Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 819  —  455. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um Sjúkratryggingar Íslands og persónuvernd.


     1.      Hvaðan koma persónuupplýsingar sem Sjúkratryggingar vinna með, þ.e. gagnagrunnur með heimilisföngum og nöfnum aðila? Er stuðst við gagnagrunn Þjóðskrár?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er stuðst við gagnagrunn Þjóðskrár.

     2.      Hvernig eru verklagsreglur þegar send eru út bréf er varða börn? Eru þau stíluð á báða forráðamenn eða annan? Er miðað við lögheimili barns?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands eru bréf almennt stíluð á þann aðila sem stýrir fjölskyldunúmeri barns en það er elsti einstaklingur í fjölskyldu samkvæmt skráningu Þjóðskrár. Það getur því verið forsjárlaus maki forsjáraðila barnsins ef hann er eldri en forsjáraðilinn sem barn býr hjá. Þó benda Sjúkratryggingar Íslands á að í sumum kerfum þeirra sé mögulegt að handskrá sérstaklega tilgreindan forsjáraðila.
    Sjúkratryggingar Íslands birta bréf almennt rafrænt í þjónustugáttum sínum en þau eru prentuð út og send í bréfpósti hafi þau ekki verið lesin innan tiltekins tíma.

     3.      Telur ráðherra það samræmast persónuverndarlögum að Sjúkratryggingar stíli bréf er varðar málefni barns á annan en forráðamann, ef til vill einhvern sem er skráður á lögheimili barnsins?
    Persónuvernd hefur gert athugasemdir við framkvæmd Sjúkratrygginga Íslands og bent á úrlausnir. Í úrskurðum Persónuverndar hefur komið fram að miðlun persónuupplýsinga án sannreyningar til eldra foreldris sem skráð er á fjölskyldunúmer barns fari í bága við kröfu 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. þágildandi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, en sú grein fjallar um áreiðanleika persónuupplýsinga. Sem lausn benti Persónuvernd á að skrá ætti ábendingar einstaklinga sem kæmu fram með ósk um leiðréttingu á skráningu forsjárupplýsinga í upplýsingakerfi Sjúkratrygginga Íslands og að stofnunin skyldi haga miðlun upplýsinga í samræmi við leiðréttingar sem bærust.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur stofnunin skoðað lausnir vegna athugasemda Persónuverndar en ekkert hefur verið ákveðið nánar í þeim efnum. Ráðuneytið hefur áréttað athugasemdirnar við Sjúkratryggingar Íslands.