Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 811  —  495. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (stofnanir á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra).

Frá félags- og barnamálaráðherra.

I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Orðin „að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og greiðsluþega“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „að fengnu skriflegu samþykki beggja“ í 2. mgr. falla brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Upplýsingaöflun Tryggingastofnunar skv. 1. og 2. mgr. er háð því skilyrði að framangreindir aðilar hafi staðfest að þeir hafi verið upplýstir um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, með síðari breytingum.
2. gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingaöflun.

    Að því marki sem Vinnumálastofnun telur nauðsynlegt vegna vinnslu umsókna atvinnuleitenda um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum eða framkvæmdar vinnumarkaðsúrræða og vinnumiðlunar samkvæmt lögum þessum skal stofnunin afla upplýsinga frá félagsþjónustu sveitarfélaga, starfsendurhæfingarsjóðum samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, Tryggingastofnun ríkisins, þjónustustofnunum samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, þjónustuaðilum skv. 2. mgr. 12. gr. laga þessara, atvinnurekendum, símenntunarmiðstöðvum, viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis og skólum á háskólastigi, eftir því sem við á hverju sinni, og ber hlutaðeigandi aðilum að veita Vinnumálastofnun umbeðnar upplýsingar búi þeir yfir þeim.
Vinnumálastofnun er heimilt að miðla upplýsingum til aðila skv. 1. mgr. þegar nauðsyn krefur að mati stofnunarinnar vegna framkvæmdar vinnumarkaðsúrræða og vinnumiðlunar samkvæmt lögum þessum.
    Vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

III. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 4. mgr. kemur: hlutaðeigandi atvinnurekendur.
     b.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Upplýsingaöflun Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en vinnsla fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.
5. gr.

    3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Upplýsingaöflun Vinnumálastofnunar er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

V. KAFLI
Breyting á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum.
6. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þegar einstaklingur óskar eftir aðstoð umboðsmanns skuldara skal umboðsmaður afla þeirra upplýsinga sem hann telur nauðsynlegar, á því stigi málsmeðferðar sem við á hverju sinni, til að geta sinnt hlutverki sínu samkvæmt hlutaðeigandi lögum. Upplýsinganna skal aflað frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað sem og framferði einstaklingsins. Ber framangreindum aðilum að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg, að mati umboðsmanns, til að hann geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
    Umboðsmanni skuldara er heimilt að miðla til kröfuhafa viðeigandi upplýsingum sem gefa heildarmynd af fjárhag skuldara þegar slík miðlun er nauðsynleg, að mati umboðsmanns, til að hann geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
    Vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að skuldari hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

7. gr.

    Í stað „3. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: 4. mgr.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      11. tölul. 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu“ í 3. mgr. falla brott.
     d.      5. mgr. fellur brott.

9. gr.

    2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Á því stigi málsmeðferðar sem við á hverju sinni skal umboðsmaður skuldara óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað og framferði skuldarans. Ber aðilum skv. 1. málsl. að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg, að mati hans, til að hann geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og að skuldari hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

10. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna bætist: sbr. 5. gr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir
kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014.

11. gr.

    Í stað 3. mgr. 4. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Umboðsmaður skuldara skal ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann, ef þörf krefur, krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.
    Á því stigi málsmeðferðar sem við á hverju sinni skal umboðsmaður skuldara óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað og framferði umsækjanda. Ber aðilum skv. 1. málsl. að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg, að hans mati, til að hann geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum og að skuldari hafi, áður en upplýsingaöflun fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.
12. gr.

    57. gr. laganna orðast svo:
    Að því marki sem nauðsynlegt er vegna vinnslu umsókna um þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum skulu félagsmálanefndir og starfsmenn þeirra afla upplýsinga frá Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun, Íbúðalánasjóði, heilbrigðisstofnunum, atvinnurekendum, starfsendurhæfingarsjóðum, viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis og skólum á háskólastigi, eftir því sem við á hverju sinni, og ber hlutaðeigandi aðilum að verða við beiðni um upplýsingar búi þeir yfir þeim.
    Þá er heimilt að kalla eftir læknisvottorði frá lækni umsækjanda eða trúnaðarlækni sveitarfélags þegar um er að ræða umsóknir sem eru til komnar vegna heilsufarslegra ástæðna.
    Vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.

