Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 787  —  254. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um verkefni þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staða þeirra verkefna sem skilgreind voru í þingsályktun nr. 56/145, um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, sem samþykkt var á Alþingi 7. september 2016?

    Framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi 7. september 2016 og gildir til ársloka árið 2019 skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Kaflar áætlunarinnar endurspegla markmið stjórnvalda á sviði jafnréttismála og er áhersla lögð á að öll ráðuneyti hafi hlutverki að gegna við framkvæmd hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti.
    Hér að neðan verður gerð grein fyrir stöðunni í nóvember 2018. Samantektin var gerð af jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins og byggist á svörum þeirra sem eru ábyrgðaraðilar einstakra verkefna innan viðkomandi ráðuneyta. Fyrir utan uppfærslu á stöðu verkefna verður gerð grein fyrir nokkrum jafnréttisaðgerðum í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda fyrir tímabilið 2016–2019 þar sem það á við og fyrir skipan stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

A. STJÓRNSÝSLAN
1. Jafnréttissjóður Íslands.
    Varið verði 100 millj. kr. af fjárlögum árlega til Jafnréttissjóðs Íslands. Jafnréttissjóður Íslands skal fjármagna eða styrkja verkefni sem eru til þess fallin að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki og úthlutar þessu fé í samræmi við þingsályktun nr. 13/144.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 100 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður með þingsályktun nr. 13/144 í tilefni af 100 ára kosningarréttarafmæli íslenskra kvenna 19. júní 2015. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 millj. kr. á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Forseti Íslands staðfesti 19. apríl 2016 samkvæmt tillögu forsætisráðherra forsetaúrskurð nr. 27/2016, um breytingu á forsetaúrskurði nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, með síðari breytingum. Samkvæmt úrskurðinum fer velferðarráðuneytið með málefni Jafnréttissjóðs Íslands. Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands var kosin á Alþingi 15. mars 2016. Stjórn Jafnréttissjóðs annast mat á umsóknum um styrki í samræmi við reglur sjóðsins og úthlutar hún úr sjóðnum 19. júní ár hvert. Þegar hefur verið úthlutað úr sjóðnum í þrígang, árin 2016, 2017 og nú síðast 2018.
    Árið 2016 bárust alls 114 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og rannsókna en heildarfjárhæðin sem sótt var um nam 570 millj. kr. Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti 42 umsækjendum styrk við hátíðlega athöfn í Iðnó. Samanlögð upphæð styrkja var tæplega 100 millj. kr.
    Árið 2017 bárust alls 85 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og rannsókna en heildarfjárhæðin sem sótt var um nam 420 millj. kr. Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti 26 verkefnum og rannsóknum samtals tæpar 100 millj. kr. við hátíðlega athöfn í Hörpu. Fjárhæðir styrkja námu allt frá hálfri millj. kr. og upp í 9,5 millj. kr., en það var hæsti styrkurinn.
    Árið 2018 bárust sjóðnum 85 umsóknir og alls var sótt um 520 millj. kr. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði við hátíðlega athöfn 28 styrkjum til verkefna og rannsókna sem ætlað er að efla kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Fjárhæðir styrkja námu í þetta skipti frá hálfri millj. kr. og upp í 10 millj. kr., en það var hæsti styrkurinn. Nánari upplýsingar um þau verkefni sem hlotið hafa styrki er að finna á vefsíðu Stjórnarráðsins sem og á síðu sjóðsins á Facebook.

2. Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjárlögum tímabundið til þriggja ára, 2017–2019, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs verkefna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Velferðarráðuneytið úthluti þessu fé að fengnum tillögum annarra ráðuneyta. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2016.
    Tímaáætlun: 2017–2019.
    Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Úthlutun fyrir árin 2016 og 2017, alls að fjárhæð 20 millj. kr., fór fram um mitt ár 2017 til eftirfarandi verkefna á vegum ráðuneytanna: Samstarfsverkefni innanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hlaut 3 millj. kr. styrk til að vinna að greiningu á kynbundinni notkun samgöngukerfisins, áhrifum þess á vinnusókn og á stöðu kvenna. Velferðarráðuneytinu var úthlutað styrkjum til tveggja verkefna, annars vegar 2 millj. kr. til framhaldsrannsóknar á launamun kvenna og karla fyrir árin 2014–2017 og hins vegar 2,5 millj. kr. til að rannsaka ástæður þess að fleiri konur en karlar vinna hlutastörf á íslenskum vinnumarkaði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið hlutu 4 millj. kr. í styrk til að tryggja þátttöku stelpna af landsbyggðinni í verkefninu Stelpur og tækni við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið hefur að markmiði að fjölga konum í tæknigreinum, verk- og raunvísindum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlutu 1,5 millj. kr. í styrk til þróunar sjálfsmatskvarða til að efla og meta jafnrétti í framhaldsskólastarfi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands fengu 1,5 millj. kr. styrk til að fræða leikskólakennara um kynja- og jafnréttiskennslu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna fengu 2 millj. kr. styrk til að rannsaka ástæður þess að konum hefur á undanförnum árum og áratugum fjölgað hraðar en körlum í háskólanámi og að námsval kynjanna er ólíkt. Samhliða verður staða kynjanna skoðuð almennt en einnig staða innflytjenda með greiningu á aðgengi þeirra að háskólanámi á Íslandi. Þá verða ástæður fyrir námsvali þeirra greindar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið fengu 1,5 millj. kr. í styrk til að framkvæma viðmælendagreiningu í fjölmiðlum (sjá nánar undir verkefni 11 um kyn og fjölmiðla). Loks fékk utanríkisráðuneytið 2 millj. kr. til rakarastofuverkefnisins sem hefur það að markmiði að efla þátttöku karla í jafnréttismálum. Var styrknum m.a. varið til að fjármagna fjölmenna ráðstefnu sem haldin var á vegum Norðurlandaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í samstarfi UN Women og Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðstefnan fjallaði um jafnrétti og vinnumarkað og möguleika kvenna og karla á samhæfingu fjölskylduábyrgðar og atvinnuþátttöku.
    Úthlutun fyrir árið 2017, að fjárhæð 10 millj. kr., fór fram í febrúar 2018. Að þessu sinni voru fimm verkefni styrkt. Utanríkisráðuneytið hlaut 2 millj. kr. styrk til þriggja verkefna, það er að segja rakarastofuráðstefna sem fjalla um aukna þátttöku karla í jafnréttismálum, verkefna sendiráða á sviði jafnréttismála og að lokum til að fjármagna gerð kynningarefnis um stöðu og þróun jafnréttismála. Úthlutað var 2 millj. kr. styrk til velferðarráðuneytisins til að fjármagna fræðsluferð jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins til að kynna sér samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í Svíþjóð. Velferðarráðuneytið fékk jafnframt styrk til að vinna í samstarfi við Jafnréttisstofu að rannsókn á áhrifum staðalmynda og karlmennskuhugmynda á náms- og starfsval sem og á áhrifum á brottfall drengja úr framhaldsskólum. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu var úthlutað 3 millj. kr. styrk til samstarfs við Háskólann í Reykjavík og Íþrótta- og Ólympíusambandið um rannsóknarverkefnið Jafnrétti í boltagreinum á Íslandi. Jafnframt var samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Háskólans í Reykjavík um stelpur og tækni úthlutað 1,5 millj. kr.

3. Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, sem gerð er í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og jafnréttisáætlanir einstakra ráðuneyta verði endurskoðaðar á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Við endurskoðun jafnréttisáætlana verði tekið mið af jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafi umsjón með endurskoðun og eftirfylgni jafnréttisáætlana í umboði ráðuneytisstjóra og í samstarfi við Jafnréttisstofu.
    Tímaáætlun: Árslok 2016.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta og velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Ný jafnréttisáætlun fyrir Stjórnarráðið var samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 30. mars 2017 og gildir hún í þrjú ár eða til 30. mars 2020. Jafnréttisáætlunin tekur til Stjórnarráðsins sem er sameiginlegur vinnustaður starfsfólks ráðuneytanna. Áætlunin kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Helsta breyting frá fyrri áætlun felur í sér innleiðingu jafnlaunakerfis á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85 sem og jafnlaunavottun sem ljúka skal fyrir 31. desember 2018. Þá eru í áætluninni markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf ráðuneytanna. Sérhvert ráðuneyti ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins innan sinna vébanda og er það hlutverk jafnréttisfulltrúa að tryggja að þeim verkefnum sem tilgreind eru í áætluninni sé fylgt eftir.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins er aðgengileg á vefsíðu þess. Jafnréttisstofa annast eftirlit með jafnréttisáætlunum stofnana ríkisins og upplýsir jafnréttisfulltrúa um stöðu mála hvað varðar verkefnið. Á starfsárinu 2017 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum stofnana ríkisins en hægt er að lesa nánar um verkefnið í ársskýrslum Jafnréttisstofu.

4. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnana séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun.
    Starf jafnréttisfulltrúa feli m.a. í sér:
     a.      Að útbúa starfsáætlun jafnréttisfulltrúa allra ráðuneyta með mælikvörðum sem verði tilbúnir innan hálfs árs frá gildistöku framkvæmdaáætlunarinnar.
     b.      Að fylgja eftir verkefnum framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og skila framvinduskýrslum til Jafnréttisstofu. Gera skal grein fyrir stöðu verkefna í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð er fyrir jafnréttisþing sem haldið er annað hvert ár.
     c.      Að móta heildstæða áætlun um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins.
     d.      Að vinna að samræmingu á rafrænni skráningu ráðuneytanna á skipan í nefndir, ráð og stjórnir til að auðvelda eftirlit með 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. til fræðslu jafnréttisfulltrúa og 300 þúsund kr. til aðlögunar tölvukerfis.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna starfa á grundvelli 13. gr. jafnréttislaga. Hinn 30. mars 2017 samþykktu ráðuneytisstjórar nýjar starfsreglur jafnréttisfulltrúa þar sem hlutverk þeirra var endurskoðað í samræmi við nýja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum auk þess sem samstarf við Jafnréttisstofu var gert formfastara en áður. Jafnréttisfulltrúar vinna samkvæmt starfsáætlun sem gildir til ársloka árið 2021. Í henni eru 14 verkefni sem eru útfærslur á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð jafnréttisfulltrúa. Jafnréttisfulltrúar funda mánaðarlega og hittast að jafnaði tíu sinnum á ári auk þess sem Jafnréttisstofa hefur skipulagt árlega fræðslufundi fyrir hópinn. Markmið starfsáætlunar og samráðsfunda jafnréttisfulltrúa er að skipuleggja og samhæfa störf jafnréttisfulltrúa og auðvelda þeim að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þeirra. Jafnréttisfulltrúar hafa skilað árlegri greinargerð til Jafnréttisstofu og tekið virkan þátt í gerð skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála. Hluti af greinargerðum jafnréttisfulltrúa eru gögn um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna sem Jafnréttisstofa nýtir við eftirlit með 15. gr. jafnréttislaga um skipan í stjórnir, ráð og nefndir. Þróun rafrænnar skráningar er ekki lokið. Varðandi c-lið er vísað í verkefni 5 um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða hér að neðan. Hinn 14. nóvember 2018 kom út skýrsla um störf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins á tímabilinu 2015–2017. 1

5. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forystu velferðarráðuneytisins heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Skipuð verði formlega verkefnisstjórn um verkefnið sem gert verði kleift að ráða sér starfsmann.
    Áætlunin taki mið af þeim samþættingarverkefnum sem þegar hafa verið unnin í ráðuneytunum, m.a. í tengslum við fyrri framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og áætlanir um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð.
    Í áætluninni felist m.a.:
     a.      Tillögur um innleiðingu kynjasamþættingar í starfsemi ráðuneytanna og stofnana ríkisins.
     b.      Tillögur um verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem tilraunaverkefni fyrsta árið og síðan ný verkefni á hverju ári.
     c.      Tillögur um gátlista um jafnréttismál sem fylgi stjórnarfrumvörpum og innleiðingu verkferils við jafnréttismat.
     d.      Tillögur um fyrirliggjandi kyngreindar upplýsingar til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er ábótavant og úrbætur gerðar.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. til framkvæmdar verkefna auk launa sérfræðings.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Fyrstu drög að heildstæðri innleiðingaráætlun um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins liggur fyrir. Einnig er vinna við kortlagningu á stöðu kyngreindra upplýsinga hafin í samstarfi við verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð og skrifstofu stefnumála í forsætisráðuneytinu.
    Drög að tillögum verkefnisstjórnar byggjast á kortlagningu á því sem fyrir er á sviði samþættingar, sbr. jafnréttismat á stjórnarfrumvörpum og kynjaðri fjárlagagerð og því sem hefur verið gert erlendis. Í ferlinu hefur samráð verið haft við aðila innan Stjórnarráðsins sem vinna m.a. að innleiðingu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og endurbótum á stefnumótunarferlum. Næsta skref er víðtækara samráð áður en endanleg áætlun verður lögð fram til kynningar í ráðherranefnd um jafnréttismál og til samþykktar í ríkisstjórn.
    Verkefnisstjórnin var skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra 28. desember 2017 og hélt fyrsta fund sinn 24. janúar 2018. Fram að þeim tíma hafði farið fram kortlagning á verkefnum ráðuneyta og ríkisstofnana sem unnin hafa verið innan ramma kynjaðrar fjárlagagerðar. Jafnframt hafa verið haldnir fjölmargir fundir, þ.m.t. upplýsinga- og samráðsfundir með jafnréttisfulltrúum Stjórnarráðsins og fulltrúum starfshópa sem vinna að kynjaðri fjárlagagerð, endurbótum á stefnumótunarferlum innan Stjórnarráðsins, þ.e. gerð skapalóna fyrir stöðumat og greiningu á málefnasviðum (Grænbók) og fyrir stefnu (Hvítbók) og innleiðingu laga um opinber fjármál. Einnig hafa verið haldnir fundir með erlendum sérfræðingum með það að markmiði að miðla þekkingu og reynslu á sviði samþættingar.
    Tveir fundir voru haldnir með íslenskum sérfræðingum sem koma beint eða óbeint að samþættingu hérlendis. Sá fyrri var haldinn 24. nóvember 2017 með Anne Marie Engtoft Larsen, sérfræðingi Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum), um fjórðu iðnbyltinguna og alþjóðlega stjórnun út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Sá síðari var haldinn 7. maí 2018 með Scherie Nicol og Pinar Guven, sérfræðingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. Organisation for Economic Co-operation and Development, OECD), um kynjaða fjárlagagerð og samþætta stefnumótun og ákvarðanatöku. Fundirnir sköpuðu tækifæri fyrir sérfræðinga, sem leiða mismunandi verkefni innan Stjórnarráðsins, til að kynna verkefni sín og bera saman bækur sínar, m.a. með hliðsjón af skörun og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Hinn 8. maí 2018 var haldinn fundur fyrir ráðuneytisstjóra og forstöðumenn ríkisstofnana til að kynna samþættingarverkefnið í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. Fyrir utan sérfræðinga, sem leiða umbótaverkefni innan Stjórnarráðsins á grundvelli laga um opinber fjármál og jafnréttislaga, voru frummælendur á fundinum Marcos Bonturi, yfirmaður stjórnsýsludeildar OECD (e. Directorate for Public Governance), og Tatyana Teplova, aðstoðardeildarstjóri og aðalsérfræðingur OECD á sviði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku. Á fundinum kynntu íslensku sérfræðingarnir þau umbótaverkefni sem unnið er að innan Stjórnarráðsins og OECD kynnti áherslur sínar á sviði gagnsærrar og lýðræðislegrar stjórnunar og stefnumótunar þar sem höfuðáhersla er lögð á greiningu út frá samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Samstarfið við OECD byggist á viljayfirlýsingu félags- og jafnréttismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra um samstarf Íslands og OECD sem undirrituð var í kjölfar fyrsta jafnréttisfundar OECD sem haldinn var árið 2017 á Íslandi. Formanni verkefnisstjórnar um samþættingu auk annarra fulltrúa frá Íslandi var síðan boðið að vera með erindi um samþættingarmál á öðrum jafnréttisfundi OECD sem haldinn var í Vín í júní 2018.
    Verkefnisstjórnin átti einnig fræðslufund með Boel Kristiansson, sérfræðingi jafnréttisstofu Svíþjóðar (e. Swedish Gender Equality Agency), um samþættingarmál innan sænska stjórnarráðsins og ríkisstofnana. Sá fundur var haldinn í tengslum við fagfund alþjóðasamtaka almannatryggingastofnana (e. International Social Security Association) sem haldinn var í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins og velferðarráðuneytið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og starfsemi á sviði almannatrygginga í lok maí árið 2018.

6. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.
    Unnið verði að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð samkvæmt innleiðingaráætlun til fimm ára. Fjármála- og efnahagsráðuneytið beri ábyrgð á verkefninu og skal því stýrt af verkefnisstjórn sem skipuð er fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa Jafnréttisstofu. Gerð verði grein fyrir stöðu verkefna í fjárlagafrumvarpi hvers árs. Verkefnisstjóri geri tillögur um eftirfylgni innleiðingaráætlunar með mælikvörðum fyrir öll ráðuneyti og vinni í nánu samstarfi við verkefnisstjórn um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Tímaáætlun: Viðvarandi verkefni.
    Kostnaðaráætlun: Laun sérfræðings í hálfu starfi.
    Ábyrgð: Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Verkefnið er framhaldsverkefni frá fyrri áætlun og hefur verið í gangi frá árinu 2009. Verkefnisstjórn kynjaðrar fjárlagagerðar vinnur nú einnig eftir lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, en markmið 18. gr. laganna er að færa kynjaða fjárlagagerð nær ákvarðanatökuferlinu. Það þýðir að horfa verður til kynjasjónarmiða við ákvarðanir um öflun og ráðstöfun opinbers fjár. Rík áhersla er lögð á samþættingu jafnréttissjónarmiða við fjármálaáætlun og fjárlagagerð og fer sú vinna fram í skrefum. Stöðu innleiðingar eru gerð skil bæði í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi hvers árs.
    Öll ráðuneyti hafa skipað stýrihópa um kynjaða fjárlagagerð og í þeim eru aðilar sem bera ábyrgð á ólíkum þáttum innleiðingarinnar og þeim verkefnum sem ráðuneytin beita sér fyrir og koma að. Árið 2018 var lögð áhersla á að uppfæra áætlun kynjaðrar fjárlagagerðar, greiningu á kynjaáhrifum málefnasviða og samþættingu jafnréttissjónarmiða við áætlanagerðina með vinnu við jafnréttismat á aðgerðum. Hinn 26. október sl. var samþykkt í ríkisstjórn fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem gildir til ársins 2023. Ísland gegnir jafnframt leiðandi hlutverki í sérfræðinganefnd OECD-ríkja í kynjaðri fjárlagagerð. Verkefnisstjóri kynjaðrar fjárlagagerðar heldur utan um og fylgir eftir áætlunum í nánu samstarfi við viðeigandi aðila.

7. Úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála.
    Skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem stýri úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi. Starfshópur skili skýrslu til ráðherra um niðurstöður sínar og leggi fram tillögur um úrbætur.
    Tímaáætlun: 2016–2018.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sérfræðinga til að undirbúa heildarendurskoðun laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og endurskoðun stjórnsýslu jafnréttismála. Meginhlutverk hópsins er að undirbúa endurskoðun laganna með hliðsjón af því hvort markmið núgildandi laga sé í samræmi við breytingar í íslensku samfélagi og alþjóðlega þróun og gera úttekt á stjórnsýslu jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði. Starfshópurinn á að skila skýrslu til ráðherra haustið 2018 um þörf fyrir endurskoðun laganna og úrbætur varðandi stjórnsýslu jafnréttismála. Á grundvelli skýrslunnar mun ráðherra skipa samráðshóp stjórnvalda, samtaka aðila vinnumarkaðarins, samtaka kvennahreyfingarinnar og annarra er hagsmuna hafa að gæta um endurskoðun jafnréttislaga og mun hann skila drögum að frumvarpi nýrra heildarlaga og tillögum um framtíðarskipan stjórnsýslu jafnréttismála til þverpólitískrar nefndar sem lýkur verkefninu.
    Starfshópinn skipa sjö sérfræðingar (starfsmenn velferðarráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu) og fundar hann með öðrum sérfræðingum eftir þörfum, svo sem úr háskólasamfélaginu, frá aðilum vinnumarkaðarins og frjálsum félagasamtökum og fleirum.
    Hópurinn hefur komið saman fimm sinnum frá því um áramótin 2017–2018 og fengið á sinn fund ýmsa sérfræðinga á sviði jafnréttismála. Undanfarnar vikur hefur m.a. verið unnið að samanburðarrannsókn innan velferðarráðuneytisins um jafnréttislöggjöf og stjórnsýslu jafnréttismála á hinum Norðurlöndunum, í Bretlandi og í Kanada.

B. VINNUMARKAÐUR – LAUNAJAFNRÉTTI KYNJA
8. Jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja. Í lok 2016 verði metið hvort verkefni aðgerðaáætlunarinnar hafi náð markmiðum sínum. Verkefni á sviði launajafnréttismála feli m.a. í sér eftirfarandi:
     a.      Skipunartími framkvæmdanefndar um launajafnrétti verði framlengdur til 2019.
     b.      Unnið verði að útbreiðslu og innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012, jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar.
     c.      Fram fari markvisst kynningarstarf á faggildri vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.
     d.      Velferðarráðuneytið safni upplýsingum um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana og birti yfirlit í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem gefin er út annað hvert ár.
     e.      Rannsóknarverkefnum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti verði fylgt eftir með vitundar- og kynningarátaki stjórnvalda um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
     f.      Ríkisstjórnin samþykki að halda árlega jafnlaunadag sem nýttur verði til vitundarvakningar um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.
     g.      Unnin verði framkvæmdaáætlun um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval. Sérstaklega verði hugað að því að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísindum og körlum í umönnunar- og kennslustörfum.
     h.      Unnin verði framkvæmdaáætlun um leiðir til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 7 millj. kr. árlega.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Hinn 24. október 2016 kynnti aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti tillögugerð sína um framtíðarstefnu stjórnvalda í jafnlaunamálum. Í skýrslu sem fylgdi tillögugerðinni var farið yfir störf hópsins og niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á starfstíma aðgerðahópsins. Tillögur hópsins byggjast m.a. á þeim niðurstöðum og fela í sér skilgreiningar á verkefnum sem hópurinn er sammála um að ráðast þurfi í til að uppræta launamun kynjanna. Drög aðgerðahópsins að framtíðarstefnu stjórnvalda má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins. 2 Verkefni um jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja í framkvæmdaáætlun stjórnvalda eru mislangt á veg komin enda um mörg og viðamikil verkefni að ræða. Jafnlaunavottun á grundvelli staðalsins ÍST 85 um jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar var gerð skyldubundin fyrir fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri með lögum nr. 56/2017, um jafnlaunavottun, sem samþykkt voru á Alþingi 1. júní 2017. Lögin tóku gildi 1. janúar 2018. Löggjöfin kveður á um eftirlit Jafnréttisstofu, sem m.a. er falið að hafa eftirlit með vottun jafnlaunakerfa innan tímamarka laganna, en stofunni er einnig ætlað að afhenda jafnlaunamerkið og birta á vefsíðu sinni lista yfir þá aðila sem hlotið hafa vottun. Yfirlit yfir þá aðila sem þegar hafa fengið vottun er að finna á vefsíðu Jafnréttisstofu og jafnframt er fjallað um innleiðingu jafnlaunavottunar í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85 var árið 2017 samræmd lögum um jafnlaunavottun og voru sértæk viðmið (leiðbeinandi reglur) fyrir vottunaraðila vegna úttektar og vottunar jafnlaunakerfa sem og reglur um notkun jafnlaunamerkisins birt á vefsíðu velferðarráðuneytisins.
    Fræðslusetrinu Starfsmennt var með sérstökum samstarfssamningi við velferðarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið falið að halda námskeið til að auðvelda innleiðingu jafnlaunastaðalsins hjá stofnunum og fyrirtækjum. Námskeiðin hafa nú verið flutt til Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands en þau eru einna helst ætluð forstöðumönnum, mannauðsstjórum, gæðastjórum og öðrum þeim sem ætlað er að stýra eða gegna ábyrgðarhlutverki við innleiðingu staðalsins. Á námskeiðunum er fjallað um innleiðingu staðalsins, starfaflokkun, launagreiningu og skjölun í samræmi við kröfur staðalsins.
    Þá stendur velferðarráðuneytið, í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, reglulega fyrir þriggja daga námskeiði um vottun jafnlaunakerfa, sbr. ákvæði í reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana, sem kveður á um að ráðuneytið skuli sjá til þess að haldið sé námskeið fyrir úttektarmenn í jafnréttis- og vinnumarkaðsmálum sem þýðingu hafa fyrir vottun jafnlaunastaðalsins, þ.m.t. um starfaflokkun og launagreiningu fyrirtækja og stofnana. Í samræmi við reglugerð um vottun jafnlaunakerfa skulu úttektarmenn ljúka námskeiðinu með prófi og 1. einkunn. Námskeiðið skal halda á þriggja ára fresti og oftar ef þörf krefur. Ráðuneytið stóð fyrir námskeiði þessu bæði í desember 2017 og í október og nóvember 2018.
    Meginmarkmið námskeiðsins er að gera úttektarmenn færa um að taka út jafnlaunakerfi ólíkra fyrirtækja og stofnana og meta hvort þau uppfylla allar kröfur staðalsins ÍST 85, þ.m.t. varðandi starfaflokkun og launagreiningu fyrirtækja og stofnana.
    Þá stendur til að ýta úr vör vitundar- og kynningarátaki um aðgerðir gegn kynbundnum launamun en m.a. er í bígerð að halda sérstakan jafnlaunadag sem helgaður verður baráttunni fyrir launajafnrétti kynjanna. Aðgerðahópur um launajafnrétti hefur árlega staðið fyrir opnum fundum eða ráðstefnum um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Á jafnréttisþingi 2018 var sérstök málstofa um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði þar sem fjallað var um niðurstöður nýrrar launarannsóknar, samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs, fæðingarorlof og foreldramenningu. Rannsókn Hagstofu Íslands sem unnin var fyrir aðgerðahóp um launajafnrétti leiðir í ljós að úr launamun kynjanna dró á árabilinu 2008–2016. Rannsóknin byggist á gagnasafni Hagstofunnar með 615.000 athugunum á launum einstaklinga á aldrinum 18–67 ára yfir allt tímabilið og nær rannsóknin bæði til almenns og opinbers hluta vinnumarkaðarins. Nánari umfjöllun og niðurstöður má finna í skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra á vefsvæði velferðarráðuneytisins 3 og í hagtíðindum Hagstofunnar um rannsókn á launamun kynjanna 2008–2016. 4
    Þessu til viðbótar má benda á að Hagstofan er að vinna launakönnun samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið sem grundvallast á aðgerð D.2 í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda 2016–2019. Skoðað verður hvort innflytjendur fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir jafnverðmæt störf. Breyturnar varða m.a. kyn innflytjenda og niðurstöður verða birtar í byrjun árs 2019.

