Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 803  —  193. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um markmið um aðlögun að íslensku samfélagi.


     1.      Hvaða markmið hafa verið sett um aðlögun þeirra sem fá alþjóðlega vernd hér á landi að íslensku samfélagi, þar á meðal um þátttöku á vinnumarkaði, færni til að sjá sér farborða, tækifæri til að afla sér menntunar og kunnáttu í íslenskri tungu?
    Í gildi eru annars vegar viðmiðunarreglur flóttamannanefndar frá 2013 vegna móttöku flóttafólks sem kemur hingað fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og hins vegar leiðbeinandi reglur frá 2014 fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks sem eiga við um flóttafólk sem kemur á eigin vegum.
    Í 14. gr. viðmiðunarreglnanna er fjallað um markmið aðstoðarinnar en þar segir: „Markmið aðstoðarinnar er að tryggja svo vel sem kostur er aðlögun flóttafólksins að íslenskum aðstæðum og samhliða stuðla að því að samfélagið komi til móts við þarfir þess. Leitast skal við að gefa flóttafólki kost á að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, en jafnframt virða rétt þess til að vernda og rækta eigin menningu.“
    Í 2. gr. leiðbeinandi reglnanna er fjallað um markmið þeirra en þar segir m.a.: „Markmiðið með þjónustunni er að tryggja árangursríka aðlögun flóttafólks að íslenskum aðstæðum og samhliða stuðla að því að samfélagið komi til móts við þarfir þess. Það er gert með þverfaglegu samstarfi og samráði við flóttafólkið sjálft, með því að tryggja upplýsingagjöf um réttindi og skyldur flóttafólks og samfélagslega þátttöku þess.“
    Vinnumálastofnun hóf í byrjun árs 2016 að bjóða upp á markvissa þjónustu og ráðgjöf við flóttafólk í atvinnuleit. Áhersla stofnunarinnar er lögð á að aðstoða flóttafólk við að komast sem fyrst í starf en markmiðið er að geta veitt stuðning í einhvern tíma eftir að starf er fengið til að aðlögun megi takast sem best. Flest flóttafólk kemur með tilvísun í þjónustu frá félagsþjónustu sveitarfélaga en einnig frá Rauða krossinum á Íslandi og Útlendingastofnun. Flóttafólki standa til boða ýmis atvinnutengd úrræði og má þar nefna íslenskunámskeið, starfsþjálfun og vinnustaðanám. Þá gerði velferðarráðuneytið samning við Vinnumálastofnun vegna arabískumælandi ráðgjafa sem er ætlað að þróa fræðsluefni fyrir flóttafólk, veita ráðgjöf og vinna að stuðningsúrræðum fyrir flóttafólk og veita sveitarfélögum sem taka á móti arabískumælandi flóttafólki ráðgjöf.
    Í viðmiðunarreglum flóttamannanefndar er lagt upp með að flóttafólk skuli eiga kost á ókeypis kennslu í íslensku og samfélagsfræðslu á fyrsta ári og er miðað við 720 kennslustundir. Flóttafólki sem kemur á eigin vegum stendur til boða styrkur vegna íslenskunáms að fjárhæð 150.000 kr. frá sveitarfélaginu en jafnframt býður Vinnumálastofnun atvinnuleitendum af erlendum uppruna íslenskunám.
    Þá hefur verið gerð breyting á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þannig að einstaklingar sem fengið hafa alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum geta einnig fengið námslán.