13. gr.

    2. mgr. 62. gr. laganna fellur brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003,
með síðari breytingum.

14. gr.

    Við 4. mgr. 6. gr. laganna bætist: og mat á stuðningsþörfum fatlaðs fólks í einstökum sveitarfélögum og þjónustusvæðum fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á undan orðinu „varðveislu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: vinnslu og. Í stað orðanna „og lögum um heilbrigðisstarfsmenn“ kemur: lögum um réttindi sjúklinga, lögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     b.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er heimilt að afla og vinna með persónuupplýsingar og gögn, svo sem læknisfræðilegar upplýsingar og vottorð, sem nauðsynleg eru vegna þeirrar þjónustu sem stöðin veitir. Þá er henni heimilt að miðla niðurstöðum greininga og öðrum nauðsynlegum upplýsingum til þjónustuveitenda samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um grunnskóla, lögum um leikskóla, lögum um vinnumarkaðsaðgerðir og til annarra þjónustustofnana þar sem einstaklingur fær lögbundna þjónustu. Vinnsla og miðlun upplýsinga er háð því skilyrði að viðkomandi einstaklingur eða forráðamaður hans hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis.
                  Stofnunin skal halda skrá yfir alla þá sem njóta þjónustu hennar í þeim tilgangi að hafa yfirsýn yfir stærð hópsins, bæta þjónustu við þá, tryggja gæði þjónustunnar og hafa eftirlit með henni, til tölfræðiúrvinnslu og vísindarannsókna í samræmi við skilgreint hlutverk hennar.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Tilefni þessa frumvarps eru lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2018. Lögin öðluðust gildi 15. júlí sama ár og frá þeim tíma féllu úr gildi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, með síðari breytingum. Með nýju lögunum var lögfest hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, eins og hún hefur verið aðlöguð að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (e. Regulation (EU) 2016/679 of the European Parliament and of the Council on the protection of natural persons with regard to the processing of personal data and on the free movement of such data, and repealing Directive 95/46/EC). Reglugerðin kom til framkvæmda innan Evrópusambandsins 25. maí 2018 og leysti af hólmi tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins, 95/46/EB frá 24. október 1995, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.
    Frumvarpið var að meginefni til samið í tengslum við vinnu dómsmálaráðuneytisins við frumvarp sem varð að framangreindum lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Við þá vinnu var settur á fót samráðshópur allra ráðuneyta. Hann hafði það hlutverk að fara yfir ákvæði sérlaga sem varða vinnslu persónuupplýsinga í samvinnu við stofnanir sem starfa á grundvelli hlutaðeigandi laga í því skyni að meta hvaða breytingar kynnu að vera nauðsynlegar vegna nýju persónuverndarreglnanna. Yfirferð samráðshópsins leiddi í ljós að gera þyrfti margvíslegar efnislegar breytingar á ákvæðum ýmissa laga í tengslum við frumvarpið. Með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga voru aftur á móti aðeins gerðar lágmarksbreytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegar þóttu vegna beinna tilvísana til eldri laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 54. gr. laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Við vinnslu frumvarpsins sem varð að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, var ákveðið að gera aðeins lágmarksbreytingar á ákvæðum annarra laga vegna tilvísana til eldri laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, með síðari breytingum. Gert var ráð fyrir að hvert og eitt ráðuneyti mundi ráðast í frekari efnislega endurskoðun á ákvæðum laga sem falla undir málefnasvið viðkomandi ráðuneytis. Undir málefnasvið félags- og jafnréttismálaráðherra falla ýmis lög sem varða mikilvæg réttindi og skyldur almennra borgara þar sem vinna þarf með persónuupplýsingar um einstaklinga sem oft og tíðum eru viðkvæmar, svo sem upplýsingar um heilsufar, í því skyni að kanna hvort skilyrði fyrir ýmiss konar félagslega aðstoð séu uppfyllt. Mikilvægt er að vinna með slíkar upplýsingar sé vönduð og í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og því er frumvarp þetta lagt fram.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga sem falla undir málefnasvið félags- og jafnréttismálaráðherra til þess að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt viðkomandi lögum samræmist ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Um er að ræða breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins þykir ekki gefa sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar enda eingöngu um að ræða breytingar á ákvæðum tiltekinna laga í því skyni að tryggja að þau gangi ekki gegn ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og til þess að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt viðkomandi lögum samræmist ákvæðum þeirra laga.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu í samráði við þær stofnanir sem falla undir málefnasvið félags- og jafnréttismálaráðherra og starfa á grundvelli þeirra laga sem lagt er til í frumvarpinu að verði breytt. Áform um gerð frumvarpsins voru einnig kynnt öðrum ráðuneytum.
    Þá fór frumvarpið í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins í byrjun október 2018 þar sem almenningi gafst kostur á að koma með athugasemdir við drög að frumvarpinu. Ein umsögn barst með þessum hætti og var umsagnaraðili Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt var sérstaklega óskað eftir umsögn Persónuverndar og veitt stofnunin umsögn. Farið var yfir umsagnirnar og tillit tekið til athugasemda eftir því sem tilefni var til.

