Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 814  —  483. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ellerti B. Schram um aðgerðir vegna hækkandi hlutfalls aldraðra.

     1.      Til hvaða aðgerða telur ráðherra brýnt að grípa á næstu missirum í ljósi hækkandi hlutfalls aldraðra á Íslandi á komandi árum sem kallar á mörg verkefni af hálfu hins opinbera?
    Hækkandi hlutfall aldraðra kallar á sameiginlega ábyrgð samfélagsins, þ.m.t. ríkis og sveitarfélaga. Ákveðin þjónustuúrræði við aldraða snúa að heilbrigðisráðherra og er svarið miðað við það.
    Markmið ráðherra er að veita fólki þjónustu í samræmi við þarfir hverju sinni og á viðeigandi þjónustustigi. Áhersla er lögð á að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili með stuðningi og þeirri heilbrigðisþjónustu sem einstaklingurinn þarf á að halda. Til að halda heilsu sem lengst og geta lifað sjálfstæðu lífi skiptir miklu að hvetja fólk til ábyrgðar og hollra lífshátta svo fyrirbyggja megi og seinka sjúkdómum og færnitapi ef þess er nokkur kostur.
    Uppbygging og fjölgun hjúkrunarrýma hefur verið í algerum forgangi en mikilvægt er að styrkja aðra stuðningsþjónustu sem stuðlar að sjálfstæðri búsetu. Heimahjúkrun er einn liður í slíkri þjónustu. Nú um áramótin ákvað ráðherra að auka fjárveitingu um 130 millj. kr. til að efla heimahjúkrun.
    Auk hefðbundinnar heimahjúkrunar telur ráðherra mikilvægt að koma á fót sérhæfðri heimahjúkrun við aldraða, sbr. vel heppnað tilraunaverkefni sem unnið var í samvinnu við Landspítala árið 2017.
    Tryggja verður áframhaldandi styrkingu heimahjúkrunar í takt við áherslur heilbrigðisyfirvalda um að styðja við sjálfstæða búsetu aldraðra.
    Dagdvöl er annar mikilvægur þáttur í stuðningsþjónustu við aldraða. Á landinu eru nú rekin rúmlega 750 dagdvalarrými og hefur þeim fjölgað síðustu misseri. Þar má m.a. nefna 30 ný sérhæfð rými fyrir fólk með heilabilun sem Hrafnista í Reykjavík fékk rekstrarleyfi fyrir nú í haust. Við opnun nýs hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í Reykjavík, sem áætlað er að verði í lok þessa árs, fjölgar dagdvalarrýmum enn um 30 rými.
    Ljóst er að þörf er á fleiri dagdvalarrýmum en unnið er að markvissari forgangsröðun í þau þjónustuúrræði sem fyrir hendi eru svo öruggt sé að þeir sem eru í mestri þörf fyrir þjónustu séu jafnframt í mestum forgangi.
    Þótt áhersla heilbrigðisyfirvalda sé fyrst og fremst á að stuðla að því að aldraðir geti búið heima eins lengi og unnt er þarf að vera hægt að bregðast við þegar það er ekki lengur mögulegt. Hjúkrunarrými eru það þjónustuúrræði sem þá tekur við. Við uppsafnaðri þörf á fjölgun hjúkrunarrýma er nú brugðist af fullum krafti, bæði með því að fjölga rýmum og endurbæta þau sem fyrir eru í takt við nútíma kröfur. Framkvæmdir og undirbúningur við 14 hjúkrunarheimili eru nú yfirstandandi, bæði til fjölgunar rýma og til að bæta aðbúnað. Á næstu tveimur árum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 rými, flest verða þau á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest. Einnig er undirbúningur hafinn fyrir önnur 206 ný hjúkrunarrými sem reiknað er með að verði tilbúin til notkunar innan fjögurra ára. Á sama tíma eru framkvæmdir við endurbætur á eldri rýmum.

     2.      Telur ráðherra að fella mætti brott ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sem mælir fyrir um heimild fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra til að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða, þannig að fé úr sjóðnum fari einungis til uppbyggingar og viðhalds þjónustumiðstöðva, dagdvalar og stofnana fyrir aldraða?
    Samkvæmt fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði hefur Framkvæmdasjóði aldraðra verið heimilt að verja fé úr sjóðnum til þess að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða frá árinu 2011. Undanfarin ár hefur þessi upphæð numið 625 millj. kr. á ári og enn er gert ráð fyrir að notkun þessa ákvæðis fyrir árið 2019.
    Ríkur vilji er til þess að létta þessum kostnaði af Framkvæmdasjóði aldraðra en tryggja þarf þá sambærilegt fjármagn í fjárlögum til reksturs hjúkrunarrýma.