Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 653  —  2. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019 (tekjuskattur einstaklinga, persónuafsláttur, barnabætur, vaxtabætur, tryggingagjald).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrsti minni hluti hefur áður bent á, m.a. í nefndarálitum, að á árunum fyrir efnahagshrunið jókst ójöfnuður hér á landi mikið og mun meira en annars staðar á Vesturlöndum en minnkaði síðan í hruninu. Um þetta er fjallað í bókinni Ójöfnuður á Íslandi sem kom út haustið 2017 eftir þá Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson. Þar kemur fram að um tveir þriðju hlutar aukins ójafnaðar fyrir hrun skýrist af miklum vexti fjármagnstekna í efri hluta tekjustigans. Stærsti hluti þess þriðjungs sem eftir stendur skýrist af breyttri stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum. Eftir hrun snerist þetta algjörlega við því þá skýrðist vaxandi jöfnuður að einum þriðja hluta af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum en að tveimur þriðju hlutum af minnkandi fjármagnstekjum. Nú hefur sú þróun sem varð fyrir efnahagshrunið hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi ójöfnuð líkt og aðgerðir hinna tveggja ríkisstjórnanna sem starfað hafa eftir hrun. Hlutur tekjuhæstu fimm prósenta framteljenda var 17,3% árið 1995 en var orðinn 22,6% árið 2017 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra. Hlutur tekjuhæsta eina prósentsins var 5,2% 1995 og er nú kominn í 9,4%. Á sama tíma fór hlutur hinna 95 prósentanna, alls þorra almennings, úr 82,7% niður í 77,4%.

Tæki til jöfnunar.
    Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Spurningin er aðeins hvort eða hvernig þau beita þeim stýritækjum. Ljóst er að stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að ekki eigi að beita stýritækjunum til að auka jöfnuð á árinu 2019 svo nokkru nemi og 1. minni hluti telur það miklar ýkjur, svo ekki sé meira sagt, hjá talsmönnum stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd að leiðarstefið í fjárlögum sé jöfnuður.
    Miðstjórn ASÍ hefur bent á að rannsókn hagdeildar ASÍ á skattbyrði sýni að skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár hafi aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar séu lægri. Í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði er það grafalvarlegt að stjórnvöld skuli ekki sýna því skilning að nauðsynlegt sé að bregðast við ákalli verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á húsnæðisstuðningi og að skattkerfið verði nýtt til jöfnunar ásamt því að efla barna- og vaxtabótakerfin. Hinn 30. nóvember sl. sendi miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá sér eftirfarandi áskorun til stjórnvalda:
    „Alþýðusamband Íslands skorar á stjórnvöld að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum. Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi. Það er aðeins rétt rúmur mánuður þangað til kjarasamningar renna út. Stjórnvöld hafa ekki lagt neitt handfast fram til lausnar þeim gríðarlega vanda sem blasir við í húsnæðismálum. Þá vantar tillögur í skattamálum sem eru þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð.
    Það hefur verið ljóst árum saman að gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Fjöldi fólks er fastur í viðjum okurleigu, húsnæðisóöryggis, það getur ekki keypt og margir búa við óviðunandi aðstæður. Þessi staða er m.a. tilkomin vegna aðgerðaleysis stjórnvalda og sveitarstjórna og hefur verkalýðshreyfingin þó í langan tíma bent á vandann. Það er orðið sjálfstætt úrlausnarefni að laga húsnæðismarkaðinn, enda liggur fyrir að þær kjarabætur sem samið hefur verið um síðustu ár hafa brunnið upp á báli húsnæðiskostnaðar. Það þarf róttækar breytingar á kerfinu þannig að hagsmunir launafólks og heimila verði teknir fram yfir hagsmuni fjármagnseigenda. Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar. Hér þarf breytta forgangsröð. Það er kominn tími til að hagsmunir lág- og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi með breytingum á skattkerfinu og hækkun á barna- og vaxtabótakerfinu.“