6. Mat á áhrifum.
    Mikilvægt er að gera greinarmun á þeim áhrifum sem ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, hafa í för með sér, svo sem á störf opinberra stofnana, og þeirra áhrifa sem efni frumvarps þessa kann að hafa á störf viðkomandi stofnana. Þannig hefur frumvarp þetta ekki í för með sér breytingar á þjónustu sem hlutaðeigandi stofnunum er ætlað að veita heldur er þar gert ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á ákvæðum laga sem falla undir málefnasvið félags- og jafnréttismálaráðherra til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli viðkomandi laga samræmist ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Því er ekki talið að frumvarp þetta muni hafa áhrif á almannahagsmuni né helstu hagsmunaaðila svo að teljandi sé.
    Frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar frá gildandi rétti eftir gildistöku laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Eru hér einungis lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa laga til samræmis við framangreind lög á sviði persónuverndar. Gefur efni frumvarpsins því ekki tilefni til að ætla að það stuðli að mismunun á grundvelli kyns eða hafi misjöfn áhrif á stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 1. og 2. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda sem og greiðsluþega auk nauðsynlegra upplýsinga um tekjur maka viðkomandi, eftir því sem við á, ef þær geta haft áhrif á fjárhæð greiðslna. Kveðið á um að skilyrði fyrir framangreindri heimild Tryggingastofnunar sé að umsækjandi eða greiðsluþegi, eftir því sem við á, og eftir atvikum maki umsækjanda eða greiðsluþega, hafi veitt skriflegt samþykki fyrir öflun upplýsinganna.
    Í ljósi þess að í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eru gerðar ríkari kröfur en áður til þess í hvaða tilvikum heimilt er að afla upplýsinga á grundvelli samþykkis er hér lagt til að skilyrðið um að fyrir liggi skriflegt samþykki framangreindra aðila til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að afla upplýsinga um tekjur verði fellt brott úr 1. og 2. mgr. 40. gr. laganna. Er það gert þar sem þær upplýsingar sem hér um ræðir eru nauðsynlegar til að Tryggingastofnun sé unnt að meta hvort einstaklingar eigi rétt til greiðslna frá stofnuninni og ákvarða fjárhæð þeirra. Því má ætla að krafa um samþykki viðkomandi fyrir öflun upplýsinganna hafi ekki þýðingu í þessu sambandi. Er því gert ráð fyrir að Tryggingastofnun verði áfram heimilt að afla þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í umræddum ákvæðum. Skv. 37. gr. laganna hvílir rík leiðbeiningarskylda á Tryggingastofnun, m.a. um þau gögn sem þurfa að fylgja umsóknum, og ber stofnuninni því að upplýsa umsækjendur um að umræddar upplýsingar séu nauðsynlegar til að unnt sé að taka ákvarðanir um rétt þeirra til greiðslna innan almannatryggingakerfisins og að stofnunin muni afla þeirra.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist ný málsgrein, sem verður 4. mgr., þar sem skýrt verði kveðið á um að upplýsingaöflun Tryggingastofnunar samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að hlutaðeigandi aðilar hafi, áður en hún á sér stað, staðfest að þeir hafi verið upplýstir um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert til þess að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum.
    Breytingin þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en ekki er gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra þar sem þau gilda almennt um öll tilvik þar sem persónuupplýsingar og vinnsla þeirra er þess eðlis að tilvikin falla undir gildissvið þeirra.

