Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 788  —  317. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur um kennitöluflakk.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum sem verða uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín í þrot oftar en einu sinni í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar, til að mynda með þeirri aðferð að flytja eignir hins gjaldþrota félags yfir í nýtt félag en skilja skuldirnar eftir (kennitöluflakk)?

    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði, innleiða þurfi ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, vinna gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og efla vinnueftirlit. Ekki liggur fyrir lagaleg skilgreining á hugtakinu „kennitöluflakk“ en það er oftast notað um ákveðna misnotkun eigenda atvinnurekstrar í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum. Tjónið felst gjarnan í því að félög fara í gjaldþrot með skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega. Það skal áréttað að ætla má að einkum sé talað um kennitöluflakk þegar grunur er um ólöglegt atferli.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa undanfarin misseri haft til skoðunar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands frá júní 2017 um leiðir til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri. Afrakstur þeirrar vinnu eru m.a. drög að frumvarpi sem er í vinnslu og er stefnt að því að leggja það fram á Alþingi í febrúar 2019. Markmið frumvarpsins er að bregðast við misnotkun á hlutafélagaforminu, og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann.
    Þess ber að geta að í lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög er að finna ákvæði um hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn og framkvæmdastjóra slíkra félaga. Þar segir að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Missi stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri hæfi skulu þeir upplýsa hlutafélagaskrá um það. Hlutafélagaskrá hefur heimild til að afskrá stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra sem missa hæfi sem slíkir. Ákvæðinu er beitt í framkvæmd og er nú unnið að því að tryggja að hlutafélagaskrá, sem starfrækt er af ríkisskattstjóra, fái allar þær upplýsingar sem skráin þarf til að geta sinnt hlutverki sínu hvað skráningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra varðar.
    Á árinu 2016 voru gerðar breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, þar sem stigin voru skref til að bæta gagnsæi í viðskiptum, þ.m.t. til að sporna við kennitöluflakki, og bæta skil ársreikninga. Þær breytingar sem voru gerðar eiga m.a. að tryggja að öll félög sem falla undir lögin, hvort sem þau stunda atvinnurekstur eða ekki, skili ársreikningi til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Með bættum skilum á ársreikningum fæst betri yfirsýn yfir félög og starfsemi einstakra félaga sem stuðlar að gagnsæi í viðskiptum. Lagabreytingin hefur haft þau áhrif að ársreikningar berast ársreikningaskrá mun fyrr og betur en verið hefur.
    Eins og framan greinir stendur nú yfir vinna þriggja ráðuneyta þar sem leitað er leiða til að sporna við kennitöluflakki í atvinnurekstri og misnotkun á hlutafélagaforminu. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að vænta á næstu vikum og hefur frumvarp þess efnis verið boðað á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.