Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 744  —  77. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (stofnanir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingu á 9. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, sem ætlað er að veita tilteknum aðilum lagaheimild til að senda stofnuninni persónuupplýsingar enda skuli nýta þær í þágu lögbundinnar starfsemi hennar.
    Á meðal þeirra aðila sem senda skulu Innheimtustofnun sveitarfélaga upplýsingar, verði frumvarpið að lögum, eru Fangelsismálastofnun og sveitarfélög. Þær persónuupplýsingar sem þessir aðilar munu senda Innheimtustofnun varða m.a. refsivist og fjárhagslega sem og félagslega stöðu einstaklinga.
    Að mati minni hluta nefndarinnar er í þessum tilvikum um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar sem eðlilegt er að gera kröfu um að ekki verði sendar á milli opinberra aðila nema fyrir liggi samþykki þess sem þær varða. Leggur minni hluti að þessu virtu til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skulu Fangelsismálastofnun og sveitarfélög ekki láta upplýsingar af hendi skv. 1. málsl. nema fyrir liggi samþykki hins skráða.

Alþingi, 13. desember 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
frsm.
Hanna Katrín Friðriksson.