Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 682  —  440. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum (aukið gagnsæi í stjórnmálum, framlög, birting ársreikninga o.fl.).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneytinu, Hjördísi Stefánsdóttur frá dómsmálaráðuneytinu, Erlu Hlynsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata, Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, f.h. nefndar um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka, og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni barst bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar kom fram að stjórn sambandsins var sammála um að öll sveitarfélög yrðu greiðsluskyld.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum.
    Meginmarkmið með breytingunum er að treysta starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og stuðla að því að þau séu fær um að sinna því mikilvæga lýðræðishlutverki sem þeim er ætlað. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að auka gagnsæi og jafna stöðu flokka óháð stærð þeirra ásamt því að samræma hugtakið „tengdir aðilar“ við sambærilegt hugtak í öðrum lögum. Frá setningu laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra hafa framlög til stjórnmálasamtaka lækkað og stjórnmálasamtökum sem skipta fjárhæðinni fjölgað. Þá hafa launa- og neysluvísitölur einnig hækkað. Minnkandi fjármagn dregur úr stuðningi við nýsköpun og þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl í starfi stjórnmálasamtaka. Margir flokkar hafa því átt erfitt með að sinna því allra nauðsynlegasta í rekstri stjórnmálasamtaka og þar með uppfylla markmið laganna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að með frumvarpinu eru starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka betur tryggð og staða þeirra jöfnuð.
    Við samningu frumvarpsins var m.a. litið til tilmæla GRECO, ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu, sem birt voru í þriðju matsskýrslu GRECO-nefndarinnar, 4. apríl 2018, um gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka hér á landi. Einnig var að nokkru leyti litið til niðurstöðu og tilmæla í úttektarskýrslu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem birt var 2. mars 2018, þar sem m.a. voru til athugunar afmörkuð atriði sem varða fjármögnun stjórnmálastarfsemi í tengslum við alþingiskosningarnar í október 2017.
    Með ákvæðum frumvarpsins er einnig stigið fyrsta skref í lengri vegferð í baráttu stjórnmálasamtaka gegn hatursáróðri, nafnlausu níði, rógi og árásum í stjórnmálalegri baráttu. Á undanförnum árum hefur vægi samfélagsmiðla í stjórnmálum aukist sem hefur skapað farveg fyrir nafnlausar auglýsingar. Slík þróun er ógn við lýðræðið. Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref sem sýni eindreginn vilja allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að hafna slíkum aðferðum.
    Með 11. gr. frumvarpsins er bætt við nýrri grein á undan 12. gr. laganna. Engin fyrirsögn er með hinni nýju grein en aðrar greinar laganna bera fyrirsögn. Því leggur meiri hlutinn til að bætt verði við fyrirsögn sem endurspegli efni ákvæðisins. Auk þess er lögð til ein breyting tæknilegs eðlis á 7. gr. frumvarpsins.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „1. mgr. 11. gr. laganna kemur“ í b-lið 7. gr. komi: tvívegis í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli.
     2.      Við efnisgrein 11. gr. bætist fyrirsögn, svohljóðandi: Bann við nafnlausum áróðri.

Alþingi, 12. desember 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Brynjar Níelsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason, með fyrirvara.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.