast vel í nauðsynlegri um ræðu um stefnumótun í málefnum aldraðra.