Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 797  —  230. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um eignarhald fjölmiðla.


     1.      Hvernig hefur fjölmiðlanefnd tryggt að upplýst sé hver fer með yfirráð fjölmiðlaveitu, sbr. f-lið 1. mgr. 17. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011?
    Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla skal fjölmiðill hafa frumkvæði að því að upplýsa um eignarhald á fjölmiðlinum ásamt því að veita aðrar lögbundnar upplýsingar. Skv. 4. mgr. sama ákvæðis eiga fjölmiðlaveitur að tilkynna fjölmiðlanefnd um allar breytingar sem kunna að verða á högum þeirra og varða þær upplýsingar sem liggja tilkynningunni til grundvallar. Í f-lið 1. mgr. 17. gr. er kveðið á um að upplýst sé um eignarhald og yfirráð fjölmiðlaveitu í umsóknum um almennt leyfi. Skv. 4. mgr. 17. gr. er fjölmiðlaveitum jafnframt skylt að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo að rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar. Á ákvæðið jafnt við um skráða fjölmiðla og leyfisskylda fjölmiðla.
    Af þessu leiðir að fjölmiðlanefnd getur óskað eftir upplýsingum frá fjölmiðlaveitum og óskað eftir gögnum og upplýsingum til að hægt sé að rekja eignarhald og yfirráð fjölmiðlaveitunnar. Þó að frumkvæðisskyldan liggi hjá fjölmiðlum sjálfum til að skrá starfsemi sína og veita lögbundnar upplýsingar hefur fjölmiðlanefnd þó margsinnis haft frumkvæði að því að óska eftir skráningu fjölmiðlaveitna og hefur óskað eftir því að þær veiti lögbundnar upplýsingar um starfsemi sína, þ.m.t. upplýsingar um eignarhald.

     2.      Hefur fjölmiðlanefnd einhvern tíma kallað eftir gögnum frá forsvarsmönnum fjölmiðils sem sýna fram á hver fer með raunveruleg yfirráð fjölmiðils?
    Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá fjölmiðlanefnd hefur nefndin kallað eftir gögnum frá forsvarsmönnum fjölmiðla, t.d. hluthafasamkomulögum og lánasamningum fjölmiðlaveitna sem gætu haft áhrif á yfirráð fjölmiðils. Í þeim tilvikum sem slíkra gagna hefur verið óskað hafa fjölmiðlaveitur upplýst að samningar feli ekki í sér nein frávik frá þeim reglum sem gildi almennt um stjórnun fyrirtækjanna samkvæmt hlutafélagalöggjöf.

     3.      Telur ráðherra að nauðsynlegt sé að tilgreina í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2011 að á meðal þeirra upplýsinga sem fjölmiðlanefnd fær um hverja skráningarskylda fjölmiðlaveitu séu upplýsingar um raunveruleg yfirráð fjölmiðils?
    Í 4. mgr. 17. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo rekja megi eignarhald og / eða yfirráð yfir fjölmiðlaveitu til einstaklinga, almennra félaga og annarra aðila. Þetta ákvæði á bæði við um skráningarskylda fjölmiðlaveitu og fjölmiðlaveitu sem óskar eftir leyfi til hljóð- og myndmiðlunar. Við fyrirhugaða endurskoðun laganna verður metið út frá reynslu af beitingu þeirra hvort breyta þurfi ákvæðum 17. gr. og eftir atvikum einnig 14. gr.

     4.      Telur ráðherra nauðsynlegt að fjölmiðlar upplýsi um helstu kröfuhafa sína í þeim gögnum sem þeir afhenda fjölmiðlanefnd á grundvelli ákvæða 14. og 17. gr. laga nr. 38/2011?
    Ekki hefur verið tekin afstaða til þessa en vísað til svars hér að framan. Fjölmiðlanefnd hefur vakið athygli ráðuneytisins á því að athuga þurfi gaumgæfilega öll atriði 14. og 17. gr. laganna, m.a. með tilliti til styrkja og lána.

     5.      Telur ráðherra það samræmast anda og inntaki laga nr. 38/2011 að fjölmiðlar upplýsi ekki um hverjir eru helstu kröfuhafar þeirra?
    Ef kröfuhafar geta í krafti stöðu sinnar gagnvart fjölmiðlaveitu haft áhrif á ritstjórn miðilsins og efnistök má telja það sjálfsagða kröfu almennings, sem notar efni fjölmiðilsins, að fá upplýsingar þar að lútandi. Almennt er gengið út frá því í gildandi lögum að upplýsingar liggi ávallt fyrir um eignarhald fjölmiðla enda hafi þeir skyldum að gegna í lýðræðissamfélagi.