Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 647  —  156. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unu Björk Ómarsdóttur frá forsætisráðuneytinu, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Evu Bjarnadóttur frá UNICEF, Árna Múla Jónasson frá Þroskahjálp, Salvöru Nordal og Guðríði Bolladóttur frá embætti umboðsmanns barna, Ingu Huld Ármann og Sólrúnu Elínu Freygarðsdóttur frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, Auði Rán Pálsdóttur og Sigurjónu Hauksdóttur frá ungmennaráði UNICEF og Kolbein Þorsteinsson frá ungmennaráði Barnaheilla.
    Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er markmið þess að skýra frekar hlutverk umboðsmanns barna í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru á réttindi barna m.a. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lúta að réttindum barna. Í samræmi við þær áherslur er lagt til að lögfest verði ákvæði um barnaþing, sem svo hefur verið nefnt, þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og hlutverk ráðgjafarhóps umboðsmanns barna lögfest.
    Lögum um umboðsmann barna hefur lítið verið breytt frá því að þau voru sett árið 1994. Á sama tíma hefur aftur á móti mikið breyst í viðhorfi samfélagsins til barna og ungmenna, ekki síst með lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér á landi árið 2013. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu er lagður grunnur að því að embætti umboðsmanns barna verði enn öflugri og virkari málsvari barna. Kostnaður við fyrirhugaðar breytingar hefur verið áætlaður 24 millj. kr. á ári, en gert hefur verið ráð fyrir þeirri viðbót í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
    Við umfjöllun nefndarinnar var bent á breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu eftir birtingu þess í samráðsgátt Stjórnarráðsins, eftir ábendingar um mikilvægi þess að embættið liti sérstaklega til réttinda fatlaðra barna og var vísun þess efnis bætt við athugasemd um 1. gr. frumvarpsins. Umsagnaraðilar bentu á mikilvægi þess að embættið hefði sérstakar gætur á öðrum sérstaklega berskjölduðum hópum barna, svo sem börnum af erlendum uppruna, börnum sem búa við fátækt og börnum sem er mismunað vegna búsetu. Tekur nefndin undir mikilvægi þess að embættið sinni þjónustu þar sem þörfin er mest, og minnir jafnframt á að áherslur af þessu tagi eru í fullu samræmi við ákvæði barnasáttmálans.
    Í umsögnum til nefndarinnar kom almennt fram stuðningur við málið og undirstrikuðu margir umsagnaraðilar mikilvægi þess að efla embætti umboðsmanns barna. Þá var því sérstaklega fagnað hversu sýnilegur barnasáttmálinn væri í þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, t.d. með því að lögfesta hlutverk ráðgjafarhóps umboðsmanns barna sem starfað hefur við embættið um árabil. Ráðgjafarhópurinn hefur verið mikilvægur fyrir embætti umboðsmanns barna á undanförnum árum og því jákvætt að festa hann í sessi.
    Eitt af þeim nýju verkefnum sem umboðsmanni barna er falið með frumvarpinu er öflun og miðlun gagna um stöðu barna á Íslandi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta væri mjög mikilvægt, þar sem oft og tíðum hefði sárlega skort upplýsingar á málasviðinu. Jafnframt kom fram að embættið og Hagstofan hefðu í vor undirritað viljayfirlýsingu um að hefja undirbúning þessarar vinnslu.
    Annað nýtt verkefni sem embættinu verður falið er að halda annað hvert ár áðurnefnt barnaþing þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins. Hugmyndin að baki barnaþinginu er að það geti verið með ólíku sniði eftir því hvaða málefni er fjallað um hverju sinni. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku barna í skipulagningu þingsins og framkvæmd þess og að þar gefist mikilvægt tækifæri fyrir samræðu á milli barna og valdhafa. Beinir nefndin því til yfirstjórnar Alþingis að taka tillit til tímasetningar barnaþingsins við skipulagningu starfsáætlunar svo að sem flestum alþingismönnum verði gert kleift að sækja þingið.
    Við umfjöllun nefndarinnar var á það bent hversu mikilvægt það væri að Alþingi hefði reglulegt og raunverulegt samráð við börn þegar til umfjöllunar væru mál sem snerta hagsmuni þeirra. Sérstaklega var vísað til þess að vefsíður og skjöl Alþingis væru ekki alltaf nógu aðgengileg, en jafnframt að styrkja þyrfti fræðslu til barna um lýðræðisþátttöku svo að þeim væri gert auðveldara að afla sér upplýsinga og hafa áhrif á framgang mála á Alþingi. Telur nefndin þetta mikilvæga þróun sem öflugra embætti umboðsmanns barna muni reynast traustur bandamaður í.
    Nefndin leggur til breytingu á 5. gr. frumvarpsins svo að í 5. gr. laga um umboðsmann barna verði vísað til e-liðar 3. mgr. 3. gr. Þá er einnig lögð til breyting á orðalagi 2. efnismgr. 6. gr. þannig að við skýrslu um stöðu barna sé skýrar áréttað að höfð skuli hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 5. gr. bætist: 3. mgr.
     2.      Í stað orðanna „þar á meðal um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins“ í 2. efnismgr. 6. gr. komi: þar á meðal með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

    Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Halldóra Mogensen var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 6. desember 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Guðjón S. Brjánsson. Vilhjálmur Árnason. Alex B. Stefánsson.
Una María Óskarsdóttir.