9. Fæðingarorlof.
    Megintillögur starfshóps að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum verði nýttar sem leiðarljós við endurreisn fæðingarorlofskerfisins. Unnið verði að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar.
    Tímaáætlun: 2016–2021.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Við endurreisn fæðingarorlofskerfisins hafa stjórnvöld lagt áherslu á að hækka hámarksgreiðslur til foreldra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs í því skyni að auka líkur á að foreldrar, ekki síst feður, fullnýti rétt sinn til orlofs. Er með þessu verið að undirbúa að lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs geti orðið hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að brúa bilið milli fæðingarorlofs foreldra og leikskólavistar barna. Þykja hækkanir á hámarksgreiðslum til foreldra í fæðingarorlofi nauðsynlegar í þessu sambandi þar sem sú aðgerð að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs þykir ekki nýtast sem skyldi í framangreindum tilgangi nema foreldrar sjái sér fjárhagslega fært að nýta rétt sinn. Í ljósi þessa hafa hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi verið hækkaðar úr 500.000 kr. á mánuði í 520.000 kr. á mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Þá er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019 gert ráð fyrir að hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi hækki enn frekar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2019 eða síðar.

10. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna verði fram haldið. Markmið sjóðsins verði áfram að styðja nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið verði unnið í samstarfi við fjármálastofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við framkvæmd verkefna.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 60 millj. kr. Fjármagn er til í sjóði.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Reykjavíkurborg.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Markmið Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna er að styðja við bakið á konum sem eiga fyrirtæki og auka aðgang þeirra að fjármagni. Sjóðurinn er í eigu velferðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins). Hinn 9. júní 2015 var skrifað undir nýtt samkomulag og samstarfssamning vegna Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna og var starfstímabil sjóðsins til 31. desember 2018.
    Hægt er að sækja um lánatryggingu að hámarki 10 millj. kr. að jafnaði en stjórn er þó heimilt að víkja frá þeirri reglu. Einungis fyrirtæki í eigu kvenna geta sótt um lánafyrirgreiðslu.
    Sjóðurinn er í samvinnu við Landsbankann sem veitir lánin. Hægt er að sækja um lánatryggingu allt árið um kring en afgreitt er úr sjóðnum tvisvar á ári, að vori og hausti. Árin 2015–2017 bárust alls 38 umsóknir (sjö í vinnslu) en fimm umsóknir voru samþykktar á þessu tímabili. Svanni heldur úti vefsíðu, atvinnumalkvenna.is, og þar má nálgast umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar um verkefnið.

C. KYN OG LÝÐRÆÐI
11. Kyn og fjölmiðlar.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar beiti mennta- og menningarmálaráðuneytið sér fyrir framkvæmd könnunar á aðgengi og birtingarmyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og vinni að stefnumótun á þessu sviði.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna aðgengi kvenna og karla að mismunandi fjölmiðlaefni.
     b.      Að kanna hvort og hvernig umfjöllun um konur og karla sé lituð af staðalmyndum um kynhlutverk.
     c.      Að kanna umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu í fjölmiðlum.
     d.      Að vinna að stefnumótun og vitundarvakningu meðal fjölmiðla.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. með fyrirvara um að fjárframlög fáist til verkefnisins.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið fengu styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til að gera viðmælendakönnun út frá kyni. Jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins leiddi vinnuna í samstarfi við fjölmiðlavakt Creditinfo, sem sá um söfnun gagna, og sjálfstætt starfandi fjölmiðlafræðing og kynjafræðing frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem greindu gögnin. Könnunin náði til frétta- og þáttagerðar útvarps og sjónvarps tveggja stærstu fjölmiðlanna hérlendis, RÚV og 365 miðla. Könnunin fól í sér útvíkkun á sambærilegri könnun sem birt var í skýrslu félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir tímabilið 2013–2015. Helsti munurinn var að tímabilið sem var skoðað var lengra eða frá 1. september 2010 til 31. ágúst 2016. Tilgangurinn var að fá betri yfirsýn yfir hlutdeild karla og kvenna sem viðmælenda í þeim fréttatímum og þáttum sem tilgreindir voru auk þess sem efnisflokkagreining var gerð út frá kyni en var það ekki í fyrri könnun. Markmið greiningarinnar var að skoða hversu mikinn þátt fjölmiðlar eiga í því að viðhalda eða breyta hefðbundnum staðalmyndum karla og kvenna út frá vali á viðmælendum og efnisvali með vísan í markmiðskafla laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem kveður á um að markmiði laganna skuli náð með því að „breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla“, og með vísan í 23. gr. laga um fjölmiðla þar sem m.a. er kallað eftir skýrslugjöf um birtingarmyndir kynjanna, þ.m.t. hlutfall karla og kvenna í hópi viðmælenda í fréttum og fréttatengdu efni; starfsfólk á fjölmiðlum, fjölda kvenna og karla, greint eftir starfsheitum; og aðgerðir fjölmiðlaveitunnar til að vinna gegn staðalmyndum kynjanna. Niðurstöðurnar voru kynntar á jafnréttisþingi 7. mars 2018 og þær birtar í skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála fyrir tímabilið 2015–2017. 5
    Eins og stendur er verið að gera áætlun um frekari rannsóknir og kannanir á árunum 2018– 2019 í samvinnu við fjölmiðlanefnd, sbr. liði b, c og d. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum þegar þær birtast og þær síðan teknar saman í árslok 2019. Í þessum rannsóknum verða fréttir og fréttatengt efni athugað út frá mörgum mismunandi sjónarhornum, þar á meðal hvort og hvernig misræmi er í umfjöllun fjölmiðla um íþróttir kvenna og karla, hlutfallslega skiptingu milli kynja og fleira.

