Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 816  —  423. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kærur og málsmeðferðartíma.


     1.      Hversu margar kærur bárust eftirtöldum á hverju ári frá árinu 2013:
                  a.      úrskurðarnefnd um upplýsingamál,
                  b.      óbyggðanefnd,
                  c.      forsætisráðuneyti?

a. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
    Í skýrslum forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga, sem lagðar hafa verið fram á Alþingi undanfarin þrjú ár (þskj. 1503 á 145. löggjafarþingi, þskj. 935 á 146. löggjafarþingi og þskj. 1032 á 148. löggjafarþingi), kemur fram að fjöldi kærumála hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál var sem hér greinir árin 2013–2017, en að auki var aflað upplýsinga hjá nefndinni fyrir árið 2018:

Ár Kærumál
2013 72
2014 107
2015 94
2016 88
2017 72
2018 145

b. Óbyggðanefnd.
    Málum er ekki skotið til óbyggðanefndar með kærum heldur tekur nefndin landsvæði (landshluta) til meðferðar að eigin frumkvæði skv. 10. gr. laga nr. 58/1998 og veitir hlutaðeigandi ráðherra frest til að lýsa þar kröfum um þjóðlendur fyrir hönd ríkisins. Þegar kröfulýsing ríkisins liggur fyrir veitir nefndin öðrum frest til að lýsa kröfum um eignarréttindi á þeim svæðum sem kröfur ríkisins ná til. Eftir að allar kröfur í viðkomandi landshluta liggja fyrir tekur nefndin að jafnaði ákvörðun um að fjalla um þær í nokkrum aðskildum málum og innan hvers máls eru oft nokkur ágreiningssvæði. Hér á eftir er yfirlit yfir fjölda landshluta þar sem kröfum var lýst af hálfu ríkisins á hverju ári frá 2013, mála sem hófust hjá nefndinni og fjölda ágreiningssvæða í hverju þeirra:

Ár Landshlutar þar sem kröfum var lýst Mál sem hófust Ágreiningssvæði í málum
2013 1 4 16
2014 0 5 27
2015 0 0 0
2016 1 3 13
2017 0 0 0
2018 2 4 22

c. Forsætisráðuneyti.
    Á tímabilinu sem fyrirspurnin tekur til bárust forsætisráðuneytinu sem æðra stjórnvaldi sjö stjórnsýslukærur. Þrjár kærur í þjóðlendumálum, tvær kærur vegna málefna menningarminja og tvær kærur vegna þjóðgarðsins á Þingvöllum:

Ár Kærumál
2013 1
2014 0
2015 1
2016 5
2017 0
2018 0

     2.      Hver var meðalafgreiðslutími á hverju ári? Hver var stysti tími sem tekið hefur að afgreiða kæru og hver var lengsti tími á hverju ári?
a. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
    Meðalafgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál er einnig að finna í skýrslum forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga, en vakin er athygli á því að einungis er talinn afgreiðslutími kærumála sem lauk með úrskurði nefndarinnar. Afgreiðsla mála sem lýkur með öðrum hætti, t.d. með því að kærandi fær aðgang að umbeðnum gögnum hjá kærða, tekur að jafnaði mun skemmri tíma. Í töflunni hér á eftir er afgreiðslutími kærumála sem lauk með úrskurði tekinn saman, talinn frá dagsetningu kæru til dagsetningar úrskurðar:

Ár Meðalafgreiðslutími Stysti tími Lengsti tími
2013 202 dagar 49 dagar 471 dagur
2014 182 dagar 7 dagar 450 dagar
2015 296 dagar 19 dagar 647 dagar
2016 391 dagur 16 dagar 947 dagar
2017 210 dagar 30 dagar 392 dagar
2018 212 dagar 37 dagar 593 dagar

b. Óbyggðanefnd.
    Óbyggðanefnd hefur jafnan fá en mjög umfangsmikil mál til meðferðar hverju sinni og kveður upp úrskurði samtímis í öllum málum í hverjum landshluta. Þeir úrskurðir sem nefndin hefur kveðið upp frá árinu 2013 féllu að meðaltali 917 dögum eftir að kröfum ríkisins um þjóðlendur var lýst. Stysti tími sem leið frá kröfulýsingu ríkisins til uppkvaðningar úrskurða var 815 dagar en sá lengsti 1036 dagar. Málshraði hjá óbyggðanefnd er ekki eingöngu kominn undir nefndinni heldur markast hann einnig af lagaákvæðum sem gilda um nefndina, málatilbúnaði aðila og umfangi og framvindu gagnaöflunar. Hér er yfirlit yfir tímann frá því að kröfum ríkisins var lýst og þar til úrskurðir voru kveðnir upp í hverjum landshluta um sig á tímabilinu:

Ár Úrskurðir um svæði (landshluta) Dagsetning kröfugerðar ríkisins Dagsetning úrskurða Tími frá kröfulýsingu ríkisins til uppkvaðningar úrskurða
2013 Engir
2014 Svæði 8A 2. júlí 2012 19. des. 2014 900 dagar
2015 Engir
2016 Svæði 8B 10. des. 2013 11. okt. 2016 1036 dagar
2017 Engir
2018 Svæði 9A 8. feb. 2016 3. maí 2018 815 dagar

c. Forsætisráðuneyti.
    Málsmeðferðartími forsætisráðuneytisins í kærumálum var eftirfarandi frá dagsetningu kæru til úrskurðar:

Ár Meðalafgreiðslutími Stysti tími Lengsti tími
2013 56 dagar 56 dagar 56 dagar
2014 Engin kæra Engin kæra Engin kæra
2015 328 dagar 328 dagar 328 dagar
2016 76 dagar 7 dagar 146 dagar
2017 Engin kæra Engin kæra Engin kæra
2018 Engin kæra Engin kæra Engin kæra

     3.      Hversu margar kærur voru óafgreiddar hjá hverjum úrskurðaraðila 1. nóvember sl.?
a. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
    Ekki er unnt að kalla eftir nákvæmum upplýsingum um fjölda kærumála sem beið afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál á tilteknum tímapunktum án mikillar fyrirhafnar. Við gerð svarsins biðu 45 mál afgreiðslu nefndarinnar.

b. Óbyggðanefnd.
    Hinn 1. nóvember sl. voru til meðferðar hjá óbyggðanefnd fjögur mál á Snæfellsnesi sem var ólokið og innan þeirra voru samanlagt 22 ágreiningssvæði. Auk þess var komin fram krafa af hálfu ríkisins um þjóðlendu á tilteknu svæði í Strandasýslu, þ.e. þeim hluta Drangajökuls sem er innan sýslunnar. Fresti annarra til að lýsa þar kröfum um eignarréttindi er ólokið og því liggur ekki fyrir hvort svæðið sem krafan tekur til skiptist í fleiri en eitt ágreiningssvæði eða hvort fjallað verður um það í fleiri en einu máli.

c. Forsætisráðuneyti.
    Engin kærumál voru til meðferðar í ráðuneytinu við gerð svarsins.