Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 687  —  266. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu (lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalbjörgu Finnbogadóttur og Guðbjörgu Pálsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Áslaugu Írisi Valsdóttur frá Ljósmæðrafélagi Íslands, Lóu Maríu Magnúsdóttur og Ólaf Ólafsson frá Lyfjafræðingafélagi Íslands, Dagrúnu Hálfdánardóttur og Andrés Magnússon frá embætti landlæknis, Helgu Gottfreðsdóttur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Ósk Ingvarsdóttur frá Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Óskar Reykdalsson, Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur og Kristján Linnet frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Áslaugu Einarsdóttur, Ásthildi Knútsdóttur og Maríu Sæmundsdóttur frá velferðarráðuneytinu.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskólanum á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, embætti landlæknis, Ljósmæðrafélagi Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands og Tönju Þorsteinsson, kvensjúkdómalækni.
    Markmið frumvarpsins er, líkt og nánar er rakið í greinargerð, að auka aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu, að efla slíka þjónustu og að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á sviði þjónustunnar. Með frumvarpinu er mælt fyrir um að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verði veitt heimild til að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnarlyfjum. Í samræmi við þá heimild er gert ráð fyrir því að ráðherra setji í reglugerð frekari skilyrði fyrir leyfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til ávísunar framangreindra lyfja, m.a. um viðbótarnám.
    Þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2022, nr. 17/146, var samþykkt í mars 2017. Eitt af meginmarkmiðum stefnunnar er að auka aðgengi að nauðsynlegum lyfjum. Meðal aðgerða til að ná því markmiði er að veita sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum takmarkaðan rétt til að ávísa ákveðnum lyfjum. Þær breytingar sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi eru í samræmi við framangreint markmið og sambærilega þróun sem hefur á undanförnum árum birst í nágrannalöndunum
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram það sjónarmið að menntun ljósmæðra á Íslandi stæði framarlega í alþjóðlegum samanburði. Þá fengju hjúkrunarfræðingar nú þegar mikla kennslu í lyfjafræði og ekki væri ástæða til að ætla að mikla viðbót þurfi við núverandi námskrár hjúkrunarfræðideilda háskólanna. Einnig kemur fram í umsögn frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands að ný námskrá í ljósmóðurfræði verði tekin í notkun haustið 2019. Í því námi verði lögð sérstök áhersla á forvarnir, kyn- og kvenheilbrigði og getnaðarvarnaráðgjöf.
    Um menntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra kom einnig fram það sjónarmið að nám í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði tryggði ekki þann grunn sem þurfi til að taka ákvarðanir um ávísanir lyfja og bera ábyrgð á þeim. Þá væri menntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á milliverkunum og aukaverkunum lyfja og lyfhrifum ekki nægileg. Þá yrði að vera skýrt að sá sem ávísi lyfjum beri ábyrgð á þeirri lyfjameðferð sem ávísað er og þeirri ábyrgð yrði ekki komið yfir á aðra.
    Í umsögn embættis landlæknis er bent á að samkvæmt greinargerð með frumvarpinu skuli embætti landlæknis taka ákvörðun um áherslur, innihald, fyrirkomulag og framkvæmd námskeiðs um lyfjaávísanir fyrir ljósmæður og hjúkrunarfræðinga, slíkt falli illa að hlutverki embættisins. Betur færi á því að hlutverk í tengslum við slíkt námskeið væri hjá til þess bærum menntastofnunum, svo sem heilbrigðisvísindasviðum háskólanna.