12. Greining á stöðu flóttamanna og hælisleitenda út frá kyni og jafnrétti kynja.
    Innanríkisráðuneytið beri á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar ábyrgð á framkvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flóttamanna út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvort fullnægjandi tillit sé tekið til jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða í íslenskri löggjöf og framkvæmd, m.a. með hliðsjón af kyni, kynhneigð eða kynímynd, viðkvæmum einstaklingum, þolendum ofbeldisbrota og mansals.
     b.      Að setja fram tillögur að úrbótum til að tryggja hælisleitendum og flóttamönnum sanngjarna málsmeðferð og viðeigandi vernd.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 3,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Unnin var greining á þágildandi útlendingalögum er varðar kyn og kynjaðar breytur í umsóknarferli um málsmeðferð og alþjóðlega vernd. Gerðar voru tillögur að breytingum á löggjöfinni með tilliti til þessara þátta við frumvarpsvinnu nýrra útlendingalaga sem tóku gildi 1. janúar 2017. Breytingarnar sneru m.a. að vinnslu nýs kafla um málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd. Tillögur voru gerðar í samræmi við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og byggjast á reynslu annarra Norðurlandaþjóða. Þeirri vinnu lauk þegar frumvarpsdrögum var skilað og frumvarpið varð að lögum.

D. KYNBUNDIÐ OFBELDI OG OFBELDI Í NÁNUM SAMBÖNDUM
13. Samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Velferðarráðuneytið hafi yfirumsjón með samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Markmið verkefnisins verði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og að styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Auk samvinnu milli stofnana verði rík áhersla lögð á samvinnu við frjáls félagasamtök.
    Verkefnið feli m.a. í sér:
     a.      Að efna til samráðs á landsvísu með það að markmiði að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og styrkja samstarf við rannsókn mála.
     b.      Að undirbúa á vettvangi landssamráðsins aðgerðaáætlun til fjögurra ára.
     c.      Að efla getu og hæfni lögreglu við uppljóstrun ofbeldisbrota svo að tryggja megi skjóta og örugga málsmeðferð.
     d.      Að auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins.
     e.      Að styrkja velferðarþjónustuna við að veita þolendum ofbeldis uppbyggilegan stuðning og vernd.
     f.      Að veita gerendum ofbeldis aðstoð við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo að draga megi úr ofbeldi.
     g.      Að auka fræðslu- og forvarnastarf sem byggist á rannsóknum og faglegri þekkingu.
    Tímaáætlun: 2016–2018.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Félags- og jafnréttismálaráðherra mælti á haustþingi 2018 fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Tillagan er samstarfsverkefni fjögurra ráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Tillögunni er skipt í þrjá hluta sem lúta að vakningu með áherslu á fræðslu og forvarnir, að viðbrögðum hvað varðar verklag og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og að valdeflingu sem snýst um samstarf og samhæfingu þeirra sem veita þolendum ofbeldis aðstoð og ráðgjöf. Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar eru: a) Að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið, b) að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvangi, á vinnustöðum og í stafrænum heimi, c) að stuðla að heildstæðari umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi, d) að þolendur eigi greiðan aðgang að upplýsingum, þjónustu og úrræðum án tafar í kjölfar ofbeldis, e) samstarf og samhæfing verði efld til muna í þjónustu við þolendur ofbeldis, m.a. á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Aðgerðirnar eru alls 28 talsins.
    Í þessu samhengi má líka benda á tvennt til viðbótar sem felur í sér skörun við þetta verkefni í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál. Í fyrsta lagi er stefnt að því að framkvæma aðgerð B.7 í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016–2019, um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi, nú í nóvember í samstarfi við Samtök um kvennaathvarf og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Verið er að ganga frá samningi þar að lútandi. Í öðru lagi má geta þess að í ársbyrjun 2018 skipaði forsætisráðherra stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi. Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Stýrihópurinn fylgir eftir aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og undirbýr gerð áætlunar í samstarfi við sveitarfélögin um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Jafnframt fylgir stýrihópurinn eftir innleiðingu Istanbúl-samningsins, samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þá er hópnum ætlað að hafa yfirlit yfir og samræma vinnu hópa sem skipaðir hafa verið á mismunandi sviðum innan stjórnsýslunnar í tilefni af #MeToo-byltingunni. Fulltrúi forsætisráðherra stýrir hópnum og starfsmaður dómsmálaráðuneytisins, sem vinnur að innleiðingu aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, er varaformaður hópsins. Starfshópurinn skilaði af sér verkefnisáætlun til þriggja ára 1. september 2018.

14. Heimilisfriður.
    Meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum, sem sálfræðingar hafa veitt um árabil samkvæmt samningi við stjórnvöld, verði endurskoðað á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Endurskoðun hafi að markmiði að verkefnið bjóði upp á sérhæfða þjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum. Efnt verði til útboðs um þjónustuna á grundvelli kröfulýsingar og í framhaldi verði gerður þjónustusamningur til reynslu í tvö ár. Í þjónustusamningi skal m.a. gerð krafa um sérþekkingu starfsfólks á málaflokknum, reglulega miðlun upplýsinga til ráðuneytisins og möguleika á bæði einstaklings- og hópmeðferð.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega í fjögur ár.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Gengið var til samninga við Heimilisfrið en þaðan barst eina umsóknin í opnu ferli sem Ríkiskaup höfðu umsjón með fyrir hönd ráðuneytisins. Þar er nú verið að veita þessa þjónustu. Gerður var samningur til eins árs sem rennur út um mitt ár 2018. Samkvæmt ákvæðum samningsins veitir ráðuneytið öllum þeim sérfræðingum sem að verkefninu koma styrk til þjálfunar eða endurmenntunar erlendis á samningstímabilinu til að styrkja þekkingu þeirra og stuðla að þróun þjónustunnar og frekari gæðum hennar.

E. JAFNRÉTTI Í SKÓLASTARFI
15. Jafnrétti í skólastarfi.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar yfirumsjón með eftirfarandi verkefnum:
     a.      Eflingu jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum þar sem áhersla verði lögð m.a. á jöfn tækifæri til starfsnáms.
     b.      Að jafna þátttöku kynja í félagslífi framhaldsskólanna.
     c.      Að koma á samstarfi við jafnréttisnefnd Kennarafélags Íslands um leiðir til að efla jafnréttisstarf í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
     d.      Að efla samstarf jafnréttisfulltrúa íslenskra háskóla með árlegum fræðslufundum sem ráðuneytið sjái um.
     e.      Framkvæmd rannsóknar á stöðu kynjamenningar í háskólum.
     f.      Gerð aðgerðaáætlunar gegn mismunun og staðalmyndum í háskólasamfélaginu.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 7,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til samstarfsverkefnis með jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands um námskeið fyrir leikskólakennara þar sem þeim verður veitt fræðsla um mikilvægi kynja- og jafnréttiskennslu, stöðuna í jafnréttismálum um þessar mundir og sömuleiðis hagnýtar upplýsingar um námsefni sem hentar nemendum í leikskóla. Fyrri hluti kennslunnar verður í höndum kennara með reynslu af jafnréttis- og kynjafræðikennslu en í síðari hluta koma kennarar með reynslu af jafnréttiskennslu og/eða þekkingu á námsefni í kynja- og jafnréttiskennslu fyrir kennara yngri nemenda.
    Einnig fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til þróunar sjálfsmatsmælikvarða sem framhaldsskólar geta notað til að meta stöðu jafnréttismála og til þess að ýta undir meðvitund allra aðila skólans um jafnréttismál. Mælikvarðanum er ætlað að hjálpa kennurum að meta stöðu jafnréttismála í eigin kennslu og ýta sérstaklega undir meðvitund þeirra um jafnrétti sem grunnþátt. Sjálfsmatsmælikvarðinn verður prófaður í tveimur framhaldsskólum á haustönn 2017 og síðan settur upp sem aðgengilegt verkfæri fyrir skóla til að meta og efla faglegt jafnréttisstarf.
    Efling starfsnáms hefur verið í hefðbundnum farvegi með áherslu á starfskynningar en með styrk sem fékkst úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála hefur áhersla verið lögð á framhaldsnám og kynningar fyrir stelpur í 10. bekk á tækifærum framhaldsnáms í tölvunarfræði, verkfræði og öðrum raungreinum. Um er að ræða samstarfsverkefni með Háskólanum í Reykjavík og aðgerðahópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti á vegum velferðarráðuneytisins þar sem fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins á einnig sæti.
    Samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna hefur það að markmiði að auka vitund og þekkingarmyndun á málaflokknum innan háskólasamfélagsins. Unnið er með jafnréttisfulltrúum háskóla, m.a. við undirbúning jafnréttisdaga í háskólum og með stjórn Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til að framkvæma rannsókn á stöðu kynmenningar við val á námsgrein í háskólum og skrifa greinar út frá niðurstöðum. Markmiðið er að auka þekkingu á ástæðum þess að konum hefur á undanförnum árum og áratugum fjölgað hraðar en körlum í háskólanámi og námsval kynjanna er ólíkt. Skoða á ástæður ólíks námsvals kynjanna á háskólastigi en einnig verður litið til sjónarmiða kyns og fjölmenningar. Þannig á að skoða í sömu andrá stöðu kynjanna almennt en einnig innflytjenda með því að greina aðgang þeirra að háskólanámi á Íslandi og ástæður fyrir námsvali.