Um 2. og 3. gr.

    Í 3. mgr. 7. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir upplýsingum frá öðrum aðilum vegna einstakra umsókna atvinnuleitenda um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar ástæða er til að mati stofnunarinnar.
    Hér er lagt til að framangreind 3. mgr. 7. gr. laganna falli brott en þess í stað verði í nýrri grein, 7. gr. a, skýrt kveðið á um skyldu Vinnumálastofnunar til upplýsingaöflunar. Er þannig gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli, að því marki sem stofnunin telur nauðsynlegt vegna vinnslu umsókna atvinnuleitenda um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, veitingu þjónustu og framkvæmdar vinnumarkaðsúrræða sem og vinnumiðlunar samkvæmt lögunum, afla upplýsinga frá félagsþjónustu sveitarfélaga, starfsendurhæfingarsjóðum samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, Tryggingastofnun ríkisins, þjónustustofnunum samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, þjónustuaðilum skv. 2. mgr. 12. gr. laganna, atvinnurekendum, símenntunarmiðstöðvum, viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis og skólum á háskólastigi, eftir því sem við á hverju sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi aðilum beri að verða við beiðni Vinnumálastofnunar búi þeir yfir umbeðnum upplýsingum. Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að miðla upplýsingum til framangreindra aðila þegar nauðsynlegt er vegna veitingar þjónustu og framkvæmdar vinnumarkaðsúrræða sem og vinnumiðlunar.
    Mikilvægt þykir að kveðið verði skýrt á um skyldu Vinnumálastofnunar til upplýsingaöflunar að þessi leyti þannig að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu hvað varðar aðstoð við atvinnuleitendur en jafnframt þykir mikilvægt að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu upplýsinga gagnvart viðkomandi einstaklingum. Er því lagt til að vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en vinnsla fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum.
    Breytingin þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en ekki er gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra þar sem þau gilda almennt um alla slíka vinnslu persónuupplýsinga.

Um 4. gr.

    Í 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingastofnunin, Innheimtustofnun sveitarfélaga, hlutaðeigandi lífeyrissjóðir, hlutaðeigandi stéttarfélög, félög og heildarsamtök stéttarfélaga sem reka sjúkra- eða styrktarsjóði fyrir launafólk á innlendum vinnumarkaði, Fangelsismálastofnun, tollyfirvöld, eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög nr. 42/2010, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, Vegagerðin, Lánasjóður íslenskra námsmanna, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna.
    Hér er lagt til að hlutaðeigandi atvinnurekendum verði jafnframt skylt að láta Vinnumálastofnun í té þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við framkvæmd laganna. Er þetta lagt til þar sem upplýsingar sem atvinnurekendur búa yfir þykja nauðsynlegar svo Vinnumálastofnun sé unnt að afgreiða umsóknir um atvinnuleysisbætur. Má í þessu sambandi nefna vottorð vinnuveitanda skv. 1. mgr. 16. gr. laganna og upplýsingar sem þar koma fram. Þykir því mikilvægt að skýrt sé kveðið á um í lögunum að hlutaðeigandi atvinnurekendur skuli láta Vinnumálastofnun í té nauðsynlegar upplýsingar svo stofnunin geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist ný málsgrein, sem verður 6. mgr., þar sem skýrt verður kveðið á um að upplýsingaöflun Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum. Breytingin þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, en ekki er gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra þar sem þau gilda almennt um alla slíka vinnslu persónuupplýsinga.

Um 5. gr.

    Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt er kveðið á um að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt lögunum. Þá er kveðið á um að samþykki umsækjanda um greiðslur í fæðingarorlofi þurfi fyrir öflun gagnanna.
    Í ljósi þess að í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eru gerðar ríkari kröfur en áður til þess í hvaða tilvikum heimilt er að afla upplýsinga á grundvelli samþykkis er hér lagt til að fellt verði brott úr umræddu ákvæði að samþykki umsækjanda um greiðslur í fæðingarorlofi þurfi fyrir öflun framangreindra gagna. Þetta er lagt til þar sem kveðið er á um að Vinnumálastofnun skuli afla tiltekinna upplýsinga við útreikning á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi og því má ætla að krafa um samþykki viðkomandi foreldris fyrir öflun upplýsinganna hafi ekki þýðingu í þessu sambandi. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun afli áfram þeirra gagna sem stofnuninni ber samkvæmt ákvæðinu enda eingöngu um upplýsingar að ræða sem stofnuninni eru nauðsynlegar við útreikning á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi. Lagt er til að upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.a.m. með rafrænum hætti. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu upplýsinga gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann skuldara er kveðið á um að umboðsmaður skuldara geti krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds. Jafnframt er kveðið á um að með sama hætti sé fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Stofnunin getur þó ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.
    Hér er lagt til að í stað fyrrnefndrar 1. mgr. 3. gr. laganna komi ný málsgrein þar sem skýrt verði kveðið á um að þegar einstaklingur óskar eftir aðstoð umboðsmanns skuldara skuli umboðsmaður, á því stigi málsmeðferðar sem við á hverju sinni, óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað sem og framferði einstaklingsins, til að geta sinnt hlutverki sínu samkvæmt hlutaðeigandi lögum. Með opinberum aðilum er átt við öll stjórnvöld. Jafnframt er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að framangreindum aðilum beri að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Er gert ráð fyrir þessu þar sem forsenda þess að umboðsmaður skuldara geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum er að kveðið sé á um víðtæka gagnaöflun embættisins þannig að yfirsýn náist yfir aðstæður þeirra einstaklinga sem leita eftir aðstoð hjá embættinu. Má í þessu sambandi nefna upplýsingar um tekjur viðkomandi, hvort sem er að ræða tekjur vegna vinnu eða aðrar tekjur, svo sem bætur, styrki, greiðslur úr lífeyrissjóði, meðlagsgreiðslur eða opinbera fjárhagsaðstoð svo og önnur gögn sem geta gefið heildarmynd af fjárhag og aðstæðum skuldara, svo sem upplýsingar um heilsufar, félagslegar aðstæður og upplýsingar sem varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot.
    Þá má jafnframt nefna hverjar þær upplýsingar sem upplýst geta um aðstæður sem kunna að koma í veg fyrir að viðkomandi geti notið aðstoðar umboðsmanns skuldara, svo sem hvort skuldari hafi, í eigin nafni eða í fyrirsvari fyrir félag, bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu. Enn fremur er gert ráð fyrir að í lokamálslið ákvæðisins verði kveðið á um að framangreind upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara sé háð því skilyrði að hún sé að hans mati nauðsynleg til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu.
    Í ljósi þess að í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eru gerðar ríkari kröfur en áður til þess í hvaða tilvikum heimilt er að afla upplýsinga á grundvelli samþykkis er því jafnframt lagt til að 2. mgr. 3. gr. laganna sem fjallar um sama skilyrði verði felld brott enda gert ráð fyrir að í 1. mgr. verði kveðið með skýrum hætti á um skyldu umboðsmanns til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Lagt er til að í stað fyrrnefndrar 2. mgr. bætist við ný málsgrein þannig að skýrt verði kveðið á um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að miðla til lánardrottna viðeigandi upplýsingum sem gefa heildarmynd af fjárhag skuldara þegar slík miðlun er að mati umboðsmanns nauðsynleg svo að hann geti sinnt hlutverki sínu. Nauðsynlegt þykir að skýrt sé kveðið á um þessa heimild umboðsmanns skuldara svo tryggt sé að hann geti haft milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi, sbr. b-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara.
    Þá er lagt til að í 3. mgr. verði kveðið á um að vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að skuldari hafi, áður en vinnsla fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum.
    Breyting þessi þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ekki er þó gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra þar sem þau gilda almennt um alla slíka vinnslu persónuupplýsinga.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til breytt tilvísun til 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann skuldara í 2. mgr. 6. gr. laganna til samræmis við breytingar skv. 6. gr.

Um 8. gr.

