Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 796  —  129. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um viðgerðarkostnað.


     1.      Hversu mikill, að núvirði, var heildarkostnaður við þær viðgerðir sem gerðar hafa verið á húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins á undanförnum árum?
    Framkvæmdir við endurnýjun á Arnarhvoli hófust árið 2013 og standa þær enn yfir. Þær fela í sér allsherjarendurbætur á húsinu, sem voru orðnar löngu tímabærar. Vesturhluti Arnarhvols var byggður um 1929 samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, og austurhlutinn nokkrum áratugum síðar. Þótt húsið hafi verið vandað og traustbyggt á sínum tíma hafði það fengið afar lítið viðhald undanfarna áratugi og var orðið í slæmu ásigkomulagi utan sem innan, enda leiddi úttekt Framkvæmdasýslu ríkisins í ljós að ytra byrði þess lá undir skemmdum. Ljóst var að vinna þurfti að endurgerð Arnarhvols af mikilli vandvirkni og gæta þess að halda að öllu leyti í upphaflegan byggingarstíl hússins og ytra byrði. Að utan þurfti að endurnýja alla 244 glugga hússins, þak og þakvirki, auk þess sem útveggir hússins voru steinaðir að nýju. Að innan þurfti að fjarlægja alla veggi, loftplötur, gólfefni, eldri innréttingar og lagnir. Hefur húsið verið algerlega endurnýjað að innan, þ.m.t. allar lagnir, loftræsting og rafmagnskerfi hússins, auk þess sem húsnæðið hefur verið endurinnréttað í samræmi við nútímahugmyndir um opin og virknimiðuð vinnurými. Hefur sú breyting tekist mjög vel. Hindrunum hefur verið rutt úr vegi til að tryggja aðgengi fólks með fötlun. Meðal annars hefur verið sett upp lyfta sem ekki var áður í húsinu. Skipuleggja þurfti allar endurbætur við húsið og áfangaskipta þeim þannig að fjármála- og efnahagsráðuneytið gæti haldið uppi fullri starfsemi í húsinu á framkvæmdatímanum.
    Þegar framkvæmdum verður að fullu lokið mun öll starfsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins verða komin á einn stað en hún er nú á þremur stöðum. Við upphaf framkvæmda unnu rúmlega sjötíu starfsmenn í Arnarhvoli en þegar framkvæmdum lýkur verða í húsinu rúmlega 100 manns.
    Kostnaður vegna þeirra áfanga sem lokið hefur verið við nemur samtals um 860 millj. kr. á verðlagi í október 2018. Unnið er að þriðja og síðasta áfanga heildarframkvæmdarinnar, sem eru innanhússframkvæmdir við austurhluta 2. og 3. hæðar hússins. Áætlaður kostnaður vegna þessa síðasta áfanga er um 560 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessum lokaáfanga ljúki á seinni hluta ársins 2019.
    Framkvæmdir við húsið hafa farið eftir lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, auk þess sem verkið var boðið út í samræmi við lög nr. 120/2016, um opinber innkaup. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur haft umsjón með hönnun og eftirliti með framkvæmdunum.

     2.      Hversu mikill, að núvirði, var meðalkostnaður á fermetra vegna viðgerða á þeim hluta húsnæðis ráðuneytisins sem lagfærður hefur verið á undanförnum árum?
    Meðalkostnaður á brúttófermetra vegna framkvæmdanna á verðlagi í október 2018 er 108 þús. kr. vegna utanhússframkvæmda. Varðandi innanhússframkvæmdir er gert ráð fyrir að heildarkostnaður á brúttófermetra að loknum þriðja áfanga verksins nemi um 309 þús. kr.

     3.      Telur ráðherra ástæðu til að ætla að meðalfermetrakostnaður við fyrirhugaðar lagfæringar á núverandi húsnæði Landspítalans verði lægri, hærri eða sambærilegur og kostnaður við lagfæringar á ráðuneytinu?
    Fasteignir Landspítalans á höfuðborgarsvæðinu eru um 100 talsins. Ástand þessara eigna er mjög mismunandi eða allt frá því að vera í mjög góðu ásigkomulagi yfir í það að þarfnast verulegs viðhalds. Ljóst er að einhver hluti af húseignum Landspítalans mun ekki verða nýttur áfram í þágu starfseminnar þegar nýjar byggingar spítalans við Hringbraut verða teknar í notkun. Þær byggingar munu þá væntanlega verða seldar. Einhverjar eignir kunna hreinlega að verða rifnar ef ástand þeirra er með þeim hætti að ekki verður talið svara kostnaði að gera þær upp. Tilteknar eignir munu þurfa mikið eða talsvert mikið viðhald til að koma þeim í gott ástand. Aðrar fasteignir á forræði spítalans kunna að verða nýttar án þess að fara þurfi í umfangsmikið viðhald eða endurbætur.
    Af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og velferðarráðuneytisins er fyrirhugað er að fara í ítarlega greiningu á fyrirhugaðri notkun þeirra fasteigna sem nú eru á forræði Landspítalans eftir að nýbyggingar á Hringbrautarlóðinni verða teknar í notkun. Í framhaldinu verður unnt að vinna ítarlegar ástands- og kostnaðaráætlanir á einstökum fasteignum í samræmi við þá nýtingu sem fyrirhuguð er í þeim. Ljóst er að áður en niðurstaða slíkrar greiningar liggur fyrir er með engu móti hægt að spá fyrir um tiltekinn meðalfermetrakostnað á því húsasafni sem nú er á forræði spítalans.

     4.      Verði meðalviðgerðarkostnaður vegna þess 57.000 fermetra húsnæðis Landspítalans við Hringbraut sem til stendur að nýta áfram jafnmikill á fermetra og kostnaður við lagfæringar á ráðuneytinu hver verður þá heildarkostnaðurinn á núvirði?
    Vísað er til svars við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hversu mikill yrði þessi kostnaður ef Læknagarði, húsnæði Háskóla Íslands, yrði bætt við?
    Vísað er til svars við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.