Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 726  —  222. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Rögnu Bjarnadóttur og Ingu Þóreyju Óskarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Erlu Kristínu Árnadóttur frá Fangelsismálastofnun, Guðmund Inga Þóroddsson og Karitas Rán Garðarsdóttur frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Jón Gunnar Ásbjörnsson frá Lögmannafélagi Íslands og Ólöfu Aðalsteinsdóttur og Gunnar Þór Ásgeirsson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, Alþýðusambandi Íslands, Fangelsismálastofnun ríkisins, Fjármálaeftirlitinu, laganefnd Lögmannafélags Íslands og Persónuvernd.
    Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði varanlega frá því að uppreist æru verði veitt með stjórnvaldsákvörðun og jafnframt að horfið verði frá því að gert sé að skilyrði fyrir starfi eða embætti að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti. Þannig verði horfið frá því að vísa til laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, um óflekkað mannorð og í staðinn verði þau hæfisskilyrði sem gerð eru til ýmissa starfsstétta eða embætta skilgreind sérstaklega í viðeigandi lagabálkum. Áfram verður þó óflekkað mannorð skilgreint í lögum um kosningar til Alþingis, sbr. 34. gr. stjórnarskrárinnar. Kjörgengisskilyrði í lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna verði hins vegar rýmkuð og kveðið á um að eingöngu þeir sem hlotið hafa óskilorðsbundinn fangelsisdóm teljist hafa flekkað mannorð.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin ræddi m.a. nokkuð um skilgreiningar á hugtökum í greinargerð frumvarpsins, stjórnarskrárvarin réttindi og sérstaklega var fjallað um hæfisskilyrði sem gerð eru til lögmanna og aðkomu Lögmannafélags Íslands að því ferli auk þess að fjallað var um hæfisskilyrði sem gerð eru til framkvæmdastjóra og stjórnarmanna ýmissa starfsstétta sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Skilgreiningar.
Tegund dóma.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins telst enginn hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lagt er til að eingöngu einstaklingar sem ekki afplána fangelsisdóm hafi óflekkað mannorð. Síðar í greinargerðinni kemur hins vegar sú skýring að þegar um skilorðsbundna dóma sé að ræða sé miðað við að einstaklingur verði kjörgengur að nýju þegar skilorðstíma er lokið.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur fram að óskilorðsbundinn dómur er refsidómur þar sem ákærði er dæmdur til fangelsisvistar sem ekki er skilorðsbundinn. Skilorðsbundinn dómur er refsidómur þar sem ákvörðun refsingar eða fullnustu refsingar er frestað um tiltekinn tíma með því skilyrði að sakborningur brjóti ekki af sér á þeim tíma. Að auki er hægt að fá blandaðan dóm, þ.e. hluti hans er skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn. Þá er rétt að benda á að einstaklingar geta ekki afplánað skilorðsbundna dóma en ef þeir rjúfa skilorð er hægt að dæma upp skilorðsbundna dóminn og gera þeim að afplána refsinguna en þá er sá dómur orðinn óskilorðsbundinn.
    Með hliðsjón af skilyrði 2. gr. frumvarpsins að refsing er óskilorðsbundið fangelsi telur meiri hlutinn að umfjöllun um skilorðsbundna dóma í greinargerð geti ekki haft þýðingu þar sem ekki er verið að fjalla um slíka dóma nema þó í þeim tilvikum þar sem um er að ræða svokallaðan blandaðan dóm. Þannig eru einstaklingar með flekkað mannorð ef um er að ræða óskilorðsbundinn dóm, að hluta eða öllu leyti, en eru með óflekkað mannorð ef um er að ræða skilorðsbundinn dóm.

Afplánun að fullu lokið.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skal enginn teljast hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi sem dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið. Í greinargerð kemur fram að afplánun teljist lokið að fullu í skilningi þessa ákvæðis þegar einstaklingur hefur lokið reynslulausn, sbr. VII. kafla laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að afplánun lýkur ekki alltaf með veitingu reynslulausnar, enda séu ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla svo að unnt sé að veita reynslulausn, sbr. 80. gr. laga um fullnustu refsinga. Til að mynda er í ákveðnum tilvikum svo að afplána þurfi refsinguna í heild, óheimilt sé að veita reynslulausn eða refsing sé afplánuð með samfélagsþjónustu og komi þá ekki til veitingar reynslulausnar.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að taka það fram að það getur verið mismunandi hvenær afplánun telst að fullu lokið samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Frá refsipólitísku sjónarhorni, og að teknu tilliti til atvinnufrelsis einstaklinga, er æskilegt að þeir sem gerst hafi brotlegir við refsilög og missa þar með borgaraleg réttindi sín hljóti þau að nýju að einhverjum tíma liðnum nema sérstök rök standi til annars. Því áréttar meiri hlutinn að frumvarpinu sé ekki ætlað að skerða réttindi einstaklinga með þeim hætti að aðeins þeir sem hafa lokið afplánun með reynslulausn geti hlotið borgaraleg réttindi að nýju heldur allir þeir sem hafa lokið afplánun með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum um fullnustu refsingar og fer það eftir eðli fullnustunnar hvenær henni lýkur. Þá telur meiri hlutinn æskilegt að hægt verði að sýna fram á hvort afplánun sé að fullu lokið annaðhvort með sakavottorði eða með vottorði frá Fangelsismálastofnun ríkisins.

Tímamörk frá afplánun til að öðlast tiltekin starfsréttindi.
    Á þónokkrum stöðum frumvarpsins er kveðið á um það hæfisskilyrði að viðkomandi megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef hann var fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið, sbr. 9., 12., 13., 21., 23., 25.–42. gr. frumvarpsins. Í greinargerð kemur fram að fimm ár frá því að afplánun sé að fullu lokið í skilningi þessara ákvæða byrji að líða þegar viðkomandi var látinn laus úr fangelsi til reynslu ef skilorð var haldið. Þessa skilgreiningu er einnig að finna í greinargerð frumvarpsins um 19. og 20. gr.
    Við meðferð málsins var vakin athygli á því að menn séu ekki alltaf látnir lausir úr fangelsi þegar afplánun lýkur. Til að mynda sé stór hluti manna sem getur afplánað refsingu sína með samfélagsþjónustu. Þá sé jafnframt algengt að menn sem hafi afplánað refsingu sína í fangelsi afpláni síðasta hluta hennar utan fangelsis, svo sem á áfangaheimili eða heima hjá sér með ökklaband. Einnig séu dæmi þess að menn afpláni refsingu sína á meðferðarstofnun eða sjúkrahúsi.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að árétta að frumvarpinu sé ekki ætlað að skerða réttindi einstaklinga með þeim hætti að einungis þeir einstaklingar sem hafa afplánað refsingu sína í fangelsi geti hlotið tiltekin starfsréttindi að ákveðnum tíma liðnum heldur koma til greina allar tegundir af afplánun og fer það eftir eðli fullnustunnar hvenær henni lýkur. Meiri hlutinn telur þess vegna að tíminn byrji að líða frá því að afplánun er að fullu lokið með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum um fullnustu refsinga. Meiri hlutinn ítrekar þann möguleika að hægt er að sýna fram á hvenær afplánun lauk með sakavottorði eða vottorði frá Fangelsismálastofnun ríkisins ef vafi leikur þar um.

Stjórnarskrárvarin réttindi.
Jafnræði.
    Fram komu sjónarmið um að nú þegar væri til staðar ákveðið ójafnrétti við endurheimt borgaralegra réttinda. Þannig sé missir þeirra réttinda miðaður við þann tíma sem afplánun lýkur en ekki lengd þess dóms sem kveðinn hafi verið upp af dómstólum. Til að mynda geta þeir sem hlotið hafa dóm fyrir efnahagsbrot afplánað að jafnaði einungis helming af þeim dómi sem þeir hafa hlotið ef þeim er veitt reynslulausn.
    Meiri hlutinn vísar í umfjöllun um skilgreiningu á því hvenær afplánun lýkur og hvenær tíminn byrjar að líða frá lokum afplánunarinnar. Þannig fer það eftir eðli fullnustunnar hvenær afplánun lýkur og hvaða skilyrði eru uppfyllt til að afplána refsingu með mismunandi hætti. Meiri hlutinn telur æskilegt að miða við afplánun í samræmi við lög um fullnustu refsinga. Í lögum koma t.d. fram skilyrði reynslulausnar í 80. gr. laga um fullnustu refsinga og þar hefur verið lagt til tiltekið alvarleikamat, svo sem á ólíkum brotum og á brotaferli. Með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum getur verið erfiðleikum bundið í framkvæmd að miða við lengd dóms. Meiri hlutinn tekur fram að stefna stjórnvalda hefur verið að rýmka þau úrræði til að fullnusta refsingu án þess að komi til fangelsisvistar, svo sem samfélagsþjónustu, og rýmka rafrænt eftirlit. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að hægt er að kveða upp nokkrar tegundir af dómum og um er að ræða ólíka möguleika á afplánun eftir tegund og lengd refsingar.