16. Jafnrétti við úthlutanir úr sjóðum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Í framhaldi af tilraunaverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð um útdeilingu fjármagns úr opinberum samkeppnissjóðum verði niðurstöðum fylgt eftir, m.a. með því að breyta umsóknar- og vinnureglum sjóðanna til að gæta jafnréttis og uppfylla kröfur um jafnt aðgengi kynja að fjármagni. Jafnframt verði unnið að því að tryggja jafnt aðgengi kvenna og karla að listamannalaunum og úthlutunum úr Kvikmyndasjóði.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Ráðuneytið hefur unnið með Rannís að breytingu á umsóknum þannig að kyngreina megi fleiri þætti sem tekið verði tillit til við val á verkefnum sem hljóta styrki ásamt því að veita ítarlegar kyngreindar upplýsingar um úthlutanir. Einnig hefur verið unnið með stjórnum listamannalauna að endurbótum þannig að tryggja megi jafnan aðgang kynja að úthlutunum.
    Greinargerð var unnin 2017 um úthlutanir Kvikmyndasjóðs þar sem fram kemur að færri konur sækja um en karlar þrátt fyrir að þær fái styrki til jafns við þá. Niðurstaðan er að efla þurfi konur í öllum þáttum kvikmyndagerðar með því að bjóða nám og/eða verkefni í grunnskólum og framhaldsskólum sem hvetur til kvikmyndagerðar og með átaksverkefnum sem höfða eiga sérstaklega til stelpna og hvetur þær inn á þær námsbrautir sem fyrir eru í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi í von um að fleiri leggi í formlegt nám og skili sér í greinina. Reglum um Kvikmyndasjóð mætti breyta til að koma námskeiðum fyrir konur þar undir og síðan stórefla þann þátt til að valdefla konur. Fleiri leiðir hafa verið nefndar og verður áfram unnið að því að finna þeim farveg svo að auðveldara verði að stuðla að jöfnum tækifærum kynja í allri kvikmyndagerð á komandi árum.

17. Þátttaka kvenna í íþróttastarfi.
    Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði þátttaka kvenna í íþróttum efld. Aðgerðir miði að því að konur hætti síður iðkun íþrótta á unglingsárum, taki þátt í stjórnum íþróttafélaga til jafns við karla, verði virkari sem þjálfarar og dómarar sem og í öllu íþróttastarfi. Umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum verði skoðuð.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Samstarf hefur verið við fræðslusvið Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og íþróttafræðisvið Háskólans í Reykjavík þar sem boðið er upp á grunnnám í íþróttafræðum. Meðal annars er haldið úti Facebook-síðunni Kynjajafnrétti í íþróttum á vegum sviðsins. Sérfræðingar í Háskólanum í Reykjavík rannsaka nú stöðu jafnréttismála í íþróttum hér á landi. Skoðað er hvaða reglur gilda um jafnrétti kynjanna í íþróttum, hvort styrktaraðilar leggi jafnréttisviðmið til grundvallar fjárveitingum og hver staða jafnréttismála sé innan íþróttasambanda og félaga. Markmiðið er að varpa ljósi á núverandi stöðu kynjanna á sviði sem lítt hefur verið rannsakað. Skoðað er hvernig rannsóknin geti komið að beinu gagni til að efla vinnu ráðuneytisins að íþróttamálum og fræðslustarfi ÍSÍ. Styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála til rannsóknar á stöðu kynja og minnihlutahópa í íþróttum og ýmsum störfum sem tengjast íþróttastarfi, svo sem setu í stjórnum, þjálfun og dómgæslu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað í lok árs 2017 að láta kanna hvernig leitast er við að koma til móts við drengi og stúlkur í skólaíþróttum. Ákveðið var að skoða framkvæmd íþróttakennslu og viðhorf starfandi íþróttakennara í grunnskólum til tiltekinna þátta sem tengjast kennslunni. Íþróttakennarar í 30 skólum svöruðu spurningum sem m.a. voru valdar með hliðsjón af meistararitgerðinni „Gender Issues in Physical Education“ sem Sarah Smiley skrifaði við Háskólann á Akureyri árið 2015. Einnig var tekið mið af áherslum í síðustu framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að ástæða sé til að skoða betur hvort lágmarksviðmiðum sé fullnægt um skipulagða hreyfingu skólabarna og að reynsla nemenda af skólaíþróttum á unglingsárum hafi áhrif á hreyfingu eftir að grunnskólagöngu lýkur. Einnig kom fram að skoða þyrfti hvernig skipulag íþrótta hentaði nemendum best með hliðsjón af aðstæðum, kyni, aldri, viðfangsefni, kennsluaðferð og námsmati.

F. KARLAR OG JAFNRÉTTI
18. Karlar og jafnrétti.
    Tillögum nefndar um karla og jafnrétti sem skipuð var á grundvelli framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum 2011–2014 verði hrint í framkvæmd. Markmið stefnumótunar og verkefna verði að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og að kanna hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla. Skipa skal formlega aðgerðahóp um verkefnið. Með hópnum starfi sérfræðingur á sviði jafnréttismála í velferðarráðuneytinu.
    Helstu verkefni á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að kanna hvernig auðvelda megi körlum samhæfingu ábyrgðar á fjölskyldu- og atvinnulífi.
     b.      Að efna til vitundarvakningar um áhrif karlmennskuhugmynda á heilsu og lífsgæði karla. Hugað verði sérstaklega að því hvort karlar fari á mis við þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
     c.      Að rannsaka áhrif staðalmynda og karlmennskuhugmynda á náms- og starfsval drengja.
     d.      Að kanna tengsl milli námsvals og brottfalls drengja úr framhaldsskólum og háskólum.
     e.      Að mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirbúi og hrindi í framkvæmd sérstöku átaksverkefni með það að markmiði að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á grundvelli framkvæmdaáætlunar um uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega í þrjú ár.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Félags- og jafnréttismálaráðherra sendi út tilnefningarbréf í október 2018 til að skipa aðgerðahóp um verkefnið Karlar og jafnrétti. Gert er ráð fyrir að aðgerðahópurinn verði skipaður fulltrúum frá heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri, Félagi leikskólakennara, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Sérfræðingur Jafnréttisstofu mun starfa með aðgerðahópnum. Jafnréttisstofa hefur unnið verkefnislýsingu fyrir aðgerðahópinn. Vegna tafa við framkvæmd verkefnisins og þeirrar þróunar og vinnu sem hefur átt sér stað síðan 2016 og í kjölfar #MeToo-byltingarinnar var talið nauðsynlegt að fækka verkefnum aðgerðahópsins og sníða þau að umræðu í samfélaginu um kynferðislega og kynbundna áreitni.
    Viðfangsefni aðgerðahópsins skiptist í fjóra meginþætti sem felast í að: (1) Vinna að heildstæðri aðgerðaáætlun stjórnvalda, m.a. á grundvelli tillagna nefndar um karla og jafnrétti frá 2013. Áætlunin fjalli sérstaklega um hvernig stefnumótun stjórnvalda á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla og drengja og fjalli um aðgerðir er snúa að þátttöku karla og drengja á sviði jafnréttismála, að fæðingarorlofstöku feðra, bættum möguleikum karla á samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs og einnig að aðgerðum um uppbrot kynbundins náms- og starfsvals með tilliti til brottfalls karla úr námi á efri skólastigum. (2) Gera tillögur um mælingar á viðhorfum drengja og karla til helstu viðfangsefna jafnréttismála með hliðsjón af erlendum viðhorfskönnunum. Kannað verði sérstaklega viðhorf og notkun karla á heilbrigðisþjónustu og hvort ákveðnir hópar karla fari á mis við þjónustuúrræði í heilbrigðismálum. (3) Gera tillögur um viðbrögð stjórnvalda við #MeToo-byltingunni. (4) Gera tillögur um aðgerðir til að efla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við þolendur og gerendur kynferðisofbeldis.
    Aðgerðahópurinn mun taka til starfa bráðlega og ljúka störfum og skila skýrslu með tillögum haustið 2019 til félags- og jafnréttismálaráðherra og ráðherranefndar um jafnréttismál þar sem m.a. skal gera grein fyrir stöðu þekkingar um karla og jafnrétti og setja fram tillögur að rannsóknum og aðgerðum. Horfa skal til fyrirmynda og stefnumótunar um karla og jafnrétti á Norðurlöndunum og til norræns samstarfs.

