Ferill 492. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 808  —  492. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (félög undanskilin fjármagnstekjuskatti).

Flm.: Óli Björn Kárason, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Njáll Trausti Friðbertsson.


1. gr.

    Í stað orðanna „skv. 1., 2., 4., 5.“ í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna kemur: skv. 1., 2., 5.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Tilgangur með frumvarpinu er að félög sem eingöngu eru rekin til almannaheilla og eru undanskilin skattskyldu er varðar tekjuskatt verði einnig undanskilin fjármagnstekjuskatti. Ljóst er að stór hluti og oft einu tekjur þessara félaga eru fjármagnstekjur, til að mynda í tilfelli sjóða sem styrkja menntastofnanir/námsmenn/heilbrigðisstofnanir o.s.frv. og dæmi eru um að lítið sé eftir til að sinna upphaflegum tilgangi þar sem fjármagnstekjuskattur étur allt upp.
    Samkvæmt 4. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt er tilgreindum aðilum sem undanþegnir eru tekjuskatti skylt að greiða fjármagnstekjuskatt af tilteknum tekjum sem skilgreindar eru í 3., 4. og 5. tölul. c-liðar 7. gr. laganna og 8. tölul. sama stafliðar 7. gr. er varðar söluhagnað. Skattskyldan tekur meðal annarra til lögaðila sem eru heimilisfastir hér á landi og „verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum“.
    Frumvarp þetta mælir fyrir um að lögaðilar sem uppfylla skilyrði 4. tölul. 4. gr. laganna um undanþágu frá tekjuskatti skuli einnig vera undanþegnir fjármagnstekjuskatti.
    Við stofnun lögaðila eru þeir skrásettir í „fyrirtækjaskrá“, þar sem m.a. er haldið utan um stofnskjöl og samþykktir og getið stjórnar og prókúruhafa. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er haldið utan um skattaðila og skattlagningu þeirra og skattaleg réttindi með „skattgrunnskrá“ þar sem skráðar eru m.a. upplýsingar um skatthlutföll aðila miðað við tiltekin félagaform, sjálfstæði til skattlagningar o.fl.
    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er þeim lögaðilum sem heimilisfastir eru hér á landi og tæmandi eru taldir í 5. tölul. 1. mgr. greinarinnar skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað.
    Sú almenna regla gildir að allir lögaðilar eru skattskyldir. Frá þessari reglu má finna undantekningar í 4. gr. tekjuskattslaga, þó skipta aðallega tvær undantekningar hér máli, þ.e. skv. 4. og 5. tölul. 4. gr. Annars vegar er um að ræða lögaðila sem stunda atvinnu og verja öllum hagnaði sínum til almannaheilla og hins vegar þá lögaðila sem stunda ekki atvinnu.
    Almennt reynir ekki á undanþágu þeirra lögaðila sem stunda atvinnu fyrr en við framtalsskil þar sem undanþágu frá skattskyldu er borið við og þá í þeim tilvikum þegar starfsemi er rekin með hagnaði. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra er látið reyna á undanþáguna frá einu rekstrarári til annars og ræðst undanþágan eðli máls samkvæmt af ráðstöfun hagnaðar. Sé lögaðili aftur á móti rekinn með tapi kann öðru máli að gegna.
    Þeir lögaðilar sem fella má undir undanþáguákvæði 4. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga eiga það sameiginlegt að stunda rekstur eða atvinnustarfsemi og ber þeim að skila árlega skattframtali rekstraraðila RSK 1.04 ásamt ársreikningi í samræmi við ákvæði 1. mgr. 90. gr. tekjuskattslaga. Þessir aðilar eru í skattgrunnskrá skráðir með gjaldstig til tekjuskatts, en þeim er síðan heimilt, svo lengi sem þeir uppfylla skilyrði 4. tölul. 4. gr., að bakfæra eða fella hagnað undan skattskyldu þannig að ekki komi til skattlagningar hans. Þessir aðilar bera hins vegar fjármagnstekjuskatt í samræmi við ákvæði 4. mgr. 71. gr. Atvinnustarfsemi hefur verið skilgreind þannig að um sé að ræða reglubundna atvinnustarfsemi sem stunduð er samfellt og í nokkru umfangi í hagnaðarskyni.
    Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laganna eru félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 5. tölul. 2. gr., sem ekki reka atvinnu, undanþegin almennri tekjuskattsskyldu, en bera skyldu til greiðslu fjármagnstekjuskatts í samræmi við ákvæði 4. mgr. 71. gr. Meiri hluti þessara aðila er skráður í fyrirtækjaskrá sem félagasamtök og í skattgrunnskrá sem „óframtalsskyldir“ án gjaldstigs til almenns tekjuskatts.
    Þessir aðilar, sem geta haft tekjur sem varið er til almannaheilla og sem ekki tengjast atvinnustarfsemi, svo sem styrki, félagsgjöld og tekjur af happdrættum, skila skattframtali RSK 1.06 ef þeir greiða tryggingagjald vegna launagreiðslna, (búnaðargjald), fjármagnstekjuskatt af fjármagnstekjum sem ekki var tekin staðgreiðsla af, eða ef þeim ber að skila virðisaukaskatti.
    Ef ekkert af þessu á við þurfa þessir aðilar ekki að skila skattframtali og afdreginn fjármagnstekjuskattur og innborgun hans á staðgreiðsluári telst endanleg álagning, sbr. 3. málsl. 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga.
    Því er þetta tekið fram að meðal þessara félagasamtaka er fjöldi aðila sem sinnir málefnum sem teljast til almannaheilla. Þessir aðilar geta raunar verið eigendur að félögum sem falla undir undanþáguákvæði 4. tölul. 4. gr.
    Félagasamtök eru ekki sérgreind í fyrirtækjaskrá með þeim hætti sem hér er til umfjöllunar frekar en almannaheillafélög skv. 4. tölul. 4. gr. Þau eru án gjaldstigs til almenns tekjuskatts í skattgrunnskrá og skila aðeins skattframtali á áður tilgreindum forsendum. Þau hafa ekki verið flokkuð í skattgrunnskrá á grundvelli skráðs tilgangs þeirra, enda liggja þær upplýsingar ekki fyrir í fyrirtækjaskrá. Frumvarp þetta nær ekki til slíkra félaga.
    Á skrá ríkisskattstjóra nú eru 73 lögaðilar sem fengið hafa formlega staðfestingu á því að hagnaði af atvinnustarfsemi þeirra sé varið til almannaheilla og hafa þar með fengið undanþágu frá greiðslu almenns tekjuskatts af þeim hagnaði skv. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Upplýsingar um aðila sem fengið hafa undanþágu frá greiðslu tekjuskatts í samræmi við gildandi tekjuskattslög og á grundvelli sambærilegra ákvæða í eldri tekjuskattslögum eru hins vegar ekki fullkomnar samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra. Fyrsta rafræna málaskráningarkerfi skattstofa varð til um miðjan 9. áratug síðustu aldar í Reykjavík. Skráningarkerfi voru tekin upp hjá öðrum skattstofum síðar en skráning var ekki samræmd og var ótengd skattgrunnskrá. Fyrst og fremst var um að ræða utanumhald utan um kærur, erindi og annan málarekstur sem helgast af starfsemi skattyfirvalda. Eftir sameiningu stofnana skattkerfisins árið 2010 hefur verið haldið utan um ýmis frávik frá almennri skattlagningu í endurbættri skattgrunnskrá.
    Upplýsingar um álagningu 2018 vegna tekjuárs 2017 liggja ekki fyrir en miðað við staðgreiðsluskil fjármálastofnana nemur afdregin staðgreiðsla af vöxtum þessara aðila á árinu 2017 28.649.533 kr. af fjármagnstekjum að fjárhæð samtals 144.379.343 kr.
    Tekjuárið 2016 nam afdregin staðgreiðsla 27.599.153 kr. af fjármagnstekjum að fjárhæð 136.625.913 kr.
    Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra eru aðrar fjármagnstekjur, svo sem af arði og söluhagnaði hlutabréfa, óverulegar.