Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 780, 149. löggjafarþing 221. mál: útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar).
Lög nr. 149 21. desember 2018.

Lög um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar).


I. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.

1. gr.

     4. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. skulu mál ákvörðuð í samræmi við 1. mgr. ef formaður telur að efnislegur vafi sé á hvort 36. gr. eða 1. eða 2. mgr. 37. gr. eigi við.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „Þjóðskrá Íslands“ í 1. mgr. kemur: barnaverndaryfirvöldum.
  2. Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnunum skv. 1. mgr. er heimilt að samkeyra og miðla persónuupplýsingum til að tryggja hagsmuni barns við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og lögreglu við framkvæmd ákvarðana samkvæmt lögum þessum.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 28. gr. laganna:
  1. Orðin „í tvígang“ í 1. málsl. falla brott.
  2. 2. málsl. orðast svo: Forsenda þess að beita megi þessu úrræði er að við boðun hafi Útlendingastofnun gert umsækjanda fullnægjandi grein fyrir afleiðingum fjarveru eigi hún sér ekki réttmætar ástæður.
  3. Lokamálsliður orðast svo: Boðað skal til viðtals með sannanlegum hætti.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Heimild til dvalar þegar umsækjandi er undanþeginn áritunarskyldu gildir þar til umsækjandi hefur dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a–c-liðar 1. mgr. gilda meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun getur veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn er í vinnslu.
  3. Í stað orðanna „skv. 3. mgr.“ í 5. mgr. kemur: skv. 1. og 3. mgr., m.a. um áhrif fyrri dvalar umsækjanda hér á landi á beitingu undanþáguheimilda.


5. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 74. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, geti hann sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá.
  2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Endurkomubann hefst þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða útlendingur fer af sjálfsdáðum af landi brott.


7. gr.

     Í stað orðanna „synja umsókn“ í 4. mgr. 103. gr. laganna kemur: framfylgja ákvörðun um synjun á umsókn.

8. gr.

     Á eftir 106. gr. laganna kemur ný grein, 106. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stjórnvald og undirbúningur máls.
     Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun við komu til landsins skv. a–j-lið 1. mgr. 106. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt þessum kafla.
     Lögregla undirbýr mál sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun um. Nú telur lögregla skilyrði vera til að vísa útlendingi frá landi eða úr landi og sendir hún þá Útlendingastofnun gögn málsins til ákvörðunar.

9. gr.

     Á eftir 4. mgr. 114. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Úrskurðir héraðsdóms samkvæmt þessari grein sæta kæru til Landsréttar. Um málskotið fer samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000, með síðari breytingum.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „a-lið 1. mgr. 20. gr.“ í 1. tölul. kemur: a-lið 1. mgr. 98. gr.
  2. Í stað orðanna „b-, c- eða d-lið 1. mgr. 20. gr.“ í 2. tölul. kemur: b-, c- eða d-lið 1. mgr. 98. gr.


11. gr.

     Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: tollgæslan við eftirlit á landamærum og þegar hún annast eða aðstoðar við löggæslu.

12. gr.

     A-liður 11. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2018.