Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 637  —  445. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (fjölgun fulltrúa í fjármálaráði).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þrjá menn“ í 1. málsl. kemur: fimm menn.
     b.      Í stað orðsins „tveir“ í 2. málsl. kemur: þrír.
     c.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Auk þess skal einn tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins.
     d.      Í stað orðanna „sama mann“ í 5. málsl. kemur: aðalmann.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Mál þetta var lagt fram á 148. löggjafarþingi (415. mál) en náði ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt.
    Fjármálaráð er skipað þremur aðalmönnum en vegna þess hversu umfangsmikil vinnan við að greina fjármálastefnu og fjármálaáætlun er hafa varamenn sinnt verkefninu að fullu. Breytingunni er ætlað að styrkja fjármálaráð, með því að láta fleiri sjónarmið koma að starfinu, og uppfæra lögin miðað við þann raunveruleika sem fjármálaráð starfar eftir.
    Tveimur aðalmönnum og tveimur varamönnum er bætt við sem skipaðir skulu samkvæmt tilnefningu Alþingis og samstarfsnefndar háskólastigsins. Einnig er ákvæði um að varamenn megi einungis skipa tvisvar í röð fjarlægt. Það skilyrði eigi einungis við um aðalmenn.
    Aðkoma háskólastigsins er til þess að halda fræðilegum tengslum við þau mál sem fjármálaráð fjallar um en þau tengsl eiga að vera í báðar áttir, þ.e. málin fái fræðilegt aðhald og háskólastigið fái tækifæri til þess að nýta mál fjármálaráðs í rannsóknir.