     2.      Hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar um árangur að því er snertir þessi markmið og önnur sem kunna að hafa verið sett?
     3.      Hvernig hafa þessir mælikvarðar þróast á umliðnum fimm árum? Hvernig standast þeir samjöfnuð við mælikvarða í nágrannalöndum?
    Ekki eru til staðar formlegir mælikvarðar.
    Velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti fólu Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands að gera rannsóknir á stöðu og viðhorfum flóttafólks árið 2016 í samræmi við framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og var m.a. gerð skoðanakönnun meðal flóttafólks sem fengið hafði alþjóðlega vernd á árunum 2004–2015. Því miður var þátttakan ekki fullnægjandi þar sem svarhlutfallið var eingöngu 15% en margar mikilvægar vísbendingar komu fram, bæði hvað varðar þjónustu, líðan, heilsu, menntun, mat á menntun, atvinnuþátttöku, íslenskukunnáttu og upplifun á fordómum og mismunun. Meðal þess sem kom fram var að aðstoð við húsnæði nýttist flóttafólkinu best en þar á eftir kom fjárhagsaðstoð og íslenskukennsla. Þá kom fram að 78% flóttafólks voru í leiguhúsnæði og um helmingur þess tók þátt í einhvers konar félagsstarfi. Almennt voru foreldrar virkir að koma í foreldraviðtöl í skólum. Af þeim sem svöruðu voru 85% mjög sammála eða frekar sammála um að það væri gott að búa á Íslandi. Rúmlega helmingur svarenda taldi sig tala góða íslensku og helmingur taldi sig ekki tala góða íslensku. Þá kom fram að 97% höfðu áhuga á að læra tungumálið betur. Af svarendum voru 18% í námi, 42% í launuðu starfi, 13% atvinnuleitendur, 3% í fæðingarorlofi, 21% öryrkjar og 3% atvinnuleitendur.
    Þegar spurt var um hæsta stig menntunar sem einstaklingarnir höfðu lokið kom fram að 43% höfðu lokið háskólaprófi en 19% höfðu lokið grunnskólanámi eða minna. Þá höfðu 30% lokið bóklegu námi á framhaldsskólastigi og 5% lokið iðnnámi. Alls töldu 75% svarenda að nám þeirra nýttist ekki í starfi á Íslandi og meðal ástæðna sem gefnar voru upp var að námið nýttist ekki sem skyldi og einnig kom fram að 59% töldu íslenskukunnáttu sína ekki vera nægilega góða, 33% höfðu ekki rétt til þess að starfa við sitt fag, 22% töldu að það væri ekki mikið framboð af störfum fyrir fólk með þeirra menntun á Íslandi og 11% sögðust mæta fordómum vegna uppruna síns. Alls höfðu 66% svarenda ekki reynt að fá menntun sína metna hér á landi. Könnunin er góður grunnur að mælikvörðum fyrir áframhaldandi stefnumótun í málaflokknum.

     4.      Telur ráðherra gildandi markmið og árangur til þessa vera fullnægjandi? Ef ekki, hver eru áform ráðherra um aðgerðir?
    Þau markmið sem hafa verið sett í leiðbeinandi reglum og viðmiðunarreglum eiga enn vel við en þörf er á að koma á samræmdri móttöku fyrir flóttafólk óháð því hvernig það kemur til landsins og er sérstaklega mikilvægt að tryggja að flóttafólk sem kemur á eigin vegum fái viðunandi þjónustu og sé upplýst um réttindi sín og skyldur.
    Í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda frá 2016 eru tilgreindar aðgerðir sem snúa sérstaklega að flóttafólki. Í samræmi við framkvæmdaáætlunina í málefnunum innflytjenda var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að kortleggja núverandi þjónustu og gera tillögur um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Nefndin var skipuð fulltrúum frá Barnaverndarstofu, dómsmálaráðuneytinu, Rauða krossinum á Íslandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun og var formaður nefndarinnar skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra. Nefndin skilaði tillögum til ráðherra í september sl. og er nú unnið að því að kostnaðarmeta tillögurnar. Meðal þeirra tillagna sem þar koma fram er aukinn stuðningur til sveitarfélaga sem taka á móti flóttafólki og skal sveitarfélagið tryggja heildarsýn og samfellda og sveigjanlega þjónustu við fólkið og þá kemur það í hlut sveitarfélaga að vinna einstaklingsbundna áætlunin með flóttafólkinu. Einnig er lagt til að Fjölmenningarsetrið fái aukið hlutverk og að Vinnumálastofnun annist samræmda íslensku- og samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk.