Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 798  —  320. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um námsframboð eftir framhaldsskóla fyrir fólk með þroskahömlun.


     1.      Hvaða nám stendur ungmennum með þroskahömlun til boða þegar framhaldsskóla lýkur?
    Ungmenni sem lokið hafa fjögurra ára námi á starfsbrautum fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskólum eiga kost á að sækja um tveggja ára diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Háskóla Íslands. Annað hvert ár eru teknir inn 12 nemendur.
    Nemendur eiga kost á að sækja námskeið hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð í deild fyrir fólk með þroskahömlun. Námskeiðin eru mislöng, allt frá 5 til 16 vikum, og almennt eiga nemendur kost á að sækja eitt námskeið á önn. Fjölmennt gerir samninga við aðrar símenntunarmiðstöðvar um að þær veiti fólki með þroskahömlun nám og/eða námskeið við hæfi. Framboð er afar mismunandi og fer fyrst og fremst eftir eftirspurn.

     2.      Hefur ráðherra hug á að auka námsframboð fyrir þessi ungmenni eftir að framhaldsskóla lýkur og ef svo er, hverjar eru fyrirætlanir ráðherra í þeim efnum?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið stofnaði verkefnishóp sem hefur það hlutverk að kortleggja framboð á námi, atvinnu, hæfingu og tómstundum fyrir ungmenni sem lokið hafa fjögurra ára námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Verkefnishópurinn hefur skipunartíma til loka mars 2019. Í hópnum sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálpar, Samtaka atvinnulífsins og aðstandenda. Að auki mun hópurinn kalla til þá aðila sem nauðsynlegt kann að teljast til að afla upplýsinga um stöðu mála og til ráðgjafar um nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta stöðu nemendanna.
    Hópurinn á að skila ráðherra tillögum um úrbætur, ásamt kostnaðarmati og áætlun um framkvæmd. Með þessari ráðstöfun hefur ráðuneytið tekið frumkvæði að því að leiða saman þá aðila sem annars vegar bera ábyrgð á að veita þjónustu og hins vegar hagsmunaaðila sem leiðbeina um hvar úrbóta er þörf. Markmiðið er að bæta þá stöðu sem nemendurnir standa frammi fyrir að loknum framhaldsskóla með samstarfi þeirra aðila sem bera ábyrgð og þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.