    Í 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er kveðið á um að í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skuli koma fram yfirlýsing um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því. Hér er gert ráð fyrir að umræddur 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna falli brott þar sem í 9. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmanni skuldara sé skylt að afla þeirra upplýsinga sem hann telur þurfa til að geta sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum og að því gefnu að skuldari hafi, áður en upplýsingaöflun fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli.
    Í 2. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að sömu upplýsingar um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun og gert er ráð fyrir í 1. mgr. ákvæðisins að komi fram í umsókninni um aðstæður skuldarans sjálfs. Hér er lagt til að umrædd 2. mgr. 4. gr. falli brott þar sem upplýsingar um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum þykja ekki nauðsynlegar við afgreiðslu umsókna um greiðsluaðlögun.
    Í 3. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skuli meðal annars fylgja vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu. Hér er gert ráð fyrir að krafa þessi falli brott úr ákvæðinu í samræmi við breytingar sem gert er ráð fyrir skv. 9. gr., en þar kemur fram að opinberum aðilum, þ.m.t. Þjóðskrá Íslands sé skylt að veita umboðsmanni skuldara þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að honum sé unnt að sinna starfi sínu samkvæmt lögunum. Er því gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara afli þessara upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands þegar slíkt er talið nauðsynlegt að mati umboðsmanns.
Í ljósi þess að í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, eru gerðar ríkari kröfur en áður til þess í hvaða tilvikum heimilt er að afla upplýsinga á grundvelli samþykkis og til samræmis við breytingar sem ráðgert er að verði á 2. mgr. ákvæðisins og breytingarnar sem lagðar eru til í 9. gr. á 5. gr. laganna er lagt til að 5. mgr. 4. gr. laganna falli brott. Breyting þessi þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Ekki er þó gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra þar sem þau gilda almennt um alla slíka vinnslu persónuupplýsinga.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. 5. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur farið fram á að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að umboðsmaður skuldara skuli auk þess sem um getur í 1. mgr. afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Jafnframt er kveðið á um að ef þörf krefur sé umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra sem málið varðar á sinn fund til að afla upplýsinganna.
    Hér er lagt til að 2. mgr. laganna verði breytt þannig að kveðið verði skýrt á um að til að meta hvort skilyrði séu uppfyllt til samþykktar á umsókn um greiðsluaðlögun og til að fullnægja skilyrðum laganna, í tengslum við umleitanir um greiðsluaðlögun, nauðasamningsumleitanir og breytingar á samningi um greiðsluaðlögun, skuli umboðsmaður, ef þörf krefur að hans mati, óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað og framferði skuldarans. Í því skyni að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því er gert ráð fyrir að umboðsmanni sé heimilt að óska eftir upplýsingum frá framangreindum aðilum jafnvel þótt umsókn eða önnur gögn málsins beri ekki með sér að þeir eigi kröfu á hendur skuldara. Jafnframt er gert ráð fyrir að framangreindum aðilum beri að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Með opinberum aðilum er átt við öll stjórnvöld. Er gert ráð fyrir þessu þar sem forsenda þess að umboðsmaður skuldara geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum er að kveðið sé á um víðtæka gagnaöflun embættisins þannig að yfirsýn náist yfir aðstæður þeirra einstaklinga sem leita eftir aðstoð hjá embættinu á grundvelli laganna. Má í þessu sambandi nefna upplýsingar um tekjur viðkomandi, hvort sem er að ræða tekjur vegna vinnu eða aðrar tekjur, svo sem bætur, styrki, greiðslur úr lífeyrissjóði, meðlagsgreiðslur eða opinbera fjárhagsaðstoð, svo og aðrar upplýsingar sem geta gefið heildarmynd af fjárhag og aðstæðum skuldara, svo sem upplýsingar um heilsufar, félagslegar aðstæður og upplýsingar sem varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot. Þá má jafnframt nefna hverjar þær upplýsingar sem upplýst geta um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, svo sem hvort skuldari hafi, í eigin nafni eða í fyrirsvari fyrir félag, bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu. Lagt er til að framangreind upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara sé háð því skilyrði að hún sé að hans mati nauðsynleg þannig að umboðsmaður geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum og að skuldari hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.
    Breyting þessi þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Ekki er þó gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra.

Um 10. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er kveðið á um að kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun skuli beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Í 2. málsl. ákvæðisins er kveðið á um að umboðsmaður skuldara sendi aðilum sem málið varðar fram komið erindi og kalli eftir nauðsynlegum upplýsingum. Hér er gert ráð fyrir að við umræddan 2. málsl. verði bætt tilvísun í 5. gr. laganna þannig að ljóst sé í hverju umrædd upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara skuli felast, sbr. breytingar sem gert er ráð fyrir skv. 9. gr.