Atvinnufrelsi.
    Við meðferð málsins var nokkuð fjallað um atvinnufrelsi samkvæmt stjórnarskránni og skerðingu á þeim réttindum. Sérstaklega var bent á að í frumvarpinu sé kveðið á um íþyngjandi breytingar á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, og óljóst sé hvaða almannahagsmunir krefjist skerðingar atvinnuréttinda á því sviði. Auk þess var bent á mikilvægi þess að gæta meðalhófs ef skerða á atvinnuréttindi. Fram komu sjónarmið um margvísleg verkefni lögmanna og val almennings á því hvort keypt sé lögmannsþjónusta af dómþolum eður ei. Nú þegar sé til staðar skerðing á atvinnufrelsi lögfræðimenntaðra dómþola en alla jafna fái þeir ekki vinnu hjá hinu opinbera og ólíklegt sé að þeir fái starf hjá einkafyrirtækjum, en geti hins vegar stofnað sinn eigin rekstur. Þannig megi færa fyrir því rök að takmörkun atvinnufrelsis á þennan hátt feli raunar í sér áframhaldandi refsingu.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að gæta þurfi meðalhófs. Að mati meiri hlutans þarf að skoða í hverju tilviki hvaða skilyrði er rétt að setja fyrir því að einstaklingar öðlist tiltekin starfsréttindi, þ.e. hvers konar brot og refsingar séu þess eðlis að rétt sé að þau girði fyrir slíkt og hve langur tími skuli líða frá því að refsing var að fullu tekin út. Um er að ræða starf þar sem leggja verður ríka áherslu á að lögmenn séu þess trausts verðir sem skjólstæðingar þeirra og samfélagið þurfa að bera til þeirra, hvort sem verkefnin varða fjárhagslega hagsmuni eða viðkvæma persónulega hagsmuni. Þannig búa almannahagsmunir að baki því að ríkar kröfur séu gerðar til þeirra sem mega starfa sem lögmenn. Einkaréttur lögmanna snýr að því að enginn annar en lögmaður má gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi. Telur meiri hlutinn að sá einkaréttur verði ekki takmarkaður við ákveðna málaflokka.

Lögmannafélag Íslands.
    Við meðferð málsins var gagnrýnd sú krafa að leita yrði umsagnar Lögmannafélags Íslands sem undanfara stjórnvaldsákvörðunar um veitingu eða synjun málflutningsréttinda, m.a. með hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum og þar af leiðandi hvort hægt yrði að tryggja hlutleysi félagsins. Um væri að ræða rúm og matskennd atriði sem félaginu bæri að taka tillit til við ákvörðun sína. Hins vegar komu einnig fram gagnstæð sjónarmið um hin matskenndu atriði en með því að telja upp með tæmandi hætti hvaða sjónarmiða eigi að líta til þegar einstaklingur sem afplánað hefur refsingu sækir um málflutningsréttindi væri um að ræða ákveðna takmörkun á atvinnuréttindum. Þess í stað ætti að vera möguleiki á heildarmati í ljósi þess að aðstæður geta verið með mismunandi hætti.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að eðlilegt þyki að Lögmannafélag Íslands eigi aðkomu að mati sem þessu enda öllum lögmönnum skylt að vera þar félagsmenn. Enn fremur kemur fram að sýslumanni beri að taka mið af umsögn félagsins þrátt fyrir að vera ekki bundinn af henni. Aðkoma Lögmannafélags Íslands sé mikilvæg en í ljósi þess að um atvinnuréttindi einstaklinga sé að ræða þykir of víðtækt framsal að félagasamtökum sé falið bindandi ákvörðunarvald um það hvort tiltekinn einstaklingur fái málflutningsréttindi, enda sé framkvæmdarvaldið veitingarvaldshafinn. Aftur á móti var bent á að samkvæmt lögum um lögmenn gegnir félagið viðamiklu eftirlitshlutverki gagnvart félagsmönnum sínum og séu valdheimildir þess mun umfangsmeiri en almennt gerist um félagasamtök. Þannig hafi verið undirstrikað mikilvægi sjálfstæðrar lögmannastéttar. Í gildandi lögum sé gert ráð fyrir að meðmæli félagsins sé bindandi álitsumleitan. Með frumvarpinu sé dregið úr sjálfstæði stéttarinnar, en einungis sé gert ráð fyrir umsögn en ekki meðmælum Lögmannafélagsins með umsækjendum.
    Meiri hlutinn tekur undir að æskilegt er að Lögmannafélagið hafi aðkomu að þessum málum á grundvelli eftirlitshlutverks þess. Þá er það að endingu ákvörðun sýslumanns að veita málflutningsréttindi eða synja um veitingu þeirra. Meiri hlutinn áréttar að umsögn Lögmannafélagsins telst mikilvægt gagn við undirbúning stjórnvaldsákvörðunarinnar þó að sýslumaður verði ekki bundinn af umsögninni. Meiri hlutinn gerir auk þess ráð fyrir að ef augljósir annmarkar eru á umsögn Lögmannafélagsins geti sýslumaður beint því til félagsins að skila inn nýrri umsögn á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Meiri hlutinn telur þó að með þessu fyrirkomulagi sé ekki vegið að sjálfstæði lögmannastéttarinnar.
    Meiri hlutinn áréttar jafnframt að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að leggja beri heildstætt mat á umsækjanda um málflutningsréttindi. Í ákvæðinu megi finna upptalningu á helstu sjónarmiðum sem líta beri til við matið en þau séu ekki tæmandi talin. Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingar á c-lið 19. gr. frumvarpsins svo að skýrt sé að ekki sé um tæmandi talningu að ræða heldur skuli heildstætt mat fara fram með hliðsjón af þeim aðstæðum sem eru uppi hverju sinni. Er slík breyting í samræmi við greinargerð frumvarpsins. Að auki leggur meiri hlutinn til breytingar á c-lið 19. gr. frumvarpsins sem eru lagatæknilegs eðlis.

