Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 804  —  399. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Häsler um nýja starfsemi til sveita og lífræna ræktun.


     1.      Hver er staða undirbúnings aðlögunarsamninga um nýja starfsemi til sveita sem vísað er til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð. Ríkisstjórnin hefur unnið að því að bregðast við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma, þar sem m.a. er stefnt að því að innleiddir verði sérstakir aðlögunarsamningar um nýja atvinnustarfsemi til sveita. Með þeim verði rudd braut fyrir bændur til þess m.a. að byggja upp nýjar búgreinar og hasla sér völl á öðrum sviðum. Áætlað er að slíkir aðlögunarsamningar til búháttabreytinga verði háðir skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun og búsetu viðkomandi jarðar og geti stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun.
    Við endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárbænda, sem staðið hefur yfir síðustu mánuði, hefur mikil áhersla verið lögð á það af hálfu ríkisins að heimilt verði að gera aðlögunarsamninga við bændur sem vilja hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi. Markmiðið er að ná betra jafnvægi í framleiðslu sauðfjárafurða og gera bændum kleift að byggja upp nýjar búgreinar og búskaparhætti eða hasla sér völl á öðrum sviðum, t.d. í nýsköpunarverkefnum eða náttúruvernd. Endurskoðun samningsins stendur enn yfir og mun ríkisstjórnin vinna áfram að innleiðingu aðlögunarsamninga í samræmi við framangreind markmið.

     2.      Með hvaða hætti á að efla stuðning við lífræna ræktun og hvað líður vinnu að því marki?
    Ríkisstjórnin telur mikilvægt að efla lífrænan landbúnað, líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála, og er sérstök áhersla lögð á eflingu lífræns landbúnaðar við endurskoðun búvörusamninga sem nú stendur yfir.
    Eitt af markmiðum rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins er að auka vægi lífrænnar framleiðslu og eru fjármunir veittir til þess að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn framleiðsla hefur í för með sér og auka framboð slíkra vara. Eftirspurn eftir þeim fjármunum hefur verið minni en búist var við. Árið 2017 sóttu einungis tveir aðilar eftir aðstoð til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum og þegar þetta svar er ritað (í desember) hafa fimm aðilar sótt um það sem af er árinu 2018. Mikil tækifæri felast í eflingu lífræns landbúnaðar og þurfa stjórnvöld og framleiðendur að vinna saman að því verkefni. Við endurskoðun búvörusamninga verður leitað leiða til að auka áhuga og efla stuðning við lífræna ræktun, í samræmi við framangreindar áherslur ríkisstjórnarinnar.