Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 757  —  440. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum (aukið gagnsæi í stjórnmálum, framlög, birting ársreikninga o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 14. desember.)


1. gr.

    Í stað orðanna „og efla lýðræðið“ í 2. málsl. 1. gr. laganna kemur: tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði og gagnsæi stjórnmála.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „markaðsverði“ í 2. málsl. 4. tölul. kemur: vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði og standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða.
     b.      5. tölul. orðast svo: Tengdir aðilar:
              a.      Lögaðilar þar sem svo háttar til að annar aðili er í raun undir stjórn hins þar sem sá síðarnefndi á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í þeim fyrrnefnda, sbr. einnig 2. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, 2. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og 4. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, um skilgreiningu á móðurfélagi og dótturfélagi.
              b.      Lögaðilar þar sem svo háttar til að einstaklingur á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
                      Stjórnmálasamtök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi í næstliðnum alþingiskosningum eiga rétt á 12 millj. kr. grunnrekstrarframlagi úr ríkissjóði á ári hverju. Ný stjórnmálasamtök sem fá mann kjörinn á Alþingi eiga rétt á greiðslu styrks fyrir kosningaárið hlutfallslega miðað við kjördag.
     b.      1. mgr. orðast svo:
                      Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni. Árleg heildarfjárveiting til stjórnmálasamtaka skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með hliðsjón af breytingum á vísitölum verðlags og launa. Heildarfjárhæðinni skal úthlutað til stjórnmálasamtaka í hlutfalli við atkvæðamagn fyrir 25. janúar ár hvert.
     c.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í þremur kjördæmum eða fleiri í kosningum til Alþingis geta að loknum kosningum sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 750.000 kr. fyrir hvert kjördæmi sem boðið er fram í.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                      Skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. og 2. mgr. er að viðkomandi samtök hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda skv. 8. og 9. gr. og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning viðkomandi samtaka.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sveitarfélögum er skylt að veita stjórnmálasamtökum sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum árleg fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar ár hvert. Fjárhæðinni skal úthlutað ár hvert í hlutfalli við atkvæðamagn. Skilyrði úthlutunar á fé frá sveitarstjórnum er að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína við ríkisendurskoðanda.
     b.      Í stað orðanna „er heimilt að setja“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: setur.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Reglurnar skal taka til endurskoðunar árlega.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá lögaðilum umfram þá fjárhæð, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er óheimilt að taka á móti hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Undanþegnir hámarki framlaga eru afslættir af vörum og þjónustu sem veittir eru af markaðsverði og standa öðrum viðskiptamönnum almennt til boða og slíkir afslættir séu sérgreindir í reikningum. Lögaðilar sem inna af hendi framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum. Telja skal saman framlög tengdra aðila.
     b.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. málsl. 1. mgr.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                      Stjórnmálasamtökum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 550.000 kr. á ári. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er þó heimilt að taka á móti framlögum frá einstaklingum umfram þetta, samtals að hámarki 100.000 kr. Frambjóðendum er heimilt að taka á móti framlögum frá lögráða einstaklingum sem nemur allt að 400.000 kr. á ári.
     d.      Í stað fjárhæðanna „1 millj. kr.“, „75 kr.“, „100 kr.“, „125 kr.“, „150 kr.“ og „175 kr.“ í 4. mgr. kemur: 2 millj. kr.; 140 kr.; 185 kr.; 230 kr.; 275 kr.; og: 320 kr.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Hámarksframlög og kostnaður vegna kosningabaráttu.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „400.000 kr.“ í 2. málsl. kemur: 550.000 kr.
     b.      Í stað 4. málsl. koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Í ársreikningi skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum. Meðal meginflokka gjalda skal tilgreina kostnað vegna alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga, eftir atvikum. Í skýringum skal kostnaður vegna alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga sundurliðaður samkvæmt nánari leiðbeiningum ríkisendurskoðanda. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem almennt standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða, virði framlaga sem veitt eru í öðrum gæðum en fjárframlögum sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Ríkisendurskoðandi gefur út frekari leiðbeiningar um reikningsskil stjórnmálasamtaka.

7. gr.

     a.      Í stað orðsins „Ríkisendurskoðunar“ í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr., 5. málsl. 1. mgr. 10. gr., 2. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: ríkisendurskoðanda.
     b.      Í stað orðsins „Ríkisendurskoðun“ í 3. málsl. 2. mgr. 8. gr., 6. málsl. 1. mgr. 10. gr., 2. mgr. 10. gr. og tvívegis í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: ríkisendurskoðandi.

8. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðandi skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta ársreikning stjórnmálasamtaka. Auk þess skal ríkisendurskoðandi birta nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 300.000 kr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tekjur skulu sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem almennt standa öðrum viðskiptamönnum ekki til boða, virði framlaga sem veitt eru í öðrum gæðum en fjárframlögum sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „400.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 550.000 kr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „útdrátt úr reikningum með samræmdum hætti“ í 2. málsl. kemur: áritaðan reikning frambjóðenda.
     b.      3.–5. málsl. falla brott.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „200.000 kr.“ í 7. málsl. kemur: 300.000 kr.

11. gr.

    Á undan 12. gr. laganna kemur ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

Bann við nafnlausum áróðri.

    Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Stjórnmálasamtök, kjörnir fulltrúar þeirra og frambjóðendur, sem og frambjóðendur í persónukjöri, sem taka þátt í að fjármagna eða birta efni eða auglýsingar í tengslum við stjórnmálabaráttu án þess að fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra, sbr. 12. gr., skulu sæta sektum.
     b.      Í stað orðanna „1. eða 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1.–3. mgr.

13. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna orðast svo: Gagnsæi í stjórnmálabaráttu, viðurlög og gildistaka.

14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði laga þessara er varða breytt reikningsskil og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka, sbr. b-lið 6. gr. og 8. gr., koma til framkvæmda við reikningsskil stjórnmálasamtaka árið 2020, fyrir reikningsárið 2019. Stjórnmálasamtök skulu haga reikningsskilum sínum árið 2019, fyrir reikningsárið 2018, eftir þeim reglum sem voru í gildi fyrir gildistöku laga þessara.