Hæfisskilyrði.
Samræmdar kröfur um hæfi.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að í einhverjum tilvikum væri æskilegt að samræma kröfur um hæfisskilyrði. Til að mynda ættu sömu reglur eða svipaðar reglur að gilda um hæfisskilyrði gerðardómara og matsmanna eins og annarra sem fái í hendur mikilvægt hlutverk innan réttarvörslunnar. Samkvæmt gildandi lögum eru ekki sömu kröfur gerðar til gerðardómara og dómara. Meiri hlutinn telur ekki þörf á að herða skilyrðin, einkum vegna þess að störf gerðarmanna byggjast á samningi þeirra við aðila og þar sem aðilar eiga frjálst val um hverjum þeir treysta til að útkljá mál þeirra með gerð. Varðandi hæfisskilyrði matsmanna bendir meiri hlutinn á að með frumvarpi þessu er ekki markmiðið að endurskoða skilyrði fyrir því að geta verið matsmaður við skipti á dánarbúum heldur einungis þær kröfur sem gerðar eru með skilyrðinu „óflekkað mannorð“. Meiri hlutinn telur því við meðferð þessa frumvarps ekki ástæðu til að breyta þeim skilyrðum.
    Á fundum nefndarinnar komu einnig fram sjónarmið um að ekki væri ástæða til þess að gera aðrar og minni kröfur til endurskoðenda og þeirra sem hefðu innheimtuleyfi en gerðar væru til lögmanna samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn beinir því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að fara í frekari endurskoðun á hæfisskilyrðum endurskoðenda, sbr. síðari umfjöllun. Þá vísar meiri hlutinn til umfjöllunar um hæfisskilyrði starfsstétta sem heyra undir Fjármálaeftirlitið sem viðkemur hæfisskilyrði þeirra sem hafa með höndum innheimtuleyfi, sbr. 26. gr. frumvarpsins.

Hæfisskilyrði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna.
    Í ákvæðum 23., 26., 30., 31., 33., 34., 35. og 39. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á hæfisskilyrðum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna ýmissa aðila sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að æskilegt væri að samræma breytingar á hæfisskilyrðum við nýlegar breytingar á hæfisskilyrðum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum, sbr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og hæfisskilyrðum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna í vátryggingafélögum, sbr. 41. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, þannig að hæfisskilyrðið „gott orðspor“ komi í stað hæfisskilyrðisins „óflekkaðs mannorðs“. Þá væri slík breyting í samræmi við þau hæfisskilyrði sem kveðið sé á um í tilskipunum Evrópusambandsins, en Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) hafa nýlega gefið út nýjar viðmiðunarreglur um hæfi en þar sé að finna ítarleg viðmið um gott orðspor.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að æskilegt er að færa hæfisskilyrði viðkomandi starfsstétta til samræmis við nýlegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi og miða við „gott orðspor“. Meiri hlutinn leggur áherslu á að umræddar viðmiðunarreglur séu hafðar til grundvallar við mat á góðu orðspori. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á framangreindum ákvæðum þannig að „gott orðspor“ komi í stað „óflekkaðs mannorðs“.
    Hins vegar, í ljósi þess að fyrirhuguð eru ný heildarlög um það eftirlit sem Fjármálaeftirlitið fer með, beinir meiri hlutinn því til fjármála- og efnahagsráðuneytis að taka það til skoðunar hvort tilefni sé til að endurskoða hæfisskilyrði annarra starfsstétta sem heyra undir ráðuneytið og færa til samræmis við framangreind viðmið um gott orðspor.