Um 11. gr.

    Í 3. mgr. 4. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta er kveðið á um að umboðsmanni skuldara sé heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra gagna frá opinberum aðilum, sem og þekktum lánardrottnum. Jafnframt er kveðið á um að umræddum aðilum sé skylt að veita umboðsmanni skuldara umbeðin gögn.
    Hér er gert ráð fyrir að í stað umræddrar 3. mgr. 4. gr. laganna komi tvær nýjar málsgreinar þar sem kveðið verði á um að umboðsmanni skuldara beri að ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og skuli umboðsmaður óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað og framferði umsækjanda til þess að meta hvort skilyrði laganna séu uppfyllt til samþykktar á umsókn. Í því skyni að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því er gert ráð fyrir að umboðsmanni sé heimilt að óska eftir upplýsingum frá framangreindum aðilum jafnvel þótt umsókn eða önnur gögn málsins beri ekki með sér að þeir eigi kröfu á hendur skuldara. Jafnframt er gert ráð fyrir að framangreindum aðilum beri að veita umboðsmanni skuldara umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Með opinberum aðilum er átt við öll stjórnvöld. Er gert ráð fyrir þessu þar sem forsenda þess að umboðsmaður skuldara geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum er að kveðið sé á um víðtæka gagnaöflun embættisins þannig að yfirsýn náist yfir aðstæður þeirra einstaklinga sem leita eftir aðstoð hjá embættinu á grundvelli laganna. Má í þessu sambandi nefna upplýsingar um tekjur viðkomandi, hvort sem er að ræða tekjur vegna vinnu eða aðrar tekjur, svo sem bætur, styrki, greiðslur úr lífeyrissjóði, meðlagsgreiðslur eða opinbera fjárhagsaðstoð svo og önnur gögn sem geta gefið heildarmynd af fjárhag og aðstæðum skuldara, svo sem upplýsingar um heilsufar, félagslegar aðstæður og upplýsingar sem varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot. Þá má jafnframt nefna hverjar þær upplýsingar sem upplýst geta um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að fjárhagsaðstoð verði veitt, svo sem hvort skuldari hafi, í eigin nafni eða í fyrirsvari fyrir félag, bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu. Lagt er til að framangreind upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara sé háð því skilyrði að hún sé að hans mati nauðsynleg þannig að umboðsmaður geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögunum og að skuldari hafi, áður en upplýsingaöflun fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum.
    Í ljósi þess að í lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru gerðar ríkari kröfur en áður til þess í hvaða tilvikum heimilt er að afla upplýsinga á grundvelli samþykkis og í samræmi við þær breytingar sem fyrirhugað er að verði á 3. mgr. er ekki gert ráð fyrir að samþykki skuldara þurfi að liggja fyrir þannig að umboðsmaður skuldara geti aflað nauðsynlegra gagna frá opinberum aðilum, sem og þekktum lánardrottnum, eins og kveðið er á um í umræddri 3. mgr. 4. gr. laganna.
    Breyting þessi þykir nauðsynleg eftir gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Ekki er þó gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra.

