Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 658  —  101. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ráðgjöf og störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra fengið til starfa, tímabundið eða á grundvelli verksamnings, sérfræðinga eða aðra aðila til að veita ráðgjöf, sinna sérverkefnum eða verkefnastjórnun í einstökum verkefnum frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa? Ef svo er, hvaða aðilar eru það, hverjar hafa greiðslur til þeirra verið og hver er lýsing á verkefnum þeirra?

    Frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa hafa eftirfarandi aðilar verið fengnir til starfa vegna tilgreindra verkefna. Svar miðast við greiðslur án virðisaukaskatts sem inntar hafa verið af hendi til og með 30. nóvember 2018. Ekki er í svarinu getið um tilfallandi þjónustu og ráðgjöf sem lýtur að rekstri ráðuneytisins, starfsmannahaldi eða ráðningarþjónustu og teljast til hefðbundinna rekstrarverkefna þess:
     .      Capacent ehf.: Rekstrarúttekt á Vatnajökulsþjóðgarði á grunni heimildar í 35. gr. laga um opinber fjármál um að fela óháðum aðila slíka úttekt. Greiðslur samtals 4,5 millj. kr.
     .      Orkusetrið: Ráðgjöf um loftslagsaðgerðir. Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi enn sem komið er.
     .      Brynhildur Davíðsdóttir: Sérfræðiráðgjöf í tengslum við loftslagsmál. Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi enn sem komið er.
     .      UMÍS ehf. Environice: Sérfræðiráðgjöf í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Greiðslur samtals 1,3 millj. kr.
     .      Sjávarlíftæknisetrið Biopol ehf.: Samantekt um losun örplasts á Íslandi og leiðir þess til sjávar. Engar greiðslur hafa verið inntar af hendi enn sem komið er.
     .      MATÍS ohf.: Gerð skýrslu um lyfjaleifar sem berast út í umhverfið á Íslandi. Greiðslur samtals 1,5 millj. kr.
     .      Strategía ehf.: Sérfræðiráðgjöf í tengslum við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Greiðslur samtals 0,6 millj. kr.
     .      Trausti Fannar Valsson: Álitsgerð um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Greiðslur samtals 0,2 millj. kr.
    Einnig er um að ræða tvær ráðningar hjá ráðuneytinu vegna tímabundinna verkefna frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Annars vegar er um að ræða ráðningu sérfræðings í hlutastarf frá maí 2018 til febrúar 2019 í tengslum við gerð og innleiðingu loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og hins vegar um ráðningu sérfræðings til tveggja ára í tengslum við skipan þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu en sérfræðingurinn vinnur með nefndinni. Um kjarasamningsbundnar greiðslur til viðkomandi sérfræðinga er að ræða.