Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 825  —  370. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um kostnað vegna banns við innflutningi á fersku kjöti.


     1.      Hver er kostnaður ríkisins af málaferlum vegna synjana á heimildum til innflutnings á fersku kjöti, fyrir innlendum og alþjóðlegum dómstólum, að málskostnaði og skaðabótum meðtöldum?
    Tvö mál hafa verið rekin vegna ákvæða íslenskra laga og reglna um innflutning á fersku kjöti. Í fyrra málinu hóf Eftirlitsstofnun EFTA athugun árið 2012 á samræmi íslenskra laga við skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningnum í kjölfar kvörtunar SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu. Var málið sent til EFTA-dómstólsins 2017 og féll dómur 14. nóvember 2017. Kostnaður íslenska ríkisins vegna málsins í heild var 35.974.169 kr.
    Í seinna málinu stefndi fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. íslenska ríkinu 25. apríl 2014 til greiðslu skaðabóta vegna synjunar á innflutningi ófrysts kjöts. Lauk málinu með dómi Hæstaréttar Íslands 11. október 2018 í máli nr. 154/2017. Kostnaður íslenska ríkisins í þessu máli, að skaðabótum meðtöldum, var 11.059.832 kr.

     2.      Hvert er áætlað verðmæti þeirra kjötvara sem heimildar til innflutnings á hefur verið synjað eftir komu þess til landsins, þrátt fyrir að kröfur um dýraheilbrigðiseftirlit á sendingarstað hafi verið uppfylltar og í andstöðu við niðurstöður Hæstaréttar 11. október 2018 í máli nr. 154/2017?
    Matvælastofnun hefur hafnað einni umsókn um innflutning kjöts eftir að dómur Hæstaréttar Íslands féll 11. október 2018. Innihélt sú sending 226,5 kg af ófrystu nautakjöti að verðmæti 487.055 kr. (3.623,920 evrur).

     3.      Hvernig brást ríkisstjórnin við niðurstöðu EFTA-dómstólsins 14. nóvember 2017 í samningsbrotamálum E-2/17 og E-3/17 sem höfðuð voru af eftirlitsstofnun EFTA?
    Frá því dómur EFTA-dómstólsins féll 14. nóvember 2017 hefur verið unnið að viðbrögðum til að íslenska ríkið uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Þörf er á breytingu á 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.
    Samhliða undirbúningi á frumvarpi til breytinga á lögum hefur verið unnið að aðgerðum til að koma í veg fyrir að breytt fyrirkomulag innflutnings leiði af sér áhættu gagnvart heilsu manna og dýra.
    Ráðuneytið og Matvælastofnun hafa unnið að þessum undirbúningi frá því dómur féll. Meðal þess sem gert hefur verið er að sækja um viðbótartryggingar varðandi salmonellu til Eftirlitsstofnunar EFTA 4. júlí 2018. Hinn 16. janúar sl. var þessi umsókn íslenskra stjórnvalda samþykkt og er stjórnvöldum þar af leiðandi heimilt að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og í kalkúnakjöti. Jafnframt hefur verið unnið að aðgerðum til að takmarka hættu vegna kampýlóbakter, sýklalyfjaónæmis o.fl. Í þeirri vinnu hefur verið leitað til erlendra sérfræðinga á sviði matvælaöryggis. Auk þessa hafa íslensk stjórnvöld átt fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA um dóm EFTA-dómstólsins og áhrif þess hér á landi.

     4.      Hvaða rök standa að baki bið eftir frumvarpi til breytinga á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, til að samræma þau þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins, sbr. framangreindan dóm Hæstaréttar?
    Með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007–140/2007 frá 26. október 2007 samþykkti íslenska ríkið að taka upp matvælalöggjöf ESB. Íslenska ríkið samdi jafnframt um aðlögunartíma til að innleiða matvælalöggjöfina og gera ráðstafanir til að gera nauðsynlegar breytingar á eftirlitskerfi hér á landi og til að grípa til aðgerða til að takmarka áhættu.
    Meðal gerða sem teknar voru upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar var tilskipun 89/662/EB um heilbrigðiseftirlit með dýraafurðum í viðskiptum milli EB-ríkjanna. Dómur EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017 varðaði einkum samræmi íslenskra laga við þessa tilskipun. Í skýrslu starfshóps um áhrif af upptöku gerða í I. kafla I. viðauka við EES-samninginn frá 17. október 2005 lagði embætti yfirdýralæknis mat á áhrif innleiðingu lykilgerða á sóttvarnir í landinu. Í greinargerð yfirdýralæknis var innleiðing tilskipunar 89/662/EB talin til þess fallin að auka hættu á dýrasjúkdómum hér á landi, nema gripið væri til viðeigandi mótvægisaðgerða. Það hefur því verið talin rík þörf á því að undirbúa ekki eingöngu breytingar á lögum til samræmis við dóm EFTA-dómstólsins heldur jafnframt tryggja að gripið sé til aðgerða þannig að breytingar á fyrirkomulagi innflutningseftirlits leiði ekki til aukinnar áhættu fyrir menn og dýr. Eins og rakið hefur verið í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar hefur verið unnið að undirbúningi slíkra mótvægisaðgerða frá því dómur féll.
    Á sínum tíma samdi íslenska ríkið um aðlögunartíma til að hægt væri að koma þessum aðgerðum til framkvæmda áður en matvælalöggjöfin tók gildi. Á árunum 2011–2017 hélt íslenska ríkið uppi vörnum í máli Eftirlitsstofnunar EFTA sem síðan endaði fyrir EFTA-dómstólnum. Má segja að í kjölfar dómsins hafi verið hafist handa á ný við undirbúning mótvægisaðgerða sem fyrirhugaðar voru þegar matvælalöggjöf ESB var samþykkt árið 2007.