Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 818  —  498. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum (brottfall tilvísunar).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    Orðin „svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis, sbr. 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis“ í b-lið 1. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 4. gr. innheimtulaga, nr. 95/2008, er fjallað um veitingu innheimtuleyfis. Innheimtuleyfi hefur verið veitt á grundvelli umsóknar frá einstaklingi sem skv. b-lið 1. mgr. hefur óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis, sbr. 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Við samþykkt laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, nr. 141/2018, láðist að fella brott tilvísun til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, í b-lið 1. mgr. 4. gr. innheimtulaga. Með lögunum var gerð sú breyting á umræddu ákvæði innheimtulaga að hæfisskilyrðið „gott orðspor“ kom í stað „óflekkaðs mannorðs“ en eftir stóð tilvísun til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þar er hins vegar að finna skilgreiningu á óflekkuðu mannorði. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum annmarka og er því lagt til með frumvarpi þessu að fella brott tilvísun í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis enda á hún ekki lengur við.