    Nefndin tekur undir ábendingu embættis landlæknis, en bendir jafnframt á að í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvörðun um áherslur, innihald, fyrirkomulag og framkvæmd námskeiðsins skuli tekin í samvinnu við heilbrigðisvísindasvið háskólanna sem gert er ráð fyrir að hafi umsjón með námskeiðinu. Nefndin telur mikilvægt að velferðarráðuneytið tryggi skýra hlutverkaskiptingu milli landlæknis og háskólanna í samræmi við það sem tíðkast hjá öðrum heilbrigðisstéttum sem hafa heimild til ávísunar lyfja. Mikilvægt er að háskólarnir móti inntak náms, en landlæknir sinni leyfisveitingar- og eftirlitshlutverki. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að vel verði hugað að útfærslu og umsjón með því viðbótarnámi sem krafist verður af hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum svo þeim verði veitt heimild til ávísunar umræddra lyfja.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að ekki væri nein knýjandi þörf fyrir breytinguna sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Í því sambandi var bent á að staða kynheilbrigðismála væri betri hér á landi en víðast hvar og tíðni ótímabærra þungana í yngsta aldurshópnum væri með þeirri lægstu á Norðurlöndum. Auk þess færi tíðni þungunarrofa minnkandi, einkum í yngsta aldurshópnum. Þá var einnig bent á að hormónatengd getnaðarvarnarlyf væru ekki aukaverkanalaus og ávísanir á þau krefðust umtalsverðrar sérfræðiþekkingar. Einnig var reifað fyrir nefndinni heppilegra byrjunarskref í að rýmka heimildir til lyfjaávísana gæti verið heimild til að ávísa öðrum, einfaldari lyfjum. Þá kom fram fyrir nefndinni að ef ætti að veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum heimild til að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnarlyfjum yrði að takmarka heimildina við lyf sem ekki krefðust sérstakra inngripa.
    Í því sambandi tekur nefndin fram að nú þegar er mikil lyfjafræði kennd við hjúkrunarfræðideildir háskólanna. Þá eru ljósmæður og hjúkrunarfræðingar oft í nánum tengslum við þær konur sem óska eftir ávísunum hormónatengdra getnaðarvarnarlyfja. Verði viðbótarnámið sem krafist verður til að fá heimild til ávísunar umræddra lyfja undirbúið með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í greinargerð með frumvarpinu eru þær forsendur tryggðar sem þarf til að auka verksvið og ábyrgð hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Áréttar nefndin í því sambandi nauðsyn þess að vel verði hugað að útfærslu og umsjón með því viðbótarnámi sem krafist verður af hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum.
    Meðal annarra sjónarmiða sem fram komu við umfjöllun nefndarinnar voru þau að skilvirkari leið til að auka aðgengi ungs fólks að getnaðarvörnum væri að niðurgreiða þær líkt og er gert í nokkrum nágrannalöndum, þannig að kostnaður hindri ekki notkun þeirra. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og beinir því til velferðarráðuneytisins að skoða þann möguleika. Þá var einnig bent á að fyrir stæði heildarendurskoðun á lyfjalögum og að betur færi á að gera þessa breytingu í tengslum við þá endurskoðun.
    Fyrir nefndinni voru einnig reifuð þau sjónarmið að frumvarpið gengi of skammt og rétt væri að ganga lengra, m.a. með því að heimila ávísun lyfja sem notuð eru við heimafæðingar og við sýkingum í kjölfar barnsburðar eða tengdum brjóstagjöf. Í ýmsum tilvikum gæti það verið mikil bót fyrir störf ljósmæðra sem eru í mestum samskiptum við barnshafandi konur og nýbakaðar mæður að geta ávísað þessum lyfjum beint. Nefndin tekur ekki undir þessi sjónarmið og bendir á að það skref sem er stigið hér sé skynsamlegt fyrsta skref og betra sé að fá reynslu á rýmkuðum heimildum til ávísunar umræddra getnaðarvarnarlyfja áður en lengra er gengið. Í því sambandi var jafnframt bent á að í samræmi við þessar auknu heimildir til ávísunar lyfja væri eðlilegt skref að heimila ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum að ávísa vissum tegundum hjálpartækja, enda væri fagleg þekking greinanna oft og tíðum meiri hjá þessum stéttum en t.d. hjá þeim læknum sem ávísa tækjunum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið að hluta og beinir til velferðarráðuneytisins að skoða með hvaða hætti megi heimila þessum starfsstéttum að ávísa tilteknum tegundum hjálpartækja.
    Að lokum áréttar nefndin að það skref sem lagt er til með þessu frumvarpi felur í sér töluvert aukna ábyrgð hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Nefndin beinir því til velferðarráðuneytisins að fylgjast með framkvæmd ákvæða frumvarpsins og huga að því í framtíðinni hvort reynslan gefi ástæðu til að veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum heimildir til ávísunar fleiri flokka lyfja, eða hvort ástæða verði til að þrengja umræddar heimildir. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson og Guðjón S. Brjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Andrés Ingi Jónsson og Anna Kolbrún Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 12. desember 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Ólafur Þór Gunnarsson.
Andrés Ingi Jónsson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Vilhjálmur Árnason.
Anna Kolbrún Árnadóttir.