Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 815  —  484. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ellerti B. Schram um starfshóp um kjör eldri borgara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvers vegna hefur tafist hjá starfshópi um kjör eldri borgara sem standa höllum fæti, sem ráðherra skipaði í vor og var ætlað að skila tillögum fyrir 1. nóvember 2018, að skila tillögum sínum og hvenær er von á tillögum frá hópnum?

    Í sáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 segir m.a. að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Þar er lagt til að gerð verði sérstök úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.
    Með vísan til sáttmálans skipaði félags- og jafnréttismálaráðherra starfshóp um kjör aldraðra 26. apríl 2018. Í skipunarbréfi ráðherra segir m.a. að starfshópnum sé falið að fjalla um kjör eldri borgara í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þær ólíku aðstæður sem eldri borgarar búa við og þá einnig að koma með tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem búa við lökustu kjörin.
    Starfshópurinn hélt 15 fundi á tímabilinu 3. maí – 10. desember 2018. Þá fór fram mikil vinna milli funda, m.a. við skilgreiningu þess hóps eldri borgara sem býr við lökustu kjörin. Einnig kynnti starfshópurinn sér ýmsar skýrslur og önnur gögn um stöðu aldraðra hér á landi sem og fyrirkomulag mála í nágrannalöndunum, einkum í Noregi. Hópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í desember 2018 sem fylgir hér með.



Fylgiskjal.


Skýrsla starfshóps um kjör aldraðra.

www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0815-f_I.pdf