Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 636  —  348. mál.
Leiðrétting.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um hjúkrunarheimili.


     1.      Hvernig hefur lengd biðlista eftir rými á hjúkrunarheimilum þróast á síðustu fimm árum?
    Fjöldi þeirra sem bíður eftir hjúkrunarrými hefur aukist úr 226 í 362 eða um 60% á landsvísu frá janúar 2014 til janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu umfram 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%.

     2.      Hve löng er bið eftir rými að meðaltali og hver er staða biðlista eftir landshlutum?
    Á landsvísu var meðallengd biðar eftir úthlutun hjúkrunarrýmis 116 dagar á þriðja ársfjórðungi 2018.
    Miðað við tölur frá þriðju ársfjórðungum áranna 2014 og 2018 hefur meðallengd biðtíma eftir hjúkrunarrými lengst úr 91 degi í 116 daga. Af þeim 186 einstaklingum sem fengu úthlutað hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2014 biðu 57 einstaklingar af 186 lengur en 90 daga. Á sama tíma árið 2018 biðu 77 einstaklingar af 175 lengur en 90 daga eftir að fá hjúkrunarrými.
    Í samanburði biðlista milli landshluta er miðað við hlutfall af hverjum 1.000 íbúum yfir 67 ára aldri.
    Vestfirðir eru með hæsta hlutfallið af íbúum á biðlista og hefur aukist úr 10,5 í 16,2 af hverjum 1.000 íbúum eldri en 67 ára. Þar sem Vestfirðir er jafnframt fámennasta heilbrigðisumdæmið geta sveiflur þar verið meiri en annars staðar og eru því ekki tölfræðilega marktækar.
    Á Norðurlandi eru hlutfallslega næstflestir á biðlista og hefur fjölgað um tæplega helming síðan 2014 og er nú 14,1 á hverja 1.000 íbúa yfir 67 ára aldri.
    Á Austurlandi hefur einstaklingum á biðlistum fækkað mikið síðan 2014 en er samt sem áður í þriðja sæti á landsvísu eða um 12,7 á hverja 1.000 íbúa yfir 67 ára aldri en var 20,2/1.000 íbúa árið 2014.
    Á höfuðborgarsvæðinu hefur einstaklingum á biðlista eftir hjúkrunarrými fjölgað frá árinu 2014 og er nú 8,9/1.000 íbúa miðað við 4,9/1.000 íbúa árið 2014.
    Á Suðurnesjum eru svipaðar tölur og á höfuðborgarsvæðinu þó að mikið hafi dregið úr lengd biðlista þar árið 2017 við opnun nýs hjúkrunarheimilis, en nú eru biðlistar þar farnir að lengjast aftur.
    Á Vesturlandi voru hvað fæstir á biðlista árið 2014 (4,9/1.000 íbúa yfir 67 ára) og biðlistar þar eru þeir næststystu á landinu eða 6,5/1.000 íbúa yfir 67 ára aldri.
    Best er ástandið á Suðurlandi og er nú 3,1/1.000 íbúa en var 5,9/1.000 árið 2014.

     3.      Hver telur ráðherra að þróun biðlista eftir rými á hjúkrunarheimilum yrði ef heilbrigðir makar heimilismanna á hjúkrunarheimilum ættu kost á að búa hjá þeim þar eins og hugmyndir hafa verið uppi um?
    Innlögn heilbrigðra maka hjúkrunarsjúklinga á hjúkrunarheimili hefur ekki verið í umræðunni um nokkurt skeið. Tilraunaverkefni sem efnt var til á Hrafnistu í Boðaþingi í Kópavogi leiddi í ljós fleiri úrlausnarefni en lagt var upp með og varð ekki til að færa stjórnvöld og þjónustuveitendur nær þessari lausn. Þar má nefna stöðu eftirlifandi heilbrigðs maka þegar sá veiki fellur frá, þjónustu hjúkrunarheimilisins við þann heilbrigða og letjandi áhrif á virkni hins heilbrigða sem leitt getur til ótímabærrar hnignunar sjálfsbjargargetu.
    Herbergi á hjúkrunarheimilum eru í mörgum tilvikum of lítil til að hjón geti deilt herbergi og ef hjón hefðu sitt herbergið hvort tæki það upp aukahjúkrunarrými sem ætlað væri einstaklingi í þörf fyrir þá þjónustu. Slíkt mundi því lengja biðlista sem því næmi.

     4.      Hversu margir á biðlista eftir hjúkrunarrými hafa andast áður en þeim gafst kostur á vist síðastliðin fimm ár?
    Fjöldi þeirra einstaklinga sem létust á biðlista eftir hjúkrunarrými áður en til úthlutunar kom var 114 árið 2014, 141 árið 2015, 178 árið 2016, 183 árið 2017 og er nú 110 það sem af er árinu 2018.

     5.      Hvað létust margir á Vífilsstöðum á tímabilinu 1. september 2016 – 1. september 2018?
    Á Vífilsstöðum létust 66 einstaklingar á tímabilinu 1. september 2016 til 1. september 2018.

     6.      Hver eru áform ráðherra um að fullnægja þörf fyrir hjúkrunarrými?
    Ný hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verða tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík eru komnar vel á veg. Með þessum framkvæmdum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af öðrum framkvæmdum sem eru á áætlun og í undirbúningi má nefna uppbyggingu hjúkrunarheimila í Kópavogi, í Stykkishólmi, á Höfn í Hornafirði, Húsavík, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri. Alls eru það a.m.k. 206 ný rými og endurbætur á öðrum 126 rýmum til viðbótar.