Hæfisskilyrði stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins.
    Nokkuð var rætt um hæfisskilyrði stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins. Fram komu sjónarmið um að með frumvarpinu sé dregið verulega úr hæfisskilyrðum stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins. Í stað gildandi ákvæðis, sem geri ráð fyrir að sá sem hafi verið dæmdur fyrir ýmis tilgreind brot geti aldrei sest í stjórn stofnunarinnar, séu sett ákvæði um að líða þurfi ýmist fimm eða tíu ár frá dómi þar til dómfelldi geti tekið þar sæti. Það gæti rýrt traust á ákvörðunum stjórnarinnar ef þar sætu menn sem hafi hlotið refsidóm. Enn fremur kom fram að breytingin væri í engu samræmi við aðrar breytingar frumvarpsins þar sem óflekkað mannorð væri fjarlægt en tiltekin brot útilokuðu áfram hæfi. Þá var nefndinni bent á að athuga þyrfti hvort tilefni væri til breytinga á ákvæðinu þar sem gert væri ráð fyrir að samþykkt yrðu ný heildarlög um eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Hins vegar gæti tilgangi frumvarpsins verið náð með því að skipta út „óflekkað mannorð“ fyrir „gott orðspor“.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að við vinnu við 33. gr. frumvarpsins hafi greinargerð með ákvæðinu ekki verið uppfærð í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á því. Með ákvæðinu er gengið út frá því að eldri brot og brot gegn öðrum lögum en talin séu upp í ákvæðinu geti haft áhrif á hvort einstaklingur sé skipaður í stjórn, án þess að leiða skuli slíkan áskilnað af ákvæðum laga. Þannig yrði fylgt þeirri venjubundnu framkvæmd við skipun í stöður að meta hvort einstaklingur njóti orðspors sem geri hann verðugan þess trausts og virðingar sem viðkomandi starf krefst. Meiri hlutinn vísar til fyrri umfjöllunar um að miðað verði við hæfisskilyrðið „gott orðspor“ í þessum efnum í stað „óflekkaðs mannorðs“.

Endurskoðun annarra laga.
    Við umfjöllun málsins var rætt um hvort tilefni væri til að endurskoða hæfisskilyrði fleiri starfsstétta, svo sem lögráðamanna, kennara og heilbrigðisstarfsfólks, auk þess að fram færi endurskoðun á kjörgengi í nefndir og ráð, svo sem til barnaverndarnefnda. Meiri hlutinn beinir því sérstaklega til velferðarráðuneytis að endurskoða hvort setja eigi sérstök skilyrði fyrir kjörgengi til barnaverndarnefnda þar sem frumvarpið leggur til töluverða rýmkun á kjörgengisskilyrðum laga um kosningar til sveitarstjórna, og skv. 11. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, fer um kjörgengi til barnaverndarnefnda eftir sömu reglum og um kjörgengi til sveitarstjórna. Meiri hlutinn tekur fram að frumvarp þetta er afmarkað við það að afnema uppreist æru úr lögum, svo og skilyrðið um óflekkað mannorð. Meiri hlutinn telur þó hins vegar fulla ástæðu fyrir því að beina því til allra ráðuneyta að haldið verði áfram að endurskoða hæfisskilyrði starfsstétta sem heyra undir málefnasvið þeirra, en þó er lögð sérstök áhersla á að endurskoðun hæfisskilyrða þeirra sem starfa með börnum verði sett í forgang. Jafnframt ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að við slíka endurskoðun eigi ráðuneytin samráð við fagstéttirnar sem eiga hlut að máli og hafi hliðsjón af atvinnuréttindum og meðalhófi.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. desember 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson.
Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.