Skattar og jöfnuður.
    Skattastefna stjórnvalda segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignamyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess. Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty er sama sinnis og leggur til í metsölubók sinni sem kom út árið 2014 að komið verði á þrepaskiptum fjármagnsskatti til að auka jöfnuð í heiminum. Hann telur að skattkerfið sé langáhrifamesta tæki samfélagsins til að ná því markmiði að jafna kjör fólks.
    OECD (Efnahags- og framfarastofnunin) birti í desember 2014 skýrslu þar sem vitnað er til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Þær rannsóknir og fleiri virtar rannsóknir sýna að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari samfélaga og styrkir hagkerfi og hagsæld.
    Ójöfnuður hvort sem litið er til tekna eða eigna er að aukast hér á landi. Ef stjórnvöld vilja jafna leikinn til að auka samfélagslegt traust þarf að beita bæði skatta- og bótakerfinu.
    Helsta niðurstaða skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni sem kom út í apríl sl. er að vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndum megi skýra með því að bætur hafi ekki hækkað í takt við laun undanfarin ár. Ef stjórnvöld vildu vinna að auknum jöfnuði ættu þau að taka á þessu og sjá til þess að velferðarþjónusta verði gjaldfrjáls eða í boði fyrir mjög vægt gjald.
    Skattkerfisbreytingar sem stuðluðu að auknum jöfnuði hér á landi væru fleiri skattþrep, hærri persónuafsláttur, þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur og stóreignaskattur á umtalsverðar eignir umfram íbúðarhúsnæði fólks ásamt auknu vægi barnabóta og húsnæðisbóta. Ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að draga úr ójöfnuði og hafa jöfnuð sem leiðarstef í ákvörðunum sínum verður að leggja áherslu á jöfnunarhlutverk skattkerfisins, lyfta því þaki sem sett hefur verið á barnabæturnar í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins og auka húsnæðisbætur til mikilla muna.
    Breytingar síðustu ára hér á landi á barna- og húsnæðisbótum, virðisaukaskatti og tekjuskatti ásamt afnámi auðlegðarskatts hafa allar haft neikvæð áhrif á jöfnuð. Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna, sem sýna neikvæð áhrif ójafnaðar á samfélög ásamt íslenskum og erlendum greiningum sem sýna skýr áhrif tekjujöfnunaraðgerða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ættu að vera stjórnarmeirihlutanum næg rök fyrir því að hverfa frá stefnu ójafnaðar síðastliðinna ára og til að forðast að róa aftur á mið vaxandi misskiptingar.
    Löngu er tímabært að endurskoða skattalöggjöfina. Þar verður að líta bæði til tekjuöflunarhlutverks þess og tekjujöfnunarhlutverksins. Einstökum greinum hefur margoft verið breytt frá gildistöku laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sem dæmi má nefna að með frumvarpinu um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019 (tekjuskattur einstaklinga, persónuafsláttur, barnabætur, vaxtabætur, tryggingagjald) er bráðabirgðaákvæði númer 58 bætt við lögin.

Breyting á skattþrepum.
    Fyrsta grein frumvarpsins er um fjárhæðarmörk milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofns og að þau breytist í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Það er jákvætt að sama viðmið sé þegar persónuafslætti og fjárhæðamörkum þrepa er breytt en skynsamlegra hefði verið að breytingin fylgdi launavísitölu í stað neysluvísitölu og að það sama gilti um barna- og vaxtabætur.

Barnabætur.
    Það er jákvætt að barnabætur eigi ekki að skerðast við upphæð sem er langt undir lágmarkslaunum. 1. minni hluti vill þó minna á að einungis eru nokkrir mánuðir síðan ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu frá Samfylkingunni einmitt um slíkt. Á hinn bóginn aukast skerðingar hjá millitekjuhópum við breytingarnar. Barnabótakerfið hefur markvisst verið veikt undanfarin ár og þúsundir barnafjölskyldna hafa dottið út úr kerfinu. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn leggja nú til að á árinu 2019 fái fólk undir miðgildislaunum engar barnabætur og þær byrji að skerðast í neðsta tekjufjórðungi. Skerðingarhlutföllin hafa verið allt of grimm og verða nú enn grimmari verði frumvarpið að lögum. Fyrirmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur virðist vera tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fátækrastyrk til barnafjölskyldna í stað þess að líta til hinna norrænu ríkjanna um barnabætur til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Barnabætur hafa á liðnum árum rýrnað mikið að raunvirði. Eftir hækkunina nú eru útgjöld til barnabóta svipuð að raunvirði og á árinu 2013.

Vaxtabætur.
    Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkaði um tæplega 19.000 milli áranna 2013 og 2017. Þá hafa bótafjárhæðir (hámarksbætur) verið óbreyttar frá árinu 2010 en gert er ráð fyrir 5% hækkun þeirra samkvæmt frumvarpinu. Til samanburðar má nefna að verðlag hefur frá árinu 2010 hækkað um 25% og launavísitala um ríflega 76%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu (20%) fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Ríkisstjórnin segir ástæður þess að vaxtabótakerfinu hefur verið haldið óbreyttu í nær áratug sé að fyrirhugaðar séu breytingar á kerfinu. Þessi rök eru aum og halda engu vatni. Á meðan beðið er eftir endurskoðun eykst vandi fólks á húsnæðismarkaði ár frá ári, fleiri og fleiri fá engar vaxtabætur og stærri hluti tekna fólks fer í vaxtagreiðslur og étur upp launahækkanir. Því ástandi á að viðhalda á árinu 2019.

Persónuafsláttur.
    Með breytingu á persónuafslættinum fá allir skattgreiðendur um 500 kr. á mánuði aukalega í ráðstöfunartekjur. Aðgerðin kostar ríkissjóð 2,2 milljarða kr. Til samanburðar lækka veiðigjöld um rúma 4 milljarða kr. á milli ára sem stórútgerðin í landinu nýtur að stærstum hluta. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr hvað þetta varðar.
    Boðaðar eru breytingar á skattkerfinu sem kynntar verða í lok þessa árs. Aðeins eru nokkrir dagar eftir af þessu ári og þingfundi sem eftir eru má telja á fingrum annarrar handar. Ef breyta á skattkerfinu fyrir árið 2019 þarf að samþykkja þá lagabreytingu og aukafjárlög í kjölfarið. 1. minni hluti telur vinnubrögð, seinagang og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans ámælisvert.

Tryggingagjald.
    Fyrsti minni hluti styður lækkun tryggingagjalds og tekur undir með meiri hlutanum að sú aðgerð styrki samkeppnishæfni atvinnulífsins og gefi fyrirtækjum aukið svigrúm í komandi kjarasamningum.

Alþingi, 10. desember 2018.

Oddný G. Harðardóttir.