Um 12. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 57. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem nú orðast svo: „Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við skjólstæðing og leitað eftir samþykki hans þar sem því verður við komið.“ Er ákvæði þetta óbreytt síðan lögin voru sett árið 1991 og því barn síns tíma. Í ljósi aukinna krafna sem nýja persónuverndarreglugerðin gerir er lagt til að í stað núgildandi ákvæðis verði greinin orðuð þannig að félagsmálanefndum og starfsmönnum þeirra verði skylt að kalla eftir gögnum frá nánar tilteknum aðilum eftir því sem við á, að því marki sem nauðsynlegt er vegna vinnslu umsókna um aðstoð og þjónustu samkvæmt lögunum. Eru þessir aðilar helstir Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins, t.d. vegna mats á vinnufærni og stöðu á vinnumarkaði eða vegna örorku, ríkisskattstjóri vegna fjárhagsaðstoðar og Útlendingastofnun, þegar um er að ræða t.d. flóttafólk eða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá er lagt til að heimilt verði að kalla eftir upplýsingum frá menntastofnunum m.a. vegna umsókna um námsstyrki og sérstakan húsnæðisstuðning. Þá er lagt til að framangreindum aðilum verði gert skylt að afhenda upplýsingar berist beiðni þess efnis.
    Einnig er lagt til að heimilt verði að kalla eftir læknisvottorði þegar óskað er eftir aðstoð vegna veikinda, slysa eða sambærilegra ástæðna.
    Þá er lagt til að upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að umsækjandi hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu upplýsinga gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að 2. mgr. 62. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga falli brott en þar segir núna: „Þegar málefni skjólstæðings er til meðferðar hjá fleiri en einni stofnun skal um það höfð samvinna milli þeirra og veittar gagnkvæmar upplýsingar eftir því sem nauðsynlegt er, þó þannig að gætt sé trúnaðar gagnvart skjólstæðingi.“ Ráðuneytið telur að breytingar sem lagðar eru til í 12. gr. nái yfir upplýsingamiðlun sem kveðið er á um í ákvæðinu.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins til þess að sinna mati á stuðningsþörfum fatlaðs fólks fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Frá því að málaflokkur fatlaðs fólks fluttist frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 hefur stofnunin framkvæmt slíkt mat á grundvelli samnings við Jöfnunarsjóðinn og hafa niðurstöðurnar verið grundvöllur úthlutunar fjár til þjónustunnar. Þá hafa niðurstöður matsins nýst sveitarfélögunum við mat á þjónustuþörfum einstaklinga. Með því að lögfesta þessa heimild mun ekki leika vafi á því að Greiningar- og ráðgjafarstöðin geti í einstökum tilvikum miðlað niðurstöðu mats til þess sveitarfélags sem ábyrgð ber á þjónustu við viðkomandi einstakling.

Um 15. gr.

    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á 7. gr. laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003, en hún fjallar um þagnarskyldu starfsmanna og meðferð persónuupplýsinga. Í a-lið greinarinnar er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr., sem fjallar um trúnað, þagnarskyldu, varðveislu persónuupplýsinga, upplýsingagjöf og afhendingu gagna, þannig að á undan orðinu „varðveislu“ komi „vinnsla“ til samræmis við heiti nýrrar persónuverndarlöggjafar og lagt til að bætt verði við tilvísun í persónuverndarlög til viðbótar við tilvísanir í lög um réttindi sjúklinga og lög um heilbrigðisstarfsmenn.
    Þá er í b-lið lagt til að við greinina bætist tvær nýjar málsgreinar. Lagt er til að í 3. mgr. verði kveðið skýrt á um heimild stofnunarinnar til að afla og vinna með persónuupplýsingar vegna starfa sinna. Þá er sérstaklega kveðið á um til hvaða þjónustuveitenda henni er heimilt að miðla upplýsingum en það eru þeir aðilar sem bera ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk sem þarf oft samþætta þjónustu margra kerfa. Helgast það af mikilvægi þess að þessir aðilar geti unnið saman og tryggt þá samfellu í þjónustu og vinnubrögðum sem þarf. Er jafnframt lagt til að vinnsla upplýsinga samkvæmt ákvæðinu sé háð því skilyrði að viðkomandi einstaklingur eða forráðamaður hans hafi, áður en hún fer fram, staðfest að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða vinnslu og miðlun upplýsinga í viðkomandi máli, svo sem með því að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Er þannig gert ráð fyrir að slík staðfesting sé veitt skriflega eða á annan hátt eftir því sem við á, t.d. rafrænt. Er það gert svo að tryggt sé að framangreindir aðilar séu upplýstir um tilgang upplýsingaöflunar áður en hún á sér stað, ásamt frekari upplýsingum sem viðeigandi teljast hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gagnsæja vinnslu gagnvart hlutaðeigandi aðilum. Þá er lagt til að í 4. mgr. verði kveðið á um að stofnunin skuli halda skrá yfir þá sem njóta þjónustu hennar í þeim tilgangi að hafa yfirsýn yfir stærð hópsins, bæta þjónustu og gæði hennar og hafa eftirlit með henni, sem og til tölfræðivinnslu og vísindarannsókna. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar vegna stefnumótunar í málaflokknum sem og fyrir stjórnvöld til þess að sinna eftirliti með þjónustu sem veitt er. Sams konar heimild er að finna í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.