19. Þátttaka karla í jafnréttismálum.
    Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á hlutverk karla í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi.
    Í því felist m.a. eftirfarandi:
     a.      Að haldnar verði rakarastofuráðstefnur hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að í þeim tilgangi að fá karla til að axla ábyrgð á kynjajafnrétti.
     b.      Að halda uppi málflutningi af hálfu Íslands um þetta málefni hjá alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að og í tvíhliða samskiptum við önnur ríki.
     c.      Að hvetja íslenska karlmenn til að taka undir markmið HeForShe-herferðar UN Women í samræmi við skuldbindingar Íslands í IMPACT-átaki UN Women.
     d.      Að efla samvinnu innan íslenska stjórnkerfisins og við frjáls félagasamtök.
    Tímaáætlun: 2016–2017.
    Kostnaðaráætlun: 6 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis (tilgreint eftir stafliðum):
     a.      Frá því að framkvæmdaáætlunin var samþykkt hafa rakarastofuráðstefnur verið haldnar í París í Frakklandi á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), í Vín í Austurríki á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), í Reykjavík á vegum Eystrasaltsráðsins undir formennsku Íslands og í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina, og hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og Genf. Þá var haldin ráðstefna í Kaupmannahöfn á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í október 2017, forseti Alþingis stóð fyrir rakarastofuráðstefnu í samvinnu við utanríkisráðuneytið og landsnefnd UN Women í febrúar 2018 og haldin var rakarastofuráðstefna fyrir starfsfólk utanríkisráðuneytisins í október 2018. Þá er í undirbúningi rakarastofuráðstefna sem haldin verður í Alþjóðabankanum í Washington-borg. Áður höfðu slíkar ráðstefnur verið haldnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York, hjá öllum alþjóðastofnununum í Genf og hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Alls hafa nærri 2.000 manns sótt ráðstefnurnar frá upphafi. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2017, afhenti forsætisráðherra framkvæmdastýru UN Women verkfærakistu sem gerir öðrum kleift að skipuleggja rakarastofuráðstefnur og var hún opnuð samtímis á vefsíðu HeForShe-átaksins. Verkfærakistan var þróuð í samvinnu við landsnefnd UN Women á Íslandi.
     b.      Jafnrétti er þverlægt áherslumál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland beitir sér fyrir því að mannréttindi kvenna séu virt, þ.m.t. rétturinn yfir eigin líkama undir merkjum kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttinda; að konum sé tryggð jöfn þátttaka í öryggis- og friðarmálum og að tekið sé tillit til hagsmuna kvenna á átakasvæðum; að konur hafi jafnan ábata af alþjóðlegum viðskiptasamningum og svo mætti lengi telja. Þá eru jafnréttismál alltaf tekin upp tvíhliða í samræðum við ríki þar sem umbóta er þörf auk þess sem fulltrúar annarra ríkja leita í auknum mæli eftir upplýsingum og samráði við íslensk stjórnvöld um jafnréttismál.
     c.      Íslensk stjórnvöld eiga í samstarfi við landsnefnd UN Women um að hvetja karlmenn til að skrá sig sem stuðningsmenn HeForShe-átaksins. Forseti Íslands tók rétt fyrir áramótin 2017–2018 við kyndlinum sem fulltrúi verkefnisins á alþjóðavísu en alls eru tíu þjóðarleiðtogar, tíu forsvarsmenn alþjóðlegra fyrirtækja og tíu háskólarektorar forsvarsmenn verkefnisins. Tæplega 15.000 íslenskir karlar hafa skráð sig til þátttöku, þ.e. 1/ 8 hluti íslenskra karla.
     d.      Íslensk stjórnvöld vinna náið með innlendum félagasamtökum, t.d. í aðdraganda funda kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Utanríkisþjónustan vinnur einnig með fjölda erlendra félagasamtaka, m.a. við framkvæmd rakarastofuráðstefna og styrkti auk þess og kynnti alþjóðlega skýrslu ProMundo um stöðu feðra. Velferðar- og dómsmálaráðuneytin hafa einnig víðtækt samráð við innlend félagasamtök.

G. ALÞJÓÐASTARF
20. Staða jafnréttismála á norðurslóðum.
    Umræða um jafnréttismál á norðurslóðum verði efld og kastljósinu beint að stöðu kvenna og karla þar.
    Helstu verkefni á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Eftirfylgni alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í október 2014 á vegum utanríkisráðuneytisins, í samvinnu við Jafnréttisstofu, Norðurslóðanet Íslands og samstarfsríki innan Norðurskautsráðsins, um stöðu kynjanna á norðurslóðum.
     b.      Stofnun alþjóðlegs samstarfsnets um jafnréttismál á norðurslóðum og uppsetningu vefgáttar til að tengja saman ólíka hagsmunaaðila.
     c.      Að Ísland leggi áfram áherslu á jafnréttismál á vettvangi Norðurskautsráðsins á komandi árum sem byggist á niðurstöðum fyrrnefndrar ráðstefnuskýrslu.
    Tímaáætlun: 2016–2017.
    Kostnaðaráætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis: Haldnir hafa verið símafundir þeirra tengiliða sem tilnefndir hafa verið í hópinn af þátttakendum. Tekinn hefur verið saman stuttur útdráttur frá þeim fundum og verið er að safna saman upplýsingum um jafnréttisverkefni á norðurslóðum og áherslur í framhaldinu. Verkefninu miðar nokkuð vel áfram. Vefgátt samstarfsnets er komin í loftið og send hefur verið út beiðni um efni. Facebook-hópur hefur einnig verið stofnaður þar sem viðburðir tengdir tengslanetinu og verkefninu eru auglýstir. Gert er ráð fyrir að haldið verði áfram á sömu braut og tengslanetið styrkt.
    Þá hafa farið fram kynningar og umræður um stöðu mála í málstofum á Hringborði norðurslóða í Hörpu í október 2017; í Þórshöfn í Færeyjum í maí 2018; í Hörpu í október 2018; auk tveggja málstofa á ráðstefnu háskólanets norðurslóða, UArctic Congress, í Finnlandi í september 2018.
    Ísland mun halda áfram að leggja áherslu á jafnréttismál á vettvangi Norðurskautsráðsins og byggja framhaldið á fyrra starfi.

21. Kyn og loftslag.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og utanríkisráðuneytið fylgi eftir áherslum um mikilvægi kynjasjónarmiða í nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál.
    Verkefnið felist m.a. í eftirfarandi:
     a.      Að lögð verði áhersla á að alþjóðleg verkefni á sviði þróunarsamvinnu, sem Ísland veitir fjármagn til á sviði loftslagsmála, stuðli að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna.
     b.      Að samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða verði gætt við úthlutun fjármagns til verkefna á sviði loftslagsmála.
    Tímaáætlun: 2016–2019.
    Kostnaðaráætlun: Að fullu fjármagnað.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

     Upplýsingar um stöðu verkefnis (tilgreint eftir stafliðum):
     a.      Í aðdraganda Parísarsamningsins lagði utanríkisráðuneytið ríka áherslu á að tryggja þátttöku kvenna frá þróunarlöndum í loftslagsviðræðum og í því skyni voru á árunum 2010– 2014 veitt framlög í sjóð sem hefur að markmiði að auka hlut kvenna frá þróunarlöndum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál (e. Women Delegates Fund) sem og til loftslagsverkefnis á vegum UN Women. Markmiðið með þessum framlögum var að tryggja að kynjasjónarmiðum yrði komið á framfæri í alþjóðlegum samningaviðræðum og stefnumótun á sviði loftslagsmála. Konum frá þróunarlöndum var gert kleift að sækja loftslagsráðstefnur og fundi Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd landa sinna og hlutu einnig ýmiss konar þjálfun, m.a. í samningatækni, til að auka færni þeirra og hæfni í samningaviðræðum. Á undanförnum árum hefur átt sér stað töluverð vitundarvakning varðandi mikilvægi þess að konur taki þátt í loftslagsviðræðum og að rödd þeirra heyrist en hlutfall kvenna meðal þátttakenda í fundum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) fór úr 12% árin 2006–2007 í 35% árið 2015. Margt er þó óunnið í þessum efnum og mikilvægt að tryggja að kynjasjónarmiðum sé áfram komið á framfæri í alþjóðlegum samningaviðræðum og hugað að eftirfylgni Parísarsamningsins og stefnumótun á sviði loftslagsmála á næstu árum. Utanríkisráðuneytið ákvað því árið 2017 að hefja stuðning við sjóðinn að nýju með samningi til þriggja ára fyrir tímabilið 2017–2019. — Í kjölfar samþykktar Parísarsamningsins hefur utanríkisráðuneytið unnið að því að koma á fót samstarfsverkefnum um kyn- og loftslagsbreytingar og átt í viðræðum við ýmsa aðila þar að lútandi. Í þeirri vinnu hefur verið litið til núverandi samstarfsstofnana og áherslusvæða. Utanríkisráðuneytið á um þessar mundir í viðræðum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UN Environment) og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) um mögulegt samstarf á þessu sviði en þær viðræður eru þó á frumstigi. Fyrsta skrefið var að utanríkisráðuneytið fjármagnaði vinnufund í júní 2017 fyrir frumkvöðlakonur sem starfa við sjálfbæra orku í Afríku. Rúmlega 100 þátttakendur frá 24 Afríkulöndum sóttu fundinn sem haldinn var í tengslum við árlegan fund afrískra umhverfisráðherra (AMCEN) í Libreville í Gabon. Af vinnufundinum að dæma er ljóst að frumkvöðlakonur í orkugeiranum víða í Afríku standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Á sama tíma er einnig ljóst að mörg sóknarfæri eru til staðar, sér í lagi ef unnt er að nýta auð og framlag kvenna til fullnustu. Fundu þátttakendur fyrir miklum pólitískum stuðningi af hálfu afrískra ráðherra en vinnufundinn sóttu t.d. umhverfisráðherra og framkvæmdastjóri umhverfisstofnunar Síerra Leónes og umhverfisráðherra Gabons. Af niðurstöðum fundarins má nefna að þátttakendur mótuðu Libreville-yfirlýsingu (e. Libreville outcome statement) 6 sem var felld inn í ráðherrayfirlýsingu AMCEN 2017. Í beinu framhaldi af fundinum í Gabon, og með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, hleypti UNEP verkefni af stokkunum sem ber heitið African Women Energy Entrepreneurs Framework (AWEEF). 7 Verkefnið leiðir m.a. saman kvenfrumkvöðla í afríska orkugeiranum, orkustofnanir, ríkisstofnanir og fjármálastofnanir og miðar verkefnið að því að taka á þeim áskorunum og hindrunum sem koma í veg fyrir fulla þátttöku kvenna innan orkugeirans í álfunni. — Árið 2017 voru jafnframt veitt framlög til fjölþjóðlegra loftslagssjóða, svo sem sjóðs á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir fátækustu þróunarlöndin (UNFCCC LDCF), græna loftslagssjóðinn (GCF) og sjóð á vegum átaks Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku fyrir alla (SE4ALL). Þessir sjóðir halda allir kynjasjónarmiðum á lofti í stefnuritum og aðgerðaáætlunum. Í því samhengi má nefna að græni loftslagssjóðurinn gaf nýverið út handbók sem leiðbeinir samstarfsaðilum um hvernig eigi að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í loftslagsverkefnum. 8 Íslensk stjórnvöld studdu þar að auki við SE4ALL til að koma á fót samstarfsvettvangi (e. People-Centered Accelerator) sem ætlað er að stuðla að kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum á heimsvísu. Samstarfsvettvangurinn var kynntur á loftslagsráðstefnu í Bonn (COP23) og hafa bæði Landsvirkjun og Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tekið þátt í myndun þessa vettvangs. Í framhaldi af stofnun þessa vettvangs mun SE4ALL vinna ásamt samstarfsaðilum að því að kortleggja hagsmunaaðila á sviði orkumála og kynjajafnréttis og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum. Einnig er rétt að geta þess að Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem utanríkisráðuneytið veitir framlög til, hefur lagt sérstaka áherslu á að fjalla um hlut kvenna í loftslagsmálum og býður upp á námskeið sem miðar að því að byggja upp þekkingu og skilning á orsökum loftslagsbreytinga og áhrif þess á konur í þróunarlöndum.
     b.      Faglegt starf í loftslagsmálum fer að stærstum hluta fram í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, en utanríkisráðuneytið sér um að halda á lofti kynjasjónarmiðum í þróunarsamvinnu og alþjóðlegu samstarfi vegna loftslagsmála. Ábyrgð umhverfis- og auðlindaráðuneytisins samkvæmt verkefnalýsingu í verkefni 21 í framkvæmdaáætluninni er að gæta samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutun fjármagns til verkefna á sviði loftslagsmála. Sóknaráætlun í loftslagsmálum var samþykkt árið 2015 og fjármögnuð með 250 millj. kr. framlagi á ári í þrjú ár, 2016–2018. — Sóknaráætlun í loftslagsmálum var sett fram í aðdraganda 21. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í París í desember 2015. Í áætluninni eru sett fram 16 verkefni sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Með verkefnunum er lögð áhersla á samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs um að draga úr losun í tilteknum greinum og ýta undir nýsköpun og loftslagsvænar lausnir. Verkefnin í áætluninni eru viðbót við annað starf í loftslagsmálum en sóknaráætlunin er fyrsta heildstæða áætlunin í loftslagsmálum sem byggist á fjármögnuðum verkefnum. Markmið með þeim verkefnum sem sett voru af stað undir hatti áætlunarinnar er að stuðla að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í samræmi við Parísarsamkomulagið. Með einni undantekningu eru það ráðuneyti og stofnanir en ekki einstaklingar sem hljóta úthlutun fjármuna til verkefnanna og tengiliðir verkefna skiptast nokkuð jafnt milli kynja. Þó ber að geta þess að verkefnin eru yfirleitt unnin í samstarfi fleiri aðila og því fjölmargir sem koma að vinnslu þeirra. Árið 2017 var gerð óformleg úttekt sem leiddi í ljós að fjármagnið rann að mestu til stofnana en að kynjaskipting þeirra sem bera ábyrgð á og starfa að verkefnunum er nokkuð jöfn. 9 Það má því segja að ekki fari fram kerfisbundin samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutun fjármunanna en þó má taka fram að bæði karlar og konur koma að umsjón, ábyrgð og vinnslu verkefnanna. Konur jafnt sem karlar munu njóta góðs af þeim árangri sem hlýst af bættri stöðu í loftslagsmálum, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni bindingu kolefnis í andrúmslofti.

1     Skýrslan er aðgengileg á vef velferðarráðuneytisins: www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=e 5cf150d-33a7-11e6-80c7-005056bc217f&newsid=d74ca559-e81e-11e8-942f-005056bc530c
2     Sjá nánari upplýsingar á eftirfarandi vefslóð: www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/skyrslur2016/Tillogugerd_adgerdahopur_master_21102016_Loka.pdf
3     Sjá www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=33cbc9c1-217e-11e8-9429-005056bc530c
4     Sjá hagstofa.is/utgafur/nanar-um-utgafu?id=59402
5     Sjá bls. 75–83 í skýrslunni á vefslóðinni: www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=33cbc 9c1-217e-11e8-9429-005056bc530c
6     theargeo.org/WESE/outcome.pdf
7     aweef.theargeo.org/
8     Nánari upplýsingar er að finna á eftirfarandi vefslóð: www.greenclimate.fund/documents/20182/ 77885/gcf-toolkit-mainstreaming-gender/bb8aa893-db27-4d29-aba1-ff852e599504
9     Nánari upplýsingar um sóknaráætlunina er að finna á vefslóð ráðuneytisins: www.umhverfisrad uneyti.is/cop21/